• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Málefni 1. nefndar

Almennt um takmörkun vígbúnaðar og afvopnun

Starf Sameinuðu þjóðanna að takmörkun vígbúnaðar og afvopnun skiptist í aðalatriðum á milli allsherjarþingsins í New York og afvopnunarráðstefnunnar í Genf. Fyrsta nefnd allsherjarþingsins fjallar um öll afvopnunarmál á dagskrá þingsins en auk þess fer fram samráð um afmarkaða þætti afvopnunarmála í afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna (United Nations Disarmament Commission), sem heyrir einnig undir allsherjarþingið. Öll aðildarríki eiga þess kost að taka þátt í störfum nefndanna tveggja í New York. Ísland er hins vegar ekki aðili að afvopnunarráðstefnunni í Genf en aðildarríki hennar eru 65 að tölu. Norrænu ríkin Finnland, Noregur og Svíþjóð auk Evrópusambandsríkjanna Grikklands, Lúxemborgar og Portúgals eru aðilar að afvopnunarráðstefnunni. Ísland styður markmið ráðstefnunnar heils hugar en sem vopnlaust ríki hefur aðild Íslands að ráðstefnunni ekki verið talið forgangsatriði.

Starf afvopnunarráðstefnunnar í Genf hefur um árabil einkennst af þrátefli. Frá því að samkomulag náðist um efnavopnasamninginn árið 1993 og samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn árið 1996 hefur ekki tekist að ná samkomulagi um dagskrá ráðstefnunnar og gerð nýrra afvopnunarsamninga. Dagskráin er háð samhljóða samkomulagi aðildarríkjanna.
Starfið innan afvopnunarnefndar Sameinuðu þjóðanna hefur jafnframt reynst erfitt undanfarin ár. Fyrr á árinu 2006 fór fram fyrsta fundalota af þremur á jafnmörgum árum. Umfjöllunarefni á þessum fundum verður afvopnun kjarnavopna og aðgerðir gegn útbreiðslu kjarnavopna annars vegar og hins vegar traustvekjandi aðgerðir á sviði hefðbundinna vopna.

Áherslur Íslands

Formaður fyrstu nefndar á 64. allsherjarþingi var José Louis Cancela, fastafulltrúi Úrúgvæ. Nefndin starfaði frá 1. október til 2. nóvember 2009 og fór lokaatkvæðagreiðsla um ályktanir nefndarinnar fram í allsherjarþinginu 2. desember.

Starf nefndarinnar var með hefðbundnu sniði og hófst á almennri umræðu. Fastafulltrúi flutti ræðu 9. október og lýsti afstöðu Íslands til afvopnunarmála og takmörkunar vígbúnaðar.

Nefndin samþykkti að þessu sinni 50 ályktanir og 4 ákvarðanir. Af þeim voru 33 samþykktar samhljóða og 22 í atkvæðagreiðslu. Ísland var meðflytjandi að 9 ályktunum.

Á síðustu árum hefur hlutfall ályktana sem samþykktar eru samhljóða í fyrstu nefnd hækkað og hefur aldrei verið hærra en á árinu 2009. Einnig vakti eftirtekt í þessari fundalotu að ný ríkisstjórn undir forsæti Barack Obama hefur breytt afstöðu Bandaríkjanna til ýmissa mála, m.a. til samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, en þetta var í fyrsta sinn sem ályktun um samninginn var samþykkt samhljóða. Þá voru Bandaríkin í hópi 151 ríkis sem studdi ályktunina um vopnaviðskiptasamning, en árið 2008, þegar ályktunin var samþykkt í fyrsta sinn, greiddu Bandaríkin atkvæði gegn henni. Ályktunin kveður á um að halda eigi ráðstefnu um vopnaviðskiptasamning árið 2012, þar sem markmiðið er að þróa lagalega bindandi samning um staðla í viðskiptum með hefðbundin vopn. Helsti ásteytingarsteinninn í samningaviðræðunum um ályktunina var hvort samþykkja yrði slíkan samning samhljóða.

Önnur mikilvæg ályktun nefndarinnar fjallaði um skýrslu afvopnunarnefndarinnar í Genf, þar sem fagnað var ákvörðun um að hefja samningaviðræður um bann við framleiðslu kjarnakleyfra efna árið 2010.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook