• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmið 2

Picture1Mánudaginn 12. september hélt Anne Poulsen, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, fyrirlestur um Heimsmarkmiðin. Anne hefur starfað hjá Matvælaáætluninni frá árinu 2004 og er nú framkvæmdastjóri Norðurlandaskrifstofu stofnunarinnar.

Þúsaldarmarkmiðin sem sett voru árið 2000 runnu út árið 2015, og voru þá Heimsmarkmiðin sett í þeirra stað. Þau eru samstarfsverkefni 193 þjóða sem að skrifuðu undir aðgerðaáætlun um að leggja sitt af mörkum til að ná markmiðunum fyrir árið 2030. Markmið númer 2 er „ekkert hungur: útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu, og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.“

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna eru stærstu samtök í heiminum sem að berjast gegn hungri og ná til yfir 80 milljón manns í 80 löndum árlega. Starf þeirra er þríþætt og byggist á neyðaraðstoð á hörmungarsvæðum, endurbótum þar sem ekki lengur ríkir neyðarástand en nauðsyn er að sjá fólki fyrir næringu á meðan að á uppbyggingu stendur, og langtíma sjálfbærni.

Í fyrirlestri sínum lagði Anne mikla áherslu á þörfina fyrir næringu, að það sé ekki nóg að einungis fylla maga heldur þarf að gefa fólki næringarríka fæðu og þá lagði hún sérstaka áherslu á börn. Á hverju ári deyja fleiri af völdum hungurs heldur en af völdum alnæmis, malaríu og berkla samanlagt. Þar af deyja 3,1 milljón börn á hverju ári af völdum vannæringar og má rekja 45% af öllum ungbarnadauða til vannæringar. Þá veldur vannæring ekki aðeins dauða heldur bæði andlegri og líkamlegri fötlun, þ.á.m. 8% missi af skilvitum og blindu.

Anne tók eitt dæmi (sjá mynd) þar sem að 5 barna móðir hafði nú þegar misst 2 börn vegna vannæringar og ein dóttir hennar var orðin blind vegna vítamínskorts. Þrátt fyrir að Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ hafi gefið út tilkynningu um að það sé til nóg af mat í heiminum til að fæða alla jarðarbúa, þá eru enn 795 milljónir manna sem lifa við hungursneyð í heiminum í dag. Það hafa þó orðið miklar framfarir á síðustu árum og hafa 200 milljónir manna verið leyst frá hungri síðan 1990, og hefur hlutfall hungraðra fallið um nánast helming.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna var stofnuð árið 1961 og hefur þróast mikið með tímanum og færst frá því að veita einungis beina mataraðstoð til þess að veita fólki leiðir til þess að fæða sig og vinna að langtímalausnum. Sýn Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna er „heimur þar sem að hver maður, kona og barn hefur ótakmarkaðan aðgang að þeim mat sem þörf er á fyrir daglegt líf.“

Aðgerðaráætlun Mataráætluninnar fyrir 2014-2017 hefur 4 meginmarkmið:

1. Bjarga lífum og vernda lífsviðurværi fólks í neyðartilvikum;

2. Styðja fæðuöryggi, næringu, (endur)byggja lífsviðurværi á viðkvæmum svæðum og í kjölfar neyðartilvika;

3. Draga úr áhættu og virkja fólk, samfélög og lönd til þess að mæta sínum eigin matar og næringar þörfum;

4. Draga úr vannæringu og brjóta vítahring hungursneyðar.

Nú er verið að vinna að aðgerðaráætlun fyrir tímabilið 2017-2021 og verður hún gerð í samræmi við Heimsmarkmiðin. Það gerir það að verkum að samkvæmt þeirri áætlun haldast þróunar- og mannúðarstefnur í hendur og unnið verður að því að sameina þær betur.

Síðan árið 2012 hefur Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ICEIDA) verið í samvinnu við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna með skólamáltíðarverkefni í Malaví. Af rúmlega 90 þúsund nemendum sem fá skólamáltíðir í Malaví á vegum Matvælaáætlunarinnar eru um 1.500 börn í þremur skólum í Mangochi héraði sem fá heimaræktaðan mat í skólanum sem veittur er í gegnum ICEIDA. Síðan verkefnið hófst hefur skólamæting barna á svæðinu aukist um 30% og hefur verkefnið dregið verulega bæði úr brottfalli og fjarvistum nemenda.

Í lokin lagði Anne mikla áherslu á það hversu mikilvægt, og sögulegt tækifæri Heimsmarkmiðin væru. Þetta sé í fyrsta skipti sem svo margar þjóðir hafa komið saman og verið sammála um gefin markmið. Einnig lagði hún mikla áherslu á það að þetta væru ekki aðeins markmið Sameinuðu Þjóðanna, Íslands, Bandaríkjanna eða einhverrar ákveðinnar þjóðar, samtaka eða einstaklinga; þetta væru markmið okkar allra og við verðum öll að gera okkar allra besta til þess að berjast saman til þess að ná þeim öllum.

Mynd er fengin úr fyrirlestri Anne Poulsen. 

 

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook