Hugvekja í tilefni af degi Sameinuðu þjóðanna

Í dag, 24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar með þeim tilgangi að stuðla að friði í heiminum, og að vera samráðsvettvangur þjóða til þess að stuðla að friði. Það sem að varð til þess að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar voru hin hræðilegu stríð sem að undan voru gengin. Fyrri og seinni heimstyrjaldirnar höfðu skilið miljónir manna eftir í valnum og Evrópa var í rjúkandi rúst. Aldrei síðan hafa stórsyrjaldir í líkingu við heimsstyrjaldirnar tvær átt sér stað en stríð og átök hafa þó átt sér stað í heiminum síðan þá og gera enn.

Sameinuðu þjóðirnar hafa margt lagt til þess að koma í veg fyrir og leysa úr átökum, og þær hafa einnig brugðist. Þær eru þó að öllum líkindum það besta sem að við höfum í heiminum í dag til þess að stuðla að betri heimi fyrir alla. Sameinuðu þjóðirnar vinna einnig hjálpar- og mannúðar- og þróunarstarf. Útrýming ójöfnuðar í heiminum er eflaust besta leiðin til þess að stuðla að langvarandi friði.

Við sem eigum heima á Íslandi erum svo lánsöm að búa við friðar forréttindi. Hér eru ekki vopnuð átök, við höfum aðgang að góðu réttarkerfi og mannréttindi okkar eru virt. Við sem höfum alist upp á Íslandi þekkjum ekki stríð. Við eigum því erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem hafa upplifað stríð og hafa þurft að flýja heimili sín, og jafnvel þurft að setjast að á fjarlægum slóðum.

Ég hef verið svo lánsöm að hafa fengið að kynnast flóttamönnum og fólki frá átakasvæðum í gegnum störf mín hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég starfaði t.a.m. í eitt og hálft ár í Líbanon hjá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin aðstoðar palestínska flóttamenn sem hafa verið í Líbanon frá 1948 sem og þá sem flúið hafa stríðið í Sýrlandi. Í gegnum starfið fékk ég nýja sýn á þau forréttindi sem að við njótum hér á Íslandi og heyrði sögur flóttamanna af hörmulegum aðstæðum í Sýrlandi og í flóttamannabúðum í Líbanon.

Líbönsk lög aftra Palestínumönnum frá því að vinna við margvísleg störf og því býr meirihluti þeirra við fátækt. Ef ekki væri fyrir Sameinuðu þjóðirnar þá hefði þessi hópur ekki aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Þrautseigja þeirra er mér aðdáunarverð. Þrátt fyrir langa bið þá deyr aldrei draumurinn um að fá að snúa aftur heim til heimalandsins.

Það er mér minnisstætt að hafa farið að landamærum Líbanons og Ísraels með palestínskum kollega mínum. Hann benti mér á þorpið sitt hinumegin við landamærin og sagði mér frá draum sínum um að fá að ganga um götur Jerúsalem einn daginn.Hann átti ekki til illvilja til gyðinga eða kristinna. Hans draumur er að geta búið í sátt og samlyndi með gyðingum og kristnum í heimalandinu. Ég vona að hann fái draum sinn uppfylltann.

Það má læra margt af þessari elju og þetta sýnir líka að það er alveg sama hversu langt er síðan að fólk hefur lagt á flótta, draumurinn er alltaf að snúa aftur heim. Draumurinn er að lifa góðu og friðsamlegu lífi.

Við Íslendingar getum gert margt til þess að hjálpa flóttamönnum að uppfylla þann draum sinn að lifa öruggu og friðsælu lífi. Við getum boðið þeim hæli og vernd hér á landi. Við getum aðstoðað þá að verða virkur og öflugur hluti af íslensku samfélagi.

Við eigum líka að beita röddum okkar til þess að krefjast friðar um allan heim. Við megum ekki sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að stríð geisa. Við eigum að krefjast þess að stórveldi heimsins noti ekki átakasvæði eins og Sýrland til þess að heyja óbeint stríð sín á milli. Við eigum að biðla til stofnanna eins og Sameinuðu þjóðanna til þess að grípa til aðgerða til þess að lina þjáningar almennra borgara á átakasvæðum. Við þurfum einnig að grípa sjálf til aðgerða til þess að gera heiminn að betri stað, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Glaðar stúlkur í kennslustund
Palestínskar stúlkur frá Sýrlandi í kennslustund í Líbanon fagna þeim áfanga að hafa klárað fyrstu kennslubókina í Ensku.
(Mynd: Vera Knútsdóttir)

Áherslan á degi Sameinuðu þjóðanna í ár er á Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og hvernig við getum lagt hönd á plógin til þess að uppfylla þau. Markmiðin eru 17 talsins og ná yfir breytt svið. Útrýming fátæktar, aukin jöfnuður, jafnrétti kynjanna, umhverfismál og friður og réttlæti eru meðal málaflokkanna sem að þau ná til. Ég hvet ykkur öll til þess að kynna ykkur markmiðin og hvernig þið getið lagt þeim lið. Það er nefnilega ekki bara á ábyrgð ríkja og alþjóðlegra stofnanna að vinna að þessum málum. Þetta kemur okkur öllum við og snertir okkur öll, hvar sem að við erum í heiminum.

Verum góð við hvort annað og munum að við eigum mun meira sameiginlegt með hvort öðru en ekki.