Nýr framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna

Vera Knútsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna. Hún var ráðin úr hópi 93 umsækjenda eftir ráðningarferli hjá Capacent.

Vera og Berglind takast í hendur
Berglind Sigmarsdóttir (hægri) tekur í hönd Veru Knútsdóttur (vinstri)

Við erum mjög þakklát fyrir þann sterka hóp umsækjenda heima og erlendis sem sóttu um starfið,“ segir Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags SÞ. „Við teljum að ráðningarferlið hafi skilað okkur afar hæfum framkvæmdastjóra, enda býr Vera að víðtækri reynslu og þekkingu á alþjóða- og þróunarmálum, m.a. af vettvangi í Líbanon og Sómalíu. Við vitum að sú reynsla kemur til með að nýtast mjög vel í störfum félagsins í þágu aukinnar almannavitundar, fræðslu og samfélagsumræðu á Íslandi um Sameinuðu þjóðirnar og þróunarmál.

„Stjórn félagsins er sömuleiðis ánægð með þá sýn um framþróun félagsins og þróun verkefna á næstunni, sem Vera færir inn í starfsemi félagsins,“ segir Þröstur Freyr.

Vera Knútsdóttir hefur um fimm ára reynslu af alþjóðastarfi og þar af þriggja ára reynslu af störfum hjá Sameinuðu þjóðunum. Vera hefur reynslu af mannúðarstarfi og flóttamannaaðstoð og hefur starfað bæði hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Sómalíu og Flóttamannaaðstoð SÞ fyrir Palestínumenn, UNRWA, í Líbanon.

Áður var hún í starfsnámi á viðskiptasviði og alþjóða- og öryggissviði utanríkisráðuneytisins, þ.á.m. verkefnum tengdum mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Vera lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MA-gráðu í öryggis- og varnarmálafræðum frá Georgetown háskóla í Bandaríkjunum árið 2011.

Vera Knútsdóttir (t.v.) tekur við af Berglind Sigmarsdóttur (t.h.), fráfarandi framkvæmdastjóra félagsins. Félag Sameinuðu þjóðanna þakkar Berglind fyrir öflug og vel unnin störf í þágu félagsins síðastliðin fimm ár og býður Veru velkomna til starfa.