Baráttuvika fyrir menntun 2016: Ójöfn útbreiðsla fjármagns til menntunar ógnar þróunaráætlun á heimsvísu

Baráttuvika fyrir menntun er alþjóðlegt átak sem haldið er á heimsvísu ár hvert af Global Campaign for Education (GCE) og stutt af UNESCO, til að vekja athygli á mikilvægi menntunar fyrir alla.

Í ár er átakið haldið 24. – 30. apríl og í tilefni af því hélt UNESCO pallborðsumræður um fjármögnun til að ná Heimsmarkmiði númer 4: menntun fyrir alla fyrir 2030, í gær.

Nýta þarf fjármagn þar sem þörfin er mest

Mörg þeirra lágtekjulanda sem nú þegar eyða því fjármagnshlutfalli sem mælt er með í menntun eiga í erfiðleikum með að mæta grunnþörfum menntunar. Samkvæmt Hagskýrslustofnun UNESCO nýtir Eþíópía 27% heildarútgjalda í menntun, þar af 6% í grunnmenntun, en aðeins um það bil 76 Bandaríkjadollarar (um 9500 krónur) fer í hvern grunnskólanemenda á ári. Um 2 milljónir barna á aldrinum 6 – 11 í landinu ganga ekki í skóla, eða um 13,5% af nemendum á grunnskólaldri. Fjölskyldur grunnskólabarna í landinu borga um 70% heildarkostnaðar skólagöngu á móti 30% framlaga ríkisins.

Kostnaður menntunar er ein þeirra fjölda ástæðna fyrir því að 124 milljónir barna og ungmenna eru ekki í skóla.

Betri gögn varpa ljósi á stöðuna á heimsvísu

Hægt er að skoða gögn um útbreiðslu fjármagns sem fer í menntun í heiminum og bera saman við hlutfall barna utan skóla á vef Hagsýslustofnunar UNESCO. Gögnin sýna skýrt að þróunaraðstoð berst ekki endilega til landa þar sem hlutfall barna utan skóla er hátt.

Sem dæmi má nefna Malí, þar sem 36% barna á grunnskólaaldri eru ekki skráð í skóla. Malí tók á móti um 40 milljónum bandaríkjadollara til aðstoðar í grunnmenntun á árunum 2012 og 2013 á meðan að nágrannaríkið Níger, þar sem 37% barna á grunnskólaaldri eru ekki í skóla, tók inn 26 milljónir bandaríkjadollara fyrir sama málefni. Súdan, þar sem 46% barna eru ekki í skóla, fékk um það bil 7 milljónir.

Skortur á fjármagni til menntunar er aðeins ein ástæða þess að börn ganga ekki í skóla, en nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til menntunar á heimsvísu og góða nýtingu á því til þess að ná takmarki um gæðamenntun fyrir hvert mannsbarn árið 2030.