• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Kynningarfundur um Þróunarskýrslu SÞ 2015


SJSelim Jahan, aðalritstjóri Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna um lífskjör í heiminum (Human Development Report) og forstöðumaður skrifstofu Þróunarskýrslunnar hjá Þróunaráætlun SÞ (UNDP), verður frummælandi á opnum fundi um innihald skýrslunnar fyrir árið 2015 sem haldinn verður fimmtudaginn 18.febrúar kl.15:00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Að fundinum standa Jafnréttisskóli Háskóla SÞ og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, utanríkisráðuneytið auk Alþjóðamálastofnunar og RIKK ̶ Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra heldur opnunarerindi. Þá tekur Selim Jahan við og kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir árið 2015 og í kjölfarið verða pallborðsumræður með íslenskum sérfræðingum sem munu rýna í niðurstöður skýrslunnar í ljósi stöðu vinnumarkaðsmála og kynjanna á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Í pallborði sitja, ásamt Selim Jahan, Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, og Katrín Ólafsdóttir, lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags SÞ á Íslandi, stýrir fundi og pallborðsumræðum.

Fundurinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir. Boðið verður upp á kaffiveitingar í lok fundar.

Kynningarfundurinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/1401318313508640/
Myllumerki fyrir twitter: #HDR2015 #hdr2015

 

 

 

Fjölgun atvinnutækifæra forsenda þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á næstu 15 árum
Yfir 200 milljónir manna án atvinnu, þar af 74 milljónir ungs fólks á aldrinum 16-24 ára
Ísland er í 16. sæti á lista yfir lífskjör í heiminum – var í 13. sæti árið 2014 og 1.sæti 2007

 

Í nýútkominni Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna (Human Development Report 2015: Work for Human Development ) er sjónum beint að vinnumálum, atvinnuþróun og atvinnuþátttöku fólks í hnattrænum heimi. Í skýrslunni segir að forsenda þess að metnaðarfullum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) verði náð sé að fjölga atvinnutækifærum og kallar skýrslan eftir aðgerðum til að vinna gegn ójöfnuði á vinnumarkaði sem oft lýsir sér meðal annars í gríðarlegri kynjaskiptingu og aðkallandi þörf fyrir sérfræðiþekkingu eða vinnuafli sem erfitt er að mæta auk áherslunnar á vöxt sem skapi fleiri störf.

Ennfremur er varað við því að störf verði sífellt óformlegri sem kalli á viðbrögð til að vernda starfsréttindi launþega og tryggja að atvinna stuðli bæði að þróun samfélaga og velferð fólks. Störf breytast ört á okkar tímum vegna alþjóðavæðingar og stafrænnar byltingar – hvoru tveggja skapar jöfnum höndum tækifæri og ógn, er haft eftir Selim Jahan aðalritstjóra skýrslunnar. Hann segir að þróun lífsgæða verði hraðari þegar allir sem vilja hafi vinnu við hæfi og mannsæmandi aðstæður en það sé því miður ekki raunin víða, fólk fær annaðhvort ekki greitt fyrir vinnu sína eða er borgað lægra en aðrir fyrir sömu vinnu.

Í skýrslunni er bent á að tengsl atvinnutækifæra og  þróunar lífskjara verði ekki til sjálfkrafa og viðeigandi stefnumótun og aðgerðir á sviði atvinnusköpunar séu nauðsynlegar.

Sjálfbær þróun og atvinnutækifæri fyrir komandi kynslóðir

HDR2015 5Hröð tækniþróun í hnattrænum heimi, öldrun samfélaga og umhverfisógnir eru þættir sem umbreyta í senn eðli vinnunnar og atvinnuþróun almennt. Í nýrri Þróunarskýrslu SÞ eru stjórnvöld hvött til að skoða alla vinnu sem innt er af hendi í samfélaginu, þar með talin ólaunuð umönnunarstörf, sjálfboðaliðastörf og skapandi greinar, sem mikilvægt framlag til þróunar samfélaga til aukinnar sjálfbærni og lífskjara. Það er auk þess mikilvægt innlegg við innleiðingu á nýjum heimsmarkmiðum SÞ sem samþykkt voru síðastliðið haust og öll aðildarlönd SÞ, þar með talið Ísland, bera ábyrgð á að innleiða fyrir árið 2030.

Heimsmarkmið númer átta miðar að því að koma á viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla með það að markmiði að tryggja öllum atvinnu og sérstaklega leita úrræða fyrir ungt fólk sem er hvorki með atvinnu né í námi.

Skýrslan segir að ný atvinnutækifæri þurfi til að ná heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030. Til dæmis þyrfti aukalega um 45 milljónir fleiri heilbrigðisstarfsmenn til að ná heimsmarkmiði þrjú um góða heilsu. Það þýðir að fjölga þyrfti vinnuafli í heilbrigðisstéttunum úr 34 milljónum árið 2012 í 79 milljónir árið 2030.

Átakanleg mynd af ójöfnuði

Áátakanleg mynd er dregin upp af ójöfnuði milli þeirra ríkustu og þeirra fátækustu en einnig milli karla og kvenna. Fram kemur að atvinnuleysi er að aukast meðal þeirra fátækustu. Samkvæmt gögnum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) er talið að 204 milljónir manna séu án atvinnu í heiminum, þar af 74 milljónir ungmenna. Þá er talið að 830 milljónir manna hafi lægri tekjur en 300 krónur á dag og augljóst sé að þar fari mikill mannauður í súginn.

Skýrslan bendir jafnframt á framfarir sem hafa átt sér stað í heiminum síðasta aldarfjórðung sem hafi lyft tveimur milljörðum manna úr sárafátækt og bætt lífskjör þess, til að mynda menntun og heilsu. Í dag lifir fólk lengur, fleiri börn ganga í skóla og fleiri hafa aðgang að vatni og hreinlætisaðstöðu en áður, en stríð og ófriður varpa skugga á þær framfarir sem orðið hafa og halda aftur af þróun lífsgæða.

Stafræn tæknibylting og hnattvæðing starfa hefur skapað örar framfarir í atvinnutækifærum. Þessi þróun hefur stuðlað að jákvæðri þróun menntunar og sérfræðiþekkingar en að sama skapi skilur hún eftir þá sem ekki hafa mikla menntun og aðgang að internetinu. Talið er að 7% heimila í fátækustu ríkjum heims hafi aðgang að netinu og 34% heimila í þróunarlöndum á meðan 81% heimila í ríkari löndum hafi slíkt aðgengi.

Konur vinna frekar ólaunuð störf en karlar

HDR2015 4Skýrslan kynnir nýtt mat á vinnuframlagi, ekki bara launuðum störfum karla og kvenna. Konur eru ólíklegri en karlar til að fá greitt fyrir vinnu sína en konur fá að meðaltali 24% minna greitt á heimsvísu en karlar. Auk þess gegna konur einungis um fjórðungi allra æðri stjórnendastarfa fyrirtækja um allan heim. Konur vinna að meðaltali þrjár af hverjum fjórum klukkustundum ólaunaðar á meðan karlmenn fá greitt fyrir tvær af hverjum þremur klukkustundum. Konur sinna oftar ólaunuðum umönnunarstörfum fyrir eldri og veika fjölskyldumeðlimi og varar skýrslan við þeirri staðreynd þar sem öldrun fólks er að aukast í flestum löndum og heilbrigðiskerfi ekki í stakk búin til að sinna þeim.

Samkvæmt skýrslunni eru konur 52% alls vinnuafls í heiminum og þar sem þær fá síður greitt fyrir sína vinnu viðheldur þessi verkaskipting ójöfnuði í vinnuframlagi og framfærslu. Heimsmarkmiðunum sautján verður ekki náð nema með jafnari atvinnuþátttöku kvenna í viðurkenndum og launuðum störfum.

Heimsmarkmið númer 5, sem lýtur að því að tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna og stúlkna, er ein grundvallarforsenda þegar kemur að  viðurkenndri atvinnuþátttöku sem flestra í samfélaginu og sjálfbæru atvinnulífi og efnahagsþróun. Í skýrslunni er bent á að bætt umönnun eldri borgara, jöfn laun fyrir sömu störf, launað foreldraorlof og aðgerðir gegn misrétti á vinnustöðum séu forsenda breytinga í þá átt að skapa jafnari þátttöku kynjanna á vinnumarkaði.

Ísland í 16.sæti lífskjaralista SÞ

Árlega birtist í skýrslunni listi yfir lífskjör í heiminum –þróunarstuðull Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index, HDI) – þar sem þjóðum heims er raðað á lista eftir þremur mælikvörðum; landsframleiðslu á mann, lífslíkum og menntunarstigi. Ísland hefur einu sinni verið í efsta sæti listans og var það árið 2007 en frá þeim tíma hafa lífskjör Íslendinga dalað umtalsvert ef marka má HDI kvarðann og nú er svo komið að Ísland er í sextánda sætinu og hefur fallið niður um þrjú sæti síðan 2014.

Word n HD connected 1Noregur, Ástralía og Sviss eru í þremur efstu sætum líkt og á síðasta ári. Í neðstu sætum lífskjaralistans eru hins vegar Níger, Miðafríkulýðveldið og Eritrea. Tvær af samstarfsþjóðum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu bæta stöðu sína á listanum sem nemur einu sæti, Úganda er í 163. sæti og Malaví 173. sæti en Mósambík er talsvert neðar og hafnar í 180. sæti að þessu sinni. Þá kemur fram í skýrslunni að lífskjör aukist hraðast í heiminum í Rúanda.

 

 

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook