• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Upplýsingar

Skipulag og uppbygging samtakanna

 

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 24. október árið 1945 af 51 ríki sem öll vildu viðhalda friði með því að efla alþjóðlegt samstarf og öryggi í heiminum. Aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hefur fjölgað mikið og eru þau nú 193 talsins. Til marks um breytingarnar sem samfara eru fjölguninni er að í um tvo áratugi var Ísland fámennasta ríki Sameinuðu þjóðanna. Nú eru yfir 20 ríki innan samtakanna fámennari.

Ísland fylgir þeirri stefnu að öll ríki sem eru fullvalda að þjóðarétti eigi rétt á þátttöku í Sameinuðu þjóðunum. Þegar ríki gerast aðilar að Sameinuðu þjóðunum taka þau á sig vissar skuldbindingar samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegum sáttmála þar sem settar eru fram grundvallarreglur í alþjóðlegum samskiptum.

Tilgangur Sameinuðu þjóðanna er fjórþættur samkvæmt stofnsáttmálanum:

 • að viðhalda friði og öryggi í heiminum;
 • að stuðla að vinsamlegum samskiptum milli þjóða;
 • að taka þátt í lausn alþjóðlegra vandamála
 • auka virðingu fyrir mannréttindum; og að vera samráðsvettvangur þjóða.


Sameinuðu þjóðirnar eru ekki yfirþjóðlegt vald og þær setja ekki lög. Þess í stað leggja þær lið við lausn alþjóðaátaka og við mótun stefnu í málum sem koma okkur öllum við. Öll aðildarríkin - hvort heldur þau eru stór eða smá, auðug eða snauð, án tillits til pólitískra skoðana eða þjóðfélagsgerðar - eiga sér rödd sem fær að heyrast þar sem þessi mál eru rædd og ákvarðanir teknar.

Hér má sjá myndbönd um fyrstu 50 ár starfsemi Sameinuðu þjóðanna:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stofnanir og starfsemi

Starfsemi Sameinuðu þjóðanna fer fram víðs vegar um heim en höfuðstöðvarnar eru í New York. Aðalstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru fimm en eftirfarandi fjórar eru staðsettar í New York, Bandaríkjunum:

 1. Allsherjarþingið
 2. Öryggisráðið
 3. Efnahags- og félagsmálaráðið
 4. Skrifstofa aðalframkvæmdastjóra

Sú fimmta, Alþjóðadómstóllinn, hefur aðsetur í Haag í Hollandi.

Skipurit Sameinuðu þjóðanna er að finna hér.

Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sjálfstæðar alþjóðastofnanir sem hafa ákveðna samninga við samtökin.

Tengiliðurinn er efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna.

 

1. Allsherjarþing

UN General Assembly

Fulltrúar allra aðildarríkja eiga sæti í allsherjarþinginu og geta rætt fyrir opnum tjöldum hvaða málefni sem er nema öryggisráðið sé að fjalla um það á sama tíma. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru nú 193 og hefur hvert ríki yfir að ráða einu atkvæði. Mikilvæg málefni þurfa samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða. Hvert allsherjarþing stendur yfir í eitt ár og kemur nýtt þing saman um miðjan september ár hvert. Menginþunginn í störfum þess er frá setningu og fram undir jól. Þingið kýs sér forseta á hverju ári, það samþykkir ný aðildarríki að fenginni tillögu öryggisráðsins og ákveður hversu mikið hverju ríki ber að greiða af rekstrarkostnaði Sameinuðu þjóðanna og hvernig fénu skuli varið. Það kýs einnig aðalframkvæmdastjóra til fimm ára að fenginni tillögu öryggisráðsins og velur fulltrúa í aðrar stofnanir.

Störf allsherjarþingsins fara að mestu fram í sex undirnefndum þess og eiga öll aðildarríki fulltrúa í þeim:

Á meðan allsherjarþingið er að störfum halda ýmsir ríkjahópar samráðsfundi eftir því sem þörf gerist. Ísland tekur aðallega þátt í fundum Norðurlandahópsins, Vesturlandahópsins (WEOG) og samráði JUSCANZ-hópsins. Í síðastnefnda hópnum eru einkum WEOG-ríki, sem standa utan ESB, en einnig nokkur önnur. Þau eru Andorra, Ástralía, Bandaríkin, Ísland, Japan, Kanada, Noregur, Nýja-Sjáland, Mexíkó, Rússland, San Marínó, Suður-Kórea, Sviss og Tyrkland.

Árangur starfsins í ofangreindum nefndum allsherjarþingsins birtist fyrst og fremst í ályktunum (e. resolutions), en í þeim felst að jafnaði sameiginleg ákvörðun ríkja heims um samræmt viðhorf til alþjóðlegra viðfangsefna. Að baki þeim liggja umræður og samningaferli þar sem leitast er við að samræma ólík viðhorf og ná sameiginlegri niðurstöðu. Ályktanirnar geta orðið grundvöllur nýs ferlis sem leiðir til skuldbindandi alþjóðasamninga og með þeim hætti orðið að þjóðarétti. Ályktanir eru oft ítrekaðar í allsherjarþinginu ár eftir ár, ýmist lítt eða ekkert breyttar.

Heimasíðu allsherjarþingsins má finna hér.

 

2. Öryggisráðið

UN Security Council

Öryggisráðið ber aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis. Völd sem ráðið hefur, þ.á m. til að grípa til hernaðaraðgerða, eru skilgreind í sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa með aðild sinni samþykkt að vera bundin af ákvörðunum öryggisráðsins og hrinda þeim í framkvæmd. Hlutverk öryggisráðsins samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna eru eftirfarandi:

 • að viðhalda alþjóðafriði og -öryggi í samræmi við grundvallarreglur og markmið Sameinuðu þjóðanna,
 • að gera tillögur um fyrirkomulag vopnamála,
 • að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af árás og gera tillögur um viðbrögð,
 • að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en stríðsátökum til að koma í veg fyrir eða stöðva árás,
 • að grípa til stríðsaðgerða gegn árásaraðila.

Fimm ríki hafa fast sæti í ráðinu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Allsherjarþingið kýs hina fulltrúana tíu til tveggja ára í senn. Öryggisráðið má kalla saman hvenær sem er. Auk aðalframkvæmdastjórans getur hvaða land sem er, hvort sem það er aðili að Sameinuðu þjóðunum eða ekki, vísað til öryggisráðsins deilumáli eða málum sem teljast ógnun við heimsfriðinn.

Aðildarríki skiptast á um að skipa forsæti ráðsins einn mánuð í senn og annar háttur er hafður á atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu en í allsherjarþinginu. Ályktanir þarfnast stuðnings níu fulltrúa í öryggisráðinu en auk þess hafa ríkin fimm, sem fast sæti eiga í ráðinu, neitunarvald.

Heimasíðu öryggisráðsins má finna hér

 

3. Efnahags- og félagsmálaráð

UN Economic and Social Council

Efnahags- og félagsmálaráðið (ECOSOC) hefur mjög umfangsmikið verksvið og fæst við efnahagsmál, viðskipti, iðnvæðingu og efnahagsþróun, félagsmál, mannfjöldamál, barnaverndarmál, húsnæðismál, kvenréttindi, kynþáttamismunun, eiturlyfjamál, glæpavarnir, félagslega velferð, æskulýðsmál, umhverfismál og matvælamál.

Einnig samþykkir ráðið tillögur um hvernig bæta megi menntun og heilsugæslu, svo og mannréttindi og frelsi hvar sem er í heiminum. Alls eiga 54 aðildarríki aðild að efnahags- og félagsmálaráðinu og eru þau kjörin af allsherjarþinginu til þriggja ára í senn. Ráðið heldur venjulega einn fund á ári og ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála.

Fjöldi nefnda tekur þátt í störfum ráðsins og að auki styðst það við sérstofnanir og áætlanir samtakanna. Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sautján og er hver um sig sjálfstæð, með eigin fjárhag og höfuðstöðvar. Þær kanna vandamál, undirbúa tillögur og aðstoða þróunarlönd á sérsviðum sínum. Allsherjarþingið hefur einnig komið á fót ýmsum öðrum sérhæfðum stofnunum sem vinna í nánum tengslum við efnahags- og félagsmálaráðið og í flestum tilvikum gefa þær skýrslu til allsherjarþingsins og ráðsins.

Ísland sat í efnahags- og félagsmálaráðinu tímabilið 2005-2007 og fastafulltrúi Íslands var kjörinn einn af fjórum varaforsetum þess fyrir árið 2006. Síðast átti Ísland sæti í ráðinu árin 1997-1999. Ísland hefur á vettvangi ráðsins lagt áherslu á umhverfismál og bent á að brýnt sé að bæta aðgang fólks að raforku, annars verði þúsaldarmarkmiðunum ekki náð. Ísland hefur einnig bent á að við umhverfisstjórnun grunnvatns verði að taka mið af umhverfismálum hafsins og ítrekað mikilvægi þess að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna framkvæmi áætlun um umhverfisvernd hafsins vegna mengunar frá landi. Enn fremur hefur Ísland lagt áherslu á að konur eigi hvarvetna rétt á menntun sem og að mikilvægt sé að grípa til brýnna aðgerða til verndar konum á átakasvæðum.

 Heimasíðu efnahags- og félagsmálaráðsins má finna hér.

 

4. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

UN Secretary General

Aðalframkvæmdastjórinn er æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna og er skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins til fimm ára í senn. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna. Hann getur lagt fyrir öryggisráðið hvers kyns vandamál sem hann telur að ógna kunni heimsfriðnum og lagt fram tillögur um málefni sem tekin skulu upp í allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Starfslið skrifstofunnar vinnur að framkvæmd ákvarðana Sameinuðu þjóðanna. Ban Ki-moon er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og hóf hann sitt annað kjörtímabil 2011. Hér má sjá ferilskrá framkvæmdastjórans.

Fyrrverandi framkvæmdastjórar eru eftirfarandi:

Trygve Lie (Noregur): 1946-1952
Dag Hammarskjöld (Svíþjóð): 1953-1961
U Thant (Myanmar): 1961-1971
Kurt Waldheim (Austurríki): 1972-1981
Javier Perez de Cuellar (Perú): 1982-1991
Boutros Boutros-Ghali (Egyptaland): 1992-1996
Kofi A. Annan (Ghana): 1997-2006

 Heimasíðu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna má finna hér.

 

5. Alþjóðadómstóllinn í Haag

UN International Court of Justice

Aðsetur Alþjóðadómstólsins er í Haag í Hollandi og starfar hann árið um kring. Dómarar eru fimmtán og eru þeir kosnir af allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Níu dómarar verða að vera sammála til að unnt sé að kveða upp úrskurð. Samþykktir Alþjóðadómstólsins eru hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna og eru því öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sjálfkrafa aðilar að dómstólnum. Í 2. mgr. 36. gr. samþykkta dómstólsins er rætt um skyldulögsögu. Nokkrir tugir ríkja hafa gengist undir hana án fyrirvara, en önnur hafa gert ýmsa fyrirvara og mörg, þar á meðal Ísland, hafa ekki gengist undir lögsöguna.

 Heimasíðu Alþjóðadómstólsins má finna hér.

 

Nefndir og ráð

 

Mannréttindaráð

Nýtt mannréttindaráð var stofnað árið 2006 í kjölfar niðurstöðu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í september 2005 þar sem ákveðnar voru allsherjarendurbætur á starfsemi samtakanna. Mannréttindaráðið fellur undir allsherjarþingið og leysir af hólmi mannréttindanefnd sem starfaði undir efnahags- og félagsmálaráðinu og hafði sætt vaxandi gagnrýni á undanförum árum. Mannréttindaráðið starfar allt árið, en mannréttindanefndin starfaði aðeins sex vikur ár hvert. Í málflutningi sínum hafa fulltrúar Íslands lagt ríka áherslu á samsetningu ráðsins og að Ísland myndi ekki styðja ríki til setu í ráðinu sem sættu refsiaðgerðum af hálfu öryggisráðs SÞ vegna mannréttindabrota. Mannréttindaráðið hélt sinn fyrsta fund 19. júní 2006.

 Heimasíðu mannréttindaráðs má finna hér.

Friðaruppbyggingarnefnd

Allsherjarþingið og öryggisráðið samþykktu 21. desember 2005 stofnun friðaruppbyggingarnefndar (Peacebuilding Commission). Þessi samþykkt kom í kjölfar leiðtogafundarins í september það ár, þar sem leiðtogarnir ákváðu að nefndin skyldi hefja störf fyrir árslok 2005. Nefndin starfar því hvort tveggja undir allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Meginmarkmiðið með stofnun nefndarinnar er að koma á heildstæðara alþjóðlegu starfi til að tryggja varanlegan frið í stríðshrjáðum ríkjum. Nefndin tekur við þegar friðargæslusveitir hafa lokið hlutverki sínu.

Heimasíðu friðaruppbyggingarnefndar má finna hér.


Gæsluverndarráð

Þar sem síðasta gæsluverndarsvæðið, Palá, hlaut sjálfstjórn í október 1994 varð gæsluverndarráðið verkefnalaust. Á leiðtogafundi SÞ, sem haldinn var í New York dagana 14.-16. september 2005, var ákveðið að leggja gæsluvernarráðið niður.

Nánari upplýsingar eru að finna í bókinni "Basic Facts about the United Nations":

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook