• Markmið félagsins er meðal annars að almenningur þekki til starfsemi Sameinuðu þjóðanna

Myndbönd um heimsmarkmiðin frá ungu fólki

 

Við höfum fengið send inn fimm myndbönd um ný heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna frá nemendum grunn- og framhaldsskóla. Það eru þær Urður Helga, Lilja Hrund og Ingunn Anna, framhaldsskólanemar sem hafa sett saman myndböndin og munu halda því áfram á næsta ári þar til öll 17 markmiðin hafa verið mynduð. Kærar þakkir stelpur fyrir framlag til félagsins að vekja athygli á þessum mögnuðu markmiðum SÞ.

Sjá hér nánar um markmið fjögur - menntun fyrir alla:

4. Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun án aðgreiningar og stuðla að tækifærum til ævimenntunar fyrir alla

4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki ókeypis og á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigi sem skilar viðeigandi og góðum námsárangri.

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost snemma í barnæsku að þroskast, hljóta umönnun og leikskólamenntun til þess að vera undirbúin undir grunnskólanám.

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðri tækni-, starfs- og framhaldsmenntun, meðal annars á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.

4.4 Eigi síðar en árið 2030 verði fjöldi ungmenna og fullorðinna, sem hafa kunnáttu á viðeigandi sviðum, aukinn umtalsvert, meðal annars hvað varðar tækni- og starfsþekkingu, til þess að geta gegnt störfum, fengið mannsæmandi vinnu og ástundað frumkvöðlastarfsemi.

4.5 Eigi síðar en árið 2030 verði kynjamismunun útrýmt hvað menntun varðar og fólki í viðkvæmri stöðu, meðal annars fötluðu fólki, frumbyggjum og börnum í viðkvæmum aðstæðum, verði tryggður jafn aðgangur að menntun og starfsþjálfun á öllum stigum.

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og verulegur hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, tileinki sér lestrar- og skriftarkunnáttu og tölulæsi.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir námsmenn öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun í þágu sjálfbærrar þróunar og sjálfbærs lífsstíls, mannréttinda, kynjajafnréttis, eflingu menningar sem byggist á friði án ofbeldis, hugmyndinni um heimsborgarann og viðurkenningu menningarlegrar fjölbreytni og framlags menningarinnar til sjálfbærrar þróunar.

4.a Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar sem er sniðin að börnum, fötluðum og kyni og færir öllum öruggt, friðsamlegt, sameiginlegt og skilvirkt námsumhverfi.

4.b Eigi síðar en árið 2020 verði aukinn á heimsvísu fjöldi námsstyrkja sem stendur þróunarlöndum til boða, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun, smáeyþróunarríkjum og Afríkuríkjum, það er námsstyrkja sem gera fólki kleift að innrita sig í æðra nám í iðnríkjum og öðrum þróunarríkjum, meðal annars í starfsnám og upplýsinga- og fjarskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.c Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun og smáeyþróunarríkjum.

Heimsmarkmið SÞ

 

E SDG Icons-18

Samstarfsaðilar

 

unriclogo

 

unwomenlogo

 

icemunlogo
 utanrikislogo

Finndu okkur á facebook