Heimsleikarnir í Framahaldsskólanum í Mosó

Heimsleikarnir 2016 voru haldnir í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ í dag síðasta vetrardag, 20. apríl 2016.

Um var að ræða þemadag um Heimsmarkmið SÞ þar sem hefðbundið skólastarf var brotið upp. Nemendur skólans kepptu í liðum en hópur nemenda hafði tekið að sér að vera liðstjórar og gerðu það með miklum sóma.

Hvert lið var fulltrúi ákveðins ríkis og flakkaði á milli stöðva í skólabyggingunni til að leysa ýmsar þrautir sem tengdust beint eða óbeint Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Til dæmis var fjallað um vistspor manna, skiptingu fjármuna og spurningakeppni fór fram.

Heimsmarkmiðin fyrir árið 2030 eru 17 talsins og miða að því að útrýma fátækt, takast á við loftlagsbreytingar auk þess að berjast gegn óréttlæti og ójöfnuði. Mannkynið stendur frammi fyrir þessum gífurlegu áskorunum og er nauðsynlegt að sýna vilja til að breyta og vinna saman að því að ná settum markmiðum. Þess vegna fólst stigagjöf þrauta í því hversu góða samvinnu nemendur ástunduðu.

FMOS hefur tekið þátt í verkefninu UNESCO- skólar í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í vetur.