• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Um félagið

Um félagið

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var stofnað 2. ágúst 1946. Saga félagsins er því orðin löng og fjölbreytileg, en skipulagðri skráningu hennar er ekki lokið. Félagið hefur verið vettvangur fyrir upplýsingagjöf um Sameinuðu þjóðirnar þar sem markmið félagsins eru að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Við kynnum Sameinuðu þjóðirnar í gegnum vefmiðla, opna fundi, ráðstefnur og kynningar. Með starfinu vonumst við til að þorri þjóðarinnar styðji í auknu mæli við alþjóðlegt þróunarstarf. Við leggjum áherslu á þekkingarmiðlun til ungs fólks, nemenda og kennara í gegnum vefinn Globalis.is. Einnig er í mótun UNESCO skólaverkefnið sem hefur það markmið að efla kennslu á SÞ í skólum landsins.

Sama dag og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var stofnað voru svipuð félög stofnuð í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna um heiminn og heimssamtökin World Federation of United Nations Associations (www.wfuna.org). Síðan þá telja Félög Sameinuðu þjóðanna vel á annað hundrað, en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193.

Við stofnun Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, í mars 2004, var starfsmaður ráðinn og hafði m.a. það hlutverk í 10% stöðu fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna að gefa út fréttabréf félagsins, uppfæra vefsetur þess, viðhalda félagatali o.s.frv. Þröstur Freyr Gylfason var ráðinn til félagsins í 20% starf í febrúar 2005 og var aukið við stöðuna árið 2006 og henni breytt í 40% hlutastarf framkvæmdastjóra. Þetta var gerbreyting frá fyrri tíð en um áratugaskeið hafði Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi verið rekið af stjórnarmönnum í sjálfboðavinnu. Guðrún Helga Jóhannsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 2008 og var henni kleift að auka stöðugildið í 50% til ársins 2011. Núverandi framkvæmdastjóri félagsins, Berglind Sigmarsdóttir, hefur verið í hlutastarfi sömuleiðis. Þröstur Freyr hefur verið formaður félagsins frá árinu 2012.

Áður en Félag Sameinuðu þjóðanna fékk aðstöðu í sameiginlegri Miðstöð SÞ á Laugavegi 42 hafði það um árabil haft starfsaðstöðu í Austurstræti. Þegar sú aðstaða var ekki lengur fyrir hendi fékk félagið í nokkur ár afnot af herbergi hjá utanríkisráðuneytinu ásamt fundaraðstöðu. Var það afar mikilvægur stuðningur utanríkisráðuneytisins við Félag Sameinuðu þjóðanna því allstórt hlutfall af fjármagni félagsins hafði um árabil farið í húsnæðisrekstur í stað verkefna.

Sú breyting, að komast í sameiginlega Miðstöð SÞ, var því mikil og opnaði fyrir nýja möguleika í starfsemi félagsins. Miðstöðin var opnuð 12. mars 2004 og var fyrst til húsa í Skaftahlíð 24. Á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október, árið 2005 var ný Miðstöð Sameinuðu þjóðanna formlega opnuð á Laugavegi 42, 2. hæð.

Þennan dag var 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna fagnað, og af því tilefni og formlegrar opnunar nýrrar Miðstöðvar SÞ efndu Félag Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við UNRIC (Upplýsingaskrifstofa S.Þ. fyrir V-Evrópu) til veglegs málþings um Sameinuðu þjóðirnar sextugar, undir yfirskriftinni: "Eftir leiðtogafundinn, hvað nú?".

Í lok apríl 2012 fluttu fluttu félögin þrjú miðstöðina að Laugaveg 176 og eru þar í góðu leiguhúsnæði á fimmtu hæðinni. Fasteignafélag Reitir veita félögunum myndarlegan styrk í formi hagstæðs leiguverðs og kemur það sér afar vel fyrir rekstur þessara félaga.

Sameiginlega reka Miðstöð SÞ þrjú félög, þ.e. Unicef, UN Women og Félag Sameinuðu þjóðanna.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook