• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Háskólar SÞ á Íslandi

Háskóli Sameinuðu þjóðanna var settur á stofn árið 1975 til að styrkja alþjóðlegt samstarf á milli SÞ, háskóla og annarra sem stunda vísindarannsóknir, með sérstaka áherslu á þróunarríkin. Markmið skólans er m.a. að tengja vísindamenn víðs vegar að úr heiminum og að efla rannsóknir á málefnum sem eru ofarlega á baugi hjá SÞ, annars vegar umhverfismál og sjálfbæra þróun og hinsvegar frið og góða stjórnunarhætti. Skólar sem eru hluti af neti Háskóla SÞ eru nú 16 talsins og starfa víða um heim í aðildarríkjum SÞ.

Hér á landi starfa þrír skólar innan vébanda Háskóla Sameinuðu þjóðanna:

  • Jarðhitaskólinn
  • Sjávarútvegsskólinn
  • Landgræðsluskólinn.
  • Jafnréttisskólinn


Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Jarðhitaskólinn hefur starfað á Íslandi frá 1978. Orkustofnun hýsir skólann og ber á honum rekstrarlega ábyrgð. Námið felst í sex mánaða þjálfun sérfræðinga frá þróunarlöndum þar sem jarðhiti er til staðar, en áhugi á nýtingu jarðhita fer sífellt vaxandi og berast skólanum óskir um þjálfun og kennslu bæði frá þróunarlöndum og iðnríkjum sem vilja efla notkun endurnýjanlegra orkulinda. Frá upphafi starfseminnar hafa samtals 452 einstaklingar stundað nám við skólann en fyrir utan sex mánaða þjálfunina styður skólinn nemendur til masters- og doktorsnáms á Íslandi. Þar að auki heldur skólinn reglulega námskeið í þróunarlöndum.

Vefur Jarðhitaskólans.

 

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók til starfa á árinu 1998, en markmið hans er að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi og fiskveiðum í þróunarríkjum. Hafrannsóknastofnun ber ábyrgð á rekstri skólans, en starfsemin byggist m.a. á samstarfi við Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, auk fjölda fyrirtækja og annarra stofnana.

Nám við skólann felst í sex mánaða þjálfun fyrir sérfræðinga frá þróunarlöndunum en þeir sérhæfa sig á því sviði sem starf þeirra snýr að í sínu heimalandi. Sjávarútvegsskólinn leggur sérstaka áherslu á lönd í Afríku sunnan Sahara og smáeyþrjóunarríki, en einnig koma nemendur frá ýmsum löndum Asíu.

Frá upphafi hafa samtals 223 nemendur frá 43 löndum lokið sex mánað námsdvöl á Íslandi og þar af hafa 78 konur útskrifast úr skólanum.Til viðbótar því sex mánaða námi sem fer fram á Íslandi skipuleggur Sjávarútvegsskólinn stutt námskeið í þróunarlöndum í samvinnu við heimamenn og alþjóðlegar stofnanir auk þess sem skólinn styður nemendur til meistar og doktorsnám á Íslandi.

Vefur Sjávarútvegsskólans.

 

Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Landgræðsluskólinn varð formlega hluti af neti Háskóla SÞ í febrúar 2010 þegar skrifað var undir samstarfssamning þar að lútandi. Skólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Markmið skólans er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum, sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands.

Frá því Landgræðsluskólinn hóf störf, sem tilraunaverkefni árið 2007, hafa 17 einstaklingar frá átta löndum útskrifast frá skólanum. Í október 2010 luku fyrstu sex einstaklingarnir námi við skólann eftir að hann varð formlega hluti af Háskóla SÞ.

Vefur Landgræðsluskólans.

 

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðlegi jafnréttisskólinn (GEST) á Íslandi er orðinn hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hefur þríhliða starfssamningur utanríkisráðuneytis, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Háskóla Íslands þar að lútandi verið undirritaður.

Alþjóðlegi jafnréttisskólinn hefur starfað frá ársbyrjun 2009, hann var upprunalega tilraunaverkefni með það að markmiði að verða síðar hluti af tengslaneti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hann er byggður á sömu hugmyndafræði og aðrir skólar HSÞ.

Líkt og aðrir skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna er Alþjóðlegi jafnréttisskólinn liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Hann hefur að markmiði að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum sem starfa að jafnréttismálum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Í náminu er lögð áhersla á að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í anda þriðja þúsaldarmarkmiðsins, um að unnið skuli að jafnrétti kynjanna og frumkvæðisrétti kvenna. Einnig er lögð áhersla á jafnréttissjónarmið við friðaruppbyggingu í samræmi við ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Loks er sjónum beint að samþættingu kynjasjónarmiða í umhverfismálum og við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, s.s. í fiskveiði-, orku- og landgræðslumálum.

Frá upphafi hefur 21 nemandi útskrifast frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum, 14 konur og 7 karlar frá Afganistan, Palestínu, Mósambík og Úganda. Þá munu átta nemendur útskrifast hinn 31. maí næstkomandi, þrír karlar og fimm konur, sem koma frá Palestínu, Malaví, Mósambík og Úganda.

Vefur Jafnréttisskólans.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook