Ungt fólk vinnur að friðaruppbyggingu í Kólumbíu

Í því viðvarandi ófriðarástandi sem ríkir í Kólumbíu hefur ungt fólk tekið vel í þau tækifæri sem þeim hafa boðist til að gerast boðberar friðar. Samstarfsverkefni þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og staðbundinna samtaka sem vinnur í þágu friðar hefur gefið góða raun og þykir undirstrika nauðsyn þess að ungt fólk eigi virka aðkomu að ferlum sem þessum.

Síðastliðin 60 ár hafa Kólumbíumenn ekki upplifað svo mikið sem einn dag sem einkennst hefur af friði. Hugsanlega er það ein ástæða þess að þarlent ungt fólk hefur fagnað tækifærinu til þess að gerast leiðtogar og þáttakendur í friðaruppbyggingu: ,,Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast landi sem ég hef aldrei þekkt, landi þar sem enginn deyr vegna stríðs” hefur Karin Andersson, ráðgjafi um þátttöku og friðaruppbyggingu á vegum UNDP í Kólumbíu, eftir ungri konu sem tekið hafði þátt í hátíðarhöldum í þágu friðar í héraðinu Norte de Santander.

Samþykkt ályktunar Öryggisráðsins um ungt fólk, frið og öryggi (2250) er ákaflega mikilvæg fyrir allt það unga fólk sem hefur skuldbundið sig til að byggja upp frið í sínum eigin samfélögum. Hún er formleg viðurkenning á því að ungar konur og menn gegna mikilvægu og jákvæðu hlutverki við eflingu friðar. Kólumbía er land sem býr yfir mikilli landfræðilegri og menningarlegri fjölbreyttni, sem þýðir að breytileiki milli svæða getur verið talsverður. Með þetta i huga leggja menn áherslu á, í friðarviðræðum þeim sem í gangi eru milli kólumbísku ríkisstjórnarinnar og hins vinstri sinnaða FARC (Fuerzas Armadas Revolucionarias de Colombia) skæruliðahóps, að friðaruppbygging fari fram staðbundið. Þannig að þó menn sjái fram á að friðarsamningar muni loks nást í nánustu framtíð liggur einnig ljóst fyrir að ef friðurinn á að vera varanlegur þarf að byggja hann upp frá grunni. Þar kemur hlutverk ungs fólks sterkt inn.

Staðreyndin er sú að ungt fólk allstaðar að í Kólumbíu hefur lengi lagt mark sitt á og skapað eigin ferli og haft frumkvæði að því að byggja upp frið og kynna bæði eigin réttindi og þáttöku í ferlum þeirra ákvarðanatakna sem hafa áhrif á líf þeirra. Sem dæmi um slíka þáttöku má nefna verkefni eins og Stefnuskrá ungmenna í átt að friði í Meta, Tengslanetið fyrir unga friðaruppbyggjendur í Antioquia og Skólann fyrir unga leiðtoga í Nariño sem hafa öll verið studd af samvinnuverkefninu Staðbundin samvinna í þágu friðar á vegum UNDP og samstarfsaðila. En síðastliðin tíu ár hefur UNDP í Kólumbíu stutt staðbundna friðaruppbyggingu á þeim svæðum sem hvað verst hafa farið út úr átökunum sem þar hafa geisað og telja þeir ungt fólk gríðarlega þýðingarmikla samstarfsfélaga og gerendur í þessum tilraunum. Nú þegar friðarviðræður eru í fullum gangi hefur UNDP stutt viðleitni yfir 10.000 háskólanema allstaðar að í landinu til að taka þátt í beinum viðræðum við þá skrifstofu kólumbísku ríkisstjórnarinnar sem sér um friðarviðræðurnar.

Með því að notast við sérstakt hátíðarfyrirkomulag, sem sameinaði listræna, menningarlega og akademíska þætti, var komin fram meiriháttar leið fyrir ungt fólk til að gefa efum sínum, spurningum, tillögum og vonum gagnvart yfirstandandi friðarferlum rödd. Hátíðarnar fóru fram í níu mismunandi héruðum og voru opnar öllum háskólanemum. Þessir samstarfsvettvangar innihéldu ítarlegar upplýsingar um friðarferlin auk rýmis fyrir nemendurna til að spyrja spurninga og gefa ábendingar sem snéru að málefnum sem tengdust því hvernig framkvæmd friðarferlanna yrði fjármögnuð, hvernig endursamþættingarferli fyrrum vígamanna yrði háttað og hvernig tryggja mætti fjölþætta pólitíska þáttöku til handa FARC. Sumstaðar eru þessir sömu nemendur og tóku þátt nú að deila upplýsingum um friðarferlin á meðal jafningja sinna.

Ungt fólk í Kólumbíu hefur lykilhlutverki að gegna í að koma hinum nýju sjálfbæru þróunarmarkmiðum í framkvæmd og vegna þess að landið stendur á tímamótum þar sem loks eigir í að vopnuðum átökum ljúki hafa ungir Kólumbíubúar einstakt tækifæri til þess að ná sjálfbæra þróunarmarkmiði nr. 16 (Friður, réttlæti og sterkar stofnanir). Þetta er tækifæri fyrir ungt fólk til þess að byggja á einstöku hlutverki sínu sem gagnrýnir hugsuðir, leiðtogar og afl til breytinga og nýsköpunar. Það er því til mikils að vinna þegar stutt er við bakið á framsæknu og framtaksömu ungu fólki eins og UNDP og samstarfsaðilar hafa svo glöggt fundið fyrir í Kólumbíu.

Frétt UNDP um málið má lesa hér

Myndband Staðbundinnar samvinnu í þágu friðar má sjá hér (athugið að myndbandið er á spænsku og hægt er að stilla á spænskan texta með því að smella á cc hnappinn)