• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Upplýsingar

Mannúðaraðstoð

 

Mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna

Stóráföll og hamfarir geta dunið yfir mannkynið hvar sem er og hvenær sem er. Orsökin getur verið flóð, þurrkar, jarðskjálftar eða átök manna á milli. Slíkum áföllum fylgir mannfall og þjáning, fólk flosnar upp og undirstöður samfélaga gliðna.

 

Neyðaraðstoð

Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra bregðast við stóráföllum með því að útvega mat, húsaskjól og lyf og annast skipulag á flutningi hjálpargagna til þeirra sem eiga um sárt að binda - sem oftast eru börn, konur og gamalmenni.

Til að fjármagna þessa aðstoð og koma henni til þeirra sem á þurfa að halda hafa Sameinuðu þjóðirnar aflað milljarða bandaríkjadala með frjálsum framlögum um heim allan. Á árinu 2001 einu saman sendi Mannúðarskrifstofa Sþ út 19 hjálparbeiðnir til hinna ýmsu sérstofnana og aflaði meira en 1,4 milljarða bandaríkjadala til hjálpar 44 milljónum manna í 19 löndum og landsvæðum. Yfirmaður þessarar skrifstofu er jafnframt yfirstjórnandi neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna og aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði mannúðarmála í heild.

Til þess að Sameinuðu þjóðirnar geti veitt mannúðaraðstoð verða þær að brjóta niður ýmsar hindranir hvað varðar neyðarflutninga og öryggi á viðkomandi svæði. Oft getur verið miklum vandkvæðum bundið að komast til þeirra svæða sem um er að ræða. Á undanförnum árum hefur þverrandi virðing fyrir mannréttindum iðulega gert illt verra þar sem hættuástand ríkir. Starfsmönnum í mannúðaraðstoð hefur verið meinaður aðgangur að fólki í neyð og stríðandi aðilar hafa vísvitandi gert almenna borgara og hjálparstarfsmenn að skotmarki. Frá árinu 1992 hefur á þriðja hundrað borgaralegra starfsmanna Sameinuðu þjóðanna látið lífið og 265 verið teknir í gíslingu þar sem þeir hafa unnið að mannúðarverkefnum víðs vegar um heim. Í viðleitni sinni til að hindra mannréttindabrot á hættutímum hefur mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna haft sífellt meiri afskipti af málum þegar samtökin bregðast við neyðarástandi.

Sameinuðu þjóðirnar samræma viðbrögð sín við mannlegri neyð fyrir atbeina samráðsnefndar allra helstu stofnana sem sinna mannúðaraðstoð. Formaður þeirrar nefndar er forsvarsmaður neyðaraðstoðar á vegum Sameinuðu þjóðanna, en í henni sitja einnig fulltrúi Barnahjálparinnar, Þróunaráætlunarinnar, Matvælaáætlunarinnar og Flóttamannastofnunarinnar. Aðrar sérstofnanir eiga líka fulltrúa, sem og frjáls félagasamtök og milliríkjasamtök sem starfa að mannúðarmálum, til dæmis Alþjóðanefnd Rauða krossins.

 

Viðbrögð við mannlegri neyð

Það er á ábyrgð yfirstjórnanda neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna að móta stefnu í aðgerðum í þágu bágstaddra og auka veg mannúðarmála yfirleitt - með því til dæmis að vekja fólk til vitundar um afleiðingar mikillar útbreiðslu smávopna eða neikvæð áhrif viðskiptaþvingana.

Fólk sem hefur flúið land sökum stríðsástands, ofsókna eða mannréttindabrota - flóttamenn og fólk sem hefur flosnað upp - nýtur aðstoðar Flóttamannastofnunar Sþ. Í upphafi ársins 2001 þörfnuðust um 22 milljónir manns í meira en 120 löndum aðstoðar stofnunarinnar. Þar af voru 5,4 milljónir manna á vergangi í eigin landi. Afganar voru 30% allra flóttamanna í heiminum, u.þ.b. 3,6 milljónir. Næstflestir voru flóttamenn frá Búrúndí, 568.000 og í þriðja sæti voru Írakar, 512.800.

Þriðjungur allrar neyðaraðstoðar með matvæli í heiminum kemur frá Matvælaáætlun Sþ, stærstu stofnun heims á sviði matvælaaðstoðar. Árið 2000 fóru 3,7 milljónir tonna af matvælum frá Matvælaáætluninni til hjálpar 83 milljónum bágstaddra í 83 löndum - að meðtöldum flóttamönnum og fólki á vergangi í eigin landi.

Talið er að styrjaldir og erjur hafi valdið aðskilnaði um það bil einnar milljónar barna frá foreldrum sínum á undanförnum tíu árum, gert 12 milljónir barna heimilislausar og valdið 10 milljónum barna sálrænu áfalli þannig að þau bíði þess hugsanlega ekki bætur. Barnahjálp Sþ reynir að koma til móts við þarfir þessara barna með því að útvega þeim mat, drykkjarhæft vatn, lyf og húsaskjól. Barnahjálpin hefur einnig innleitt hugmyndina um "börn sem friðarsvæði" og komið á "kyrrðardögum" og "friðarhliðum" svo að vernda megi börn á átakasvæðum og veita þeim nauðsynlega aðhlynningu.

Forvarnir gegn og viðbúnaður við stóráföllum eru einnig hluti af mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna. Þegar hamfarir verða kemur það í hlut Þróunaráætlunarinnar að halda utan um hjálparstarf á staðnum, um leið og hún stendur fyrir uppbyggingarstarfi og langtímaþróun. Sem dæmi má nefna að í kjölfar gífurlegs jarðskjálfta í Indlandi árið 2001 brást stofnunin skjótt við til hjálpar fólki á svæðinu en vann á sama tíma að langtímaaðgerðum til að draga úr tjóni af völdum náttúruhamfara.

Í löndum sem stríða við mikla neyð eða eru að ná sér eftir átök felur mannúðaraðstoð ekki einungis í sér þróunarhjálp og stuðning við pólitíska og efnahagslega uppbyggingu, heldur er í auknum mæli litið á hana sem þátt í langtímastarfi í átt til varanlegs friðar.

 

Palestínskir flóttamenn

Hjálparstarf í þágu flóttamanna frá Palestínu hefur verið í gangi allt frá árinu 1949 á vegum sérstakrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna, Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar. Stofnunin sér nú um að veita nauðsynlega þjónustu í heilbrigðis- og menntamálum og einnig neyðar- og félagsþjónustu. Hún sér ennfremur um framkvæmd áætlunar um tekjusköpun fyrir meira en fjórar milljónir palestínskra flóttamanna á svæðinu. Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna hefur umsjón með allri þróunaraðstoð samtakanna og sérstofnana í þágu Palestínumanna á Gasasvæðinu og Vesturbakkanum.

 

Skrifstofa Íraksáætlunarinnar

Á meðan þess var beðið, árið 1996, að Íraksstjórn stæði við fjölmargar ályktanir Öryggisráðsins tóku Sameinuðu þjóðirnar og Íraksstjórn sameiginlega ákvörðun um að hleypa af stokkunum áætluninni "olía fyrir mat" til að draga úr hörmungum fólks af völdum viðskiptaþvingana gagnvart Írak, en þeim var komið á árið 1990. Skrifstofa Íraksáætlunarinnar var opnuð árið 1997 til að treysta framkvæmd og stjórn áætlunarinnar. Áætlunin fjallar um olíusölu Íraka, gerð samninga milli Íraka og aðila sem fjármagna kaup þeirra á gögnum til að draga úr neyð íbúanna og eftirlit með því að þeim gögnum sé dreift svo sem vera ber.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook