Í samvinnu stjórnmála, atvinnulífs og samfélagsins alls

Það er ástæða til að gleðjast yfir því að 193 þjóðir hafi sammælst um 17 markmið sem taka á sameiginlegum viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir.

Samhljóða samþykkt heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er þegar farin að hafa áhrif á innlandsstjórnmál, umræðu innan ríkjahópa sem og dagskrá heimsmálanna. Það er ástæða til að gleðjast yfir því að 193 þjóðir hafi sammælst um 17 markmið sem taka á sameiginlegum viðfangsefnum og vanda sem við stöndum frammi fyrir, svo sem markmið um um enga fátækt, ekkert hungur, menntun fyrir alla, jafnrétti, hreint vatn, sjálfbæra orku, aukinn jöfnuð og verndun jarðar. Í fyllingu tímans má því búast við að forystumenn stjórnmála og atvinnulífs hvarvetna muni þurfa að svara fyrir innleiðingu og framgang heimsmarkmiðanna.

Ætlunarverkið er metnaðarfullt, því að markmiðin eru fleiri en áður, víðfeðmari og ná til allra ríkja, en ekki aðeins þróunarríkja eins og reyndin var með Þúsaldarmarkmiðin. Við vitum sömuleiðis að það verður ekki alls staðar auðsótt að ná heimsmarkmiðunum, því að að stæður ríkja eru mjög ólíkar. Tökum sem dæmi: Ísland er smátt og sterkefnað ríki þar sem lítil hætta er á að fólk líði skort samkvæmt mælikvörðum Sameinuðu þjóðanna. Ísland er ofarlega á ólíkum mælikvörðum um velferð. Á Íslandi eru lífskjör meðal þeirra bestu samkvæmt lífskjaralista SÞ, og við erum sömuleiðis meðal þeirra efstu á listum um jafnrétti og kynjajafnrétti, og hvað mannréttindi snertir. Við getum því velt fyrir okkur: Hvernig getum við borið saman – á sanngjarnan hátt – árangur Íslands og ríkis sem býr við allt annan hag, þar sem íbúar lifa við sára fátækt, þar sem mikil misskipting ríkir, kynbundið órétti og þar sem grundvallarmannréttindi eru ekki virt? Þetta er eitt af úrlausnarefnunum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun spanna breið málefnasvið, en hvert og eitt þeirra krefst sérþekkingar og skilnings til að geta komið auga á mögulegar leiðir til að ná ólíkum markmiðum. Að auki tengjast málefnasvið og markmið, samspil þeirra eru ólík, svo að ef við ætlum að ná höfuðmarkmiðinu um sjálfbæra þróun verður nauðsynlegt að skoða ólík markmið á kerfisbundinn hátt.

Hvert ríki skipuleggur innleiðingu heimsmarkmiðanna 17 og undirmarkmiðanna 169, þ.e. aðgerðir til sjálfbærni, og mælir árangurinn. Sé líftíma heimsmarkmiðanna, 15 árum, jafnað saman við vegalengdina frá Tjörninni í Reykjavík til Egilsstaða, þá erum við nú þegar komin langleiðina að Bláfjallaafleggjara. Tíminn líður og verkefnið okkar er að leysa þetta í samvinnu stjórnmála, atvinnulífs og samfélagsins alls.