Unnið að auknum tækifærum fyrir konur og stúlkur á Gaza svæðinu

Síðan árið 2005 hefur Gaza svæðið einkennst af innilokun og óeirðum. Ástandið hefur haft margvígsleg áhrif á samfélagið, meðal annars þegar kemur að menntun ungs fólks. Hlutfall barna og unglinga sem halda skólagöngu áfram á menntaskólastigi fer hrakandi. Á sama tíma hafa þeir fáu skólar sem starfandi eru þurft að taka á móti hópum nemenda á morgnanna, og öðrum hópum að kvöldi til, vegna plássleysis. Þá hefur efnahagskerfið á svæðinu hlotið hnekki og er nú á mörkum þess að hrynja. Ungt fólk hefur lítil sem engin tækifæri á atvinnumarkaðinum, en atvinnuleysi hefur mælst um 40%. Konur og stúlkur þykja í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Utanaðkomandi aðstæður eru líklegri til að hafa áhrif á tækifæri þeirra til að mennta sig og stærstur hluti þeirra sem búa við atvinnuleysi eru ungar konur.

Síðan í janúar 2008 hefur UNRWA, United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East, beitt sér fyrir jafnrétti kynjanna á svæðinu með því að hjálpa palestínskum konum að nálgast menntun og tómstundir utan heimilisins. Markmiðið er að auka möguleika kvenna til að nálgast atvinnu og afla sér þekkingar. Á sama tíma er reynt að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Starfið gengur undir heitinu The gender initiative og hefur fjöldi kvenna og stúlkna tekið þátt í þeim viðburðum sem skipulagðir hafa verið. Sérstök áhersla er lögð á að ná til þeirra kvenna sem búa á svæðum þar sem erfitt er að nálgast þjónustu og hættulegt að fara út fyrir heimilið.

Árið 2011 skipulagði The Gender Initiative námskeið, The Young Women Leaders Programme, til að hjálpa ungum menntuðum konum að finna störf við hæfi. Sá raunveruleiki sem mætti nýútskrifuðum konum var sá að litla vinnu var að finna og án fyrri reynslu á atvinnumarkaðinum voru fáar dyr opnar. Með The Young Women Leaders Programme er ungum konunum hjálpað að nálgast þjálfun við hæfi, sem gefur þeim aukna möguleika að námi loknu. Lögð er áhersla á konurnar öðlist sjáflstraust og þekki eigin styrkleika. Átökin á svæðinu hafa takmarkað þau störf sem eru boði, en með aukinni þjálfun og reynslu opnast nýjar dyr fyrir þessum konum.

Starf The Gender Initiative skiptir gríðarlegu máli fyrir konur á Gaza svæðinu. Bæði er reynt að koma í veg fyrir að konum sé mismunað á atvinnumarkaðinum og unnið að því að tryggja að ungar stúlkur og konur haldi áfram námi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4 og 5 stefna annars vegar að aukinni menntun fyrir alla og hins vegar að því að jafnrétti kynjanna sé tryggt. Líkt og oft áður er sterk tenging milli þessara tveggja markmiða og mikilvægt að unnið sé jafnt að þeim báðum.

Heimildir:

  • Equality in Action: Gender Initiative – Background. 2016 brief
  • UNRWA’s Young Women Leaders Program: https://www.youtube.com/ watch?v=aLVtegrGEa4
  • Educational Support Units/UNRWA Gender Initiative: https://www.youtube.com/ watch?v=18QycHvUiW8