• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Upplýsingar

Réttindi og lög

 

Starf Sameinuðu þjóðanna í þágu réttlætis, mannréttinda og alþjóðalaga

Fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna hafa ríkisstjórnir gert með sér marga fjölþjóðlega samninga sem gera heiminn tryggari og betri fyrir alla jarðarbúa og skapa þeim aukin tækifæri og meira réttlæti. Meðal þess merkasta sem þær hafa fengið áorkað er að koma á alþjóðlegri heildarlöggjöf sem m.a. tekur til mannréttinda.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á Allsherjarþinginu 1948. Í henni eru mörkuð þau grundvallarréttindi og það undirstöðufrelsi sem allir menn - karlar og konur - eiga skýlausan rétt á. Til þeirra teljast réttur til lífs, frelsis og ríkisfangs; frelsi til hugsana, sannfæringar og trúar; réttur til atvinnu og menntunar; réttur til að njóta matar og húsaskjóls; og réttur til að taka þátt í stjórn síns eigin lands.

Þessi réttindi eru lagalega bindandi í krafti tveggja alþjóðlegra sáttmála sem flest ríki heims eru aðilar að. Annar þeirra fjallar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi en hinn um borgaraleg og pólitísk réttindi. Þessir tveir sáttmálar mynda ásamt mannréttindayfirlýsingunni Alþjóðamannréttindasáttmálann.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna lagði grunn að meira en 80 samningum og yfirlýsingum um mannréttindi, þar á meðal ofangreindum tveim sáttmálum, en af öðrum má nefna samninga um afnám mismununar á grundvelli kynþáttar eða kynferðis; um réttindi barna; gegn pyndingum og annarri niðurlægjandi refsimeðferð; um stöðu flóttamanna; og um varnir gegn þjóðarmorðum og refsingar fyrir þann glæp; ennfremur yfirlýsingar um réttindi fólks sem tilheyrir minnihlutahópum sakir þjóðernis, uppruna, trúar eða tungumáls; um rétt til þróunar; og um rétt þeirra sem standa vörð um mannréttindi.

Þar sem grundvallarvinnu Sameinuðu þjóðanna er nánast lokið og staðlarnir tilbúnir, hefur áhersla þeirra færst frá hinni eiginlegu baráttu fyrir mannréttindum og yfir í að berjast fyrir því að lögum um mannréttindi sé framfylgt. Mannréttindafulltrúi Sþ, sem heldur utan um aðgerðir samtakanna í mannréttindamálum, starfar með ríkisstjórnum að því bæta ástand mannréttindamála í hinum ýmsu löndum, leitast við að sporna gegn mannréttindabrotum og vinnur náið með öllum þeim aðilum Sameinuðu þjóðanna sem sinna mannréttindum.

Mannréttindanefnd Sþ, sem er svokölluð milliríkjanefnd og skipuð fulltrúum ýmissa þjóða, heldur opinbera fundi til að meta frammistöðu einstakra ríkja í mannréttindamálum, samþykkja nýjar reglur og efla mannréttindi um heim allan. Nefndin kallar einnig til sérfræðinga til að gefa skýrslu um sérstök tilvik þar sem mannréttindi eru ekki virt eða til að skoða ástand mannréttindamála í tilteknum löndum.

Þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa að mannréttindum leggja allar sitt af mörkum til að vara við og afstýra átökum en jafnframt reyna þær að ráðast að rótum ástandsins. Mannréttindaþátturinn er til staðar í mörgum af verkefnum friðargæslusveita Sþ.

Um þessar mundir eru í gangi vettvangsverkefni á sviði mannréttindamála í samtals 30 löndum eða landsvæðum. Þar er veitt aðstoð við að efla mannréttindi með sterkari löggjöf, bættum stjórnarháttum og aukinni fræðslu. Sveitir Sameinuðu þjóðanna rannsaka einnig tilkynnt mannréttindabrot og aðstoða ríkisstjórnir við að gera réttar ráðstafanir þegar þörf er á úrbótum.

Á sviði þróunaraðstoðar leggja Sameinuðu þjóðirnar æ meiri áherslu á aukna virðingu fyrir mannréttindum. Einkum er réttur manna til þróunar talinn hluti af síkviku ferli þar sem saman tvinnast borgaraleg, menningarleg, efnahagsleg, pólitísk og félagsleg réttindi sem öll eiga þátt í að efla velferð hvers þjóðfélagsþegns. Lykillinn að því að allir njóti réttar til þróunar er að fátækt verði útrýmt, en það er eitt helsta markmið Sameinuðu þjóðanna.

 

Alþjóðleg lög

Í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er sú krafa gerð til samtakanna að þau sjá svo um að stöðugt sé haldið áfram að þróa og kerfisbinda alþjóðleg lög. Árangur þeirrar vinnu er á sjötta hundrað samninga, sáttmála og meginreglna sem markað hafa umgjörð utan um alþjóðlegt starf í þágu friðar og öryggis, efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Ríki sem staðfest hafa slíka samninga eru lagalega bundin af þeim.

Alþjóðalaganefndin leggur fram drög um málefni til að binda í alþjóðalög. Þau má síðan fella inn í samninga sem einstök ríki geta staðfest. Sumir þessara samninga mynda grunninn að löggjöf um samskipti ríkja, til að mynda samningur um stjórnmálasamband ríkja og samningur um reglur sem gilda á alþjóðasiglingaleiðum.

Alþjóðaviðskiptalaganefndin þróar reglur og viðmiðanir sem ætlað er að samræma og einfalda gildandi lög um alþjóðleg viðskipti. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar einnig átt frumkvæði að þróun alþjóðalaga um umhverfismál. Nefna má samning um varnir gegn eyðimerkurmyndun, samning um ósonlagið og samning um flutning hættulegs úrgangs yfir landamæri, sem allir eru undir stjórn Umhverfisstofnunar Sþ.

Með Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna er reynt að tryggja öllum ríkjum jafnan aðgang að auðlindum sjávar, vernda þær gegn mengun og stuðla að frelsi til siglinga og rannsókna. Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni er mikilvægasti alþjóðasamningur gegn fíkniefnasölu.

Sameinuðu þjóðirnar taka sem fyrr virkan þátt í alþjóðlegum tilraunum til að setja lagaramma um hryðjuverkastarfsemi. Gerðir hafa verið tólf alþjóðasamningar um þetta efni á vegum samtakanna, þar á meðal alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla (1979), alþjóðasamningur um varnir gegn hryðjuverkasprengingum (1997) og alþjóðasamningur um varnir gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi (1999). Sem stendur er unnið að heildarsamningi gegn hryðjuverkastarfsemi.

Í kjölfar hryðjuverkanna í New York og Washington í september 2001 samþykkti Öryggisráðið víðtæka ályktun gegn hryðjuverkastarfsemi í samræmi við þvingunarákvæði stofnsáttmálans. Ályktunin fól m.a. í sér ákvæði um að vinna skuli gegn fjármögnun hryðjuverka, að fjáröflun til hryðjuverkastarfsemi skuli varða við hegningarlög og að eignir hryðjuverkasamtaka skuli frystar umsvifalaust. Öryggisráðið hvatti ríki heims til að hraða því að skiptast á upplýsingum um hryðjuverkahreyfingar og ákvað að þau skyldu aðstoða hvert annað eins og kostur væri við rannsóknir og málarekstur í tengslum við hryðjuverk.

 

Afnám refsileysis

Umfangsmikil mannréttindabrot í fyrrum Júgóslavíu, meðan þar ríkti stríðsástand, urðu til þess að árið 1993 setti Öryggisráðið á stofn Alþjóðlega refsidómstólinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu og skyldi hann rétta í málum manna sem sakaðir voru um stríðsglæpi þar í landi. Árið 1994 stofnaði ráðið annan slíkan dómstól til að yfirheyra menn sem ákærðir voru fyrir þjóðarmorð í Rúanda. Árið 1998 kvað Alþjóðlegi refsidómstóllinn fyrir Rúanda upp úrskurð sem var fyrsti úrskurður alþjóðlegs dómstóls í máli sem fjallaði um þjóðarmorð og jafnframt fyrsti dómsúrskurður sem felldur var í slíku máli yfirleitt.

Eitt af mikilvægustu markmiðum Sameinuðu þjóðanna - að koma á alþjóðlegu tæki sem tryggði að enginn kæmist upp með stórfelld mannréttindabrot án refsingar - varð að veruleika árið 1998 þegar ríkisstjórnir heims samþykktu að stofna Alþjóðaglæpadómstólinn. Með honum er ætlunin að skapa leiðir til að refsa þeim sem fremja þjóðarmorð og aðra glæpi gegn mannkyni. Þegar greidd voru atkvæði um stofnun dómstólsins kom skýrt fram að alþjóðasamfélagið telur að refsileysi geti ekki viðgengist lengur, en með refsileysi er átt við að menn komist upp með að fremja glæpi án þess að vera refsað fyrir. Stofndagur dómstólsins var 1. júlí 2002.

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig lagt sitt af mörkum við gerð samninga sem lúta að alþjóðlegum mannúðarlögum, og má þar nefna samning um hópmorð (1948) og samning um ómannúðleg vopn (1980; fjallar um ómannúðleg vopn, þ.e. vopn sem valda örkumlum eða vopn sem virka þannig að þau eira engu).

 

Aðrar aðgerðir í þágu réttlætis og jafnréttis

Árið 1945 bjuggu 750 milljónir manna í heiminum á svæðum sem ekki fóru með stjórn í eigin málum. Nú hefur þessi tala lækkað niður í rúmlega eina milljón og má rekja þá þróun að verulegu leyti til hins afgerandi hlutverks Sameinuðu þjóðanna í að hvetja ósjálfstæðar þjóðir í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði og leggja þeim lið til að flýta því að þær öðlist sjálfstæði. Frá árinu 1960, þegar Allsherjarþingið samþykkti yfirlýsingu um frelsun nýlendna, hafa 60 fyrrverandi nýlendur öðlast sjálfstæði og gerst aðilar að Sameinuðu þjóðunum sem fullvalda ríki.

Meira en þriggja áratuga barátta undir forystu Sameinuðu þjóðanna átti sinn þátt í að binda enda á kynþáttaaðskilnað í Suður-Afríku, stefnu sem oft er kölluð "apartheid". Árið 1994 fylgdist eftirlitssveit á vegum samtakanna með fyrstu kosningum í landinu sem náðu til allra kynþátta.

Allt frá stofnun hafa Sameinuðu þjóðirnar unnið að því að treysta grundvallarjafnrétti allra manna og berjast gegn rasisma í öllum myndum. Á grundvelli ákvörðunar Allsherjarþingsins var efnt til heimsráðstefnu árið 2001 þar sem kannaðar voru leiðir til að berjast gegn kynþáttahyggju, kynþáttamismunun, útlendingahatri og óumburðarlyndi.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook