• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Samstarf við stofnanir SÞ

Stuðningur og samstarf við stofnanir Sameinuðu þjóðanna

Stuðningur og samstarf við stofnanir Sameinuðu þjóðanna er veigamesti þáttur fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu á vegum íslenskra stjórnvalda, en 65% framlaga til alþjóðastofnana rennur til starfsemi SÞ. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á samstarf við stofnanir sem endurspegla markmið Íslands og eru þrjár þeirra lykilstofnanir í þróunarstarfi Íslands: Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna, UNICEF, Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women (áður UNIFEM) og Háskóli Sameinuðu þjóðanna, UNU.

 

UNICEF

Hlutverk UNICEF er að bæta hag barna, ungs fólks og kvenna í þróunarlöndum á grundvelli Barnasáttmála SÞ. Stofnunin sinnir einnig mikilvægu starfi við neyðar og mannúðaraðstoð.  Stuðningur við UNICEF felst í almennum og eyrnamerktum framlögum. Sem liður í áherslu stjórnvalda á Miðausturlönd hefur starfsemi UNICEF í Palestínu verið styrkt. Íslenskir sérfræðingar hafa einnig starfað við skemmri verkefni á vegum Íslensku friðargæslunnar hjá UNICEF á svæðinu. Stjórnvöld hafa í samstarfi við Landsnefnd UNICEF á Íslandi stutt við heilsugæsluverkefni í Vestur Afríkuríkinu Gíneu-Bissá. Á árinu 2010 átti Ísland sæti í stjórn UNICEF.

 

UN Women

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað í júlí 2010 að koma á fót nýrri stofnun um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women. Voru þá fjórar stofnanir sem störfuðu að jafnréttismálum innan SÞ sameinaðar í eina. UN Women tók til starfa 1. janúar 2011. Tilgangurinn með sameiningunni er að efla og styrkja jafnréttismál innan SÞ, aðstoða aðildarríkin við að vinna að framgangi jafnréttismála og skerpa ábyrgð vegna skuldbindinga og ákvarðana sem teknar hafa verið á vettvangi samtakanna.

Markviss barátta fyrir jafnrétti kynjanna er meginmarkmið stofnunarinnar. Hún er háð með því að efla efnahagsleg réttindi og öryggi kvenna, draga úr ofbeldi gegn konum, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og huga að kynjajafnrétti í lýðræðisþróun. Framlag Íslendinga er bæði almennt og eyrnamerkt styrktarsjóð sem berst gegn kynbundnu ofbeldi. Auk þess hafa framlög runnið til verkefna í Afganistan, Palestínu og á Balkanskaga.

Íslenskir sérfræðingar hafa verið kostaðir til starfa hjá UNIFEM undanfarin ár á Balkanskaga, í Líberíu, á Barbados og í höfuðstöðvum sjóðsins. Einnig er gott samstarf milli utanríkisráðuneytisins og Landsnefndar UN Women á Íslandi og var formlegur samstarfssamningur við Landsnefndina framlengdur til þriggja ára á árinu 2010.

 

Aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna

Íslendingar styðja að auki starfsemi annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem allar eiga það sameiginlegt að gegna lykilhlutverki í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og neyðar- og mannúðaraðstoð.
Þróunaráætlun SÞ, UNDP er stærsta stofnun SÞ á sviði þróunarmála, en hún gegnir sérstöku samræmingarhlutverki á vettvangi. Palestínuflóttamannaaðstoðin, UNRWA sinnir málefnum  flóttamanna frá Palestínu og veitir tæplega fimm milljónum Palestínumanna í Miðausturlöndum menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslega aðstoð.

 

UNFPA - Mannfjöldasjóður SÞ

UNFPA starfar á sviði mannfjöldaþróunar og kyn- og frjósemisheilbrigðis og –réttinda. Hluti íslenskra framlaga hefur runnið í sérstakan sjóð á vegum stofnunarinnar sem aðstoðar konur sem þjást af fistli til að ná heilsu með einfaldri skurðaðgerð (sjá umfjöllun á bls 9). Sjóðurinn hefur líka beitt sér í málefnum kvenna í Afganistan og hefur sú starfsemi hlotið stuðning íslenskra stjórnvalda.

Flóttamannaaðstoð SÞ, UNHCR vinnur að málefnum flóttamanna um allan heim. Stofnunin sinnir yfir 10 milljónum flóttamanna og er fjármögnuð með frjálsum framlögum aðildarríkja SÞ. Framlagi íslenskra stjórnvalda hefur verið varið til almennra verkefna og til stuðnings við flóttamenn í Jórdaníu og Afganistan. Matvælaaðstoð SÞ, WFP er öflugasta stofnun SÞ á sviði mannúðaraðstoðar og á árinu 2011 er talið að um 90 milljónir nauðstaddra á hamfarasvæðum í 70 löndum njóti aðstoðar hennar.

Þegar neyðarástand skapast kallar stofnunin eftir framlögum sem stjórnvöld bregðast við. Framlög íslenskra stjórnvalda á ári hverju ráðast af slíkum beiðnum, en á árinu 2010 var framlögum beint til Pakistan og Fílabeinsstrandarinnar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, FAO er helsta stofnun SÞ á sviði landbúnaðar, fiskimála og skógræktar. Verkefni hennar á sviði þróunarsamvinnu miða að því að auka fæðuöryggi, en íslensk stjórnvöld hafa stutt við verkefni á sviði fiskimála.

 

Alþjóðabankinn

Samstarf við Alþjóðabankann byggist á framlagi til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) og stuðningi við einstaka sjóði og verkefni bankans. Alþjóðaframfarastofnunin veitir styrki og lán með hagkvæmum kjörum til fátækustu ríkja heims og hefur Ísland verið aðili að stofnuninni frá upphafi hennar árið 1960. Þau verkefni sem stjórnvöld leggja áherslu á eru á sviði jarðhita, fiskimála og jafnréttismála, auk þess sem stutt er við norrænt samstarf í mannréttindamálum innan bankans.

 

Jafnréttismál innan Alþjóðabankans

Aðgerðaáætlun Alþjóðabankans um jafnréttismál var hleypt af stokkunum í september 2006. Tilgangur áætlunarinnar er að auka efnahagslegan styrk kvenna og þar með almennan hagvöxt í þróunarríkjum og styðja þannig við framgang þúsaldarmarkmiðanna. Ísland hefur styrkt verkefnið, bæði með fjárframlögum og faglegri ráðgjöf. Nýlega var gerð úttekt á jafnréttismálum í Alþjóðabankanum og þótti aðgerðaáætlunin hafa hleypt nýju blóði í jafnréttisstarf innan bankans.

 

ESMAP

Ísland tekur þátt í ESMAP, sérstöku orkuverkefni á vegum Alþjóðabankans sem meðal annars snýst um jarðhitanýtingu. Tilgangur verkefnisins er að veita tæknilega ráðgjöf á sviði orkumála og stuðla þannig að efnahags- og félagslegum framförum með aukinni orkuframleiðslu sem byggist á hagkvæmni og öruggri orkuöflun.

Við ESMAP starfar íslenskur jarðhitasérfræðingur, kostaður af Íslandi, að greiningu og undirbúningi verkefna í þróunarríkjum sem Alþjóðabankinn getur stutt. Það styrkir undirbúning þessara verkefna að víða, þar sem jarðhita er að finna, eru starfandi sérfræðingar sem hafa hlotið menntun við Jarðhitaskóla HSÞ á Íslandi.

 

PROFISH

Ísland er eitt þeirra ríkja sem höfðu frumkvæði að stofnun PROFISH-verkefnisins árið 2005. Með verkefninu er ætlunin að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, stuðla að hagsæld, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra. Auk fjárframlags kostaði Ísland útsendan starfsmann til verkefnisins á árunum 2009-2010 sem styrkti enn frekar samstarfið við bankann.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook