Umhverfisráðstefna: Viðhorf almennings. Heimsmarkmið sem leiðarljós í loftlagsaðgerðum og verndun jarðar

Í janúar var haldin fyrsta ráðstefna sinnar tegundar á Íslandi; umhverfisráðstefna Gallup sem fyrirtækið hélt ásamt fjölda samstarfsaðila. Til hennar var blásið með það fyrir stafni að kynna niðurstöður nýrrar könnunar Gallup á viðhorfi landsmanna til umhverfis- og loftlagsmála. Vilji var fyrir því að ráðast í framkvæmd könnunarinnar þar sem vaxandi samfélagsleg umræða varðandi umhverfismál gaf til kynna að áhugi almennings hefði færst í aukana en yfir það vantaði þó tölulegar upplýsingar. Úr niðurstöðunum má ýmislegt lesa og draga fram en meðal annars mældust töluvert fleiri áhugasamir um málaflokkinn árið 2017 en árið 2000. 60% svarenda sögðust hafa áhyggjur af stöðu mála og einungis 6% sögðust ekki gera neitt til að sporna við áhrifum á umhverfið. Íslensk stjórnvöld hlutu fremur slæma einkunn eða 2.9 af 6 mögulegum varðandi viðleitni þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meirihluta aðspurðra þótti enn of lítið aðhafst.

Íslenska ríkið hefur bundið sig ákveðnum skilmálum er kemur að umhverfismálum og því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Parísarsáttmálinn svokallaði er ein þessara skuldbindinga. Árið 2015 var haldin loftlagsráðstefnan COP21 (Conference of the Parties, nr. 21) í París þar sem fulltrúar þeirra ríkja sem skrifað höfðu undir rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change -UNFCCC) samkomulagið komu saman og komist var að því samkomulagi sem varð Parísarsáttmálinn þann 12. desember 2015 en hann tók gildi 4. nóvember 2016. Ísland var eitt þessara þjóðríkja og samþykkti Alþingi fullgildingu sáttmálans þann 19. desember 2016. Sáttmálinn samanstendur af metnaðarfullum markmiðum sem beinast að sameiginlegri vinnu að því að halda hitastigi jarðar niðri og takmarka útblástur skaðlegra lofttegunda. Hvert ríki sem fullgilt hefur sáttmálann þarf síðan að setja sér eigin markmið varðandi það hvernig það ætli að vinna að þessu sameiginlega verkefni, mæla eigin útblástur og framtakssemi og gefa út skýrslu þess efnis.

Sama ár og loftslagsráðstefnan var haldin í París voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samþykkt. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og tóku gildi 1. janúar 2016. Markmiðunum er ætlað að ýta undir og stuðla að hnattrænni sjálfbærri þróun og á þeim að vera náð fyrir lok árs 2030. Þeim er ekki aðeins beint að stjórnvöldum heldur getur almenningur, fyrirtæki, félagasamtök og aðrir aðilar tekið þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun. Sex þessara markmiða snúa beint að umhverfismálum og önnur óbeint. Þessi markmið eru númer 7, Sjálfbær orka, 11, Sjálfbærar borgir og samfélög, 12, Ábyrg neysla, 13, Verndun jarðarinnar, 14, Líf í vatni og númer 15, Líf á landi.

Hvert og eitt þessa markmiða hefur síðan undirmarkmið sem ætlað er að auðvelda vinnuna að aðalmarkmiðinu og gera hana markvissari. Sumum undirmarkmiðunum er ætlað að ná fyrir aðalmarkið árið 2030 líkt og undirmarkmið 15.2 sem kveður á um að fyrir árið 2020 eigi að hafa tekist að „efla sjálfbæra stjórnun í öllum gerðum skóga, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurræktun skóga“. Verandi vel stætt aðildaríki að Sameinuðu þjóðunum og undirritunaraðili að öllum helstu samningum og bókunum hefur Ísland skuldbindið sig að standa við þær kröfur og væntingar sem settar eru fram í heimsmarkmiðunum. Þar á meðal er krafan um að betur stæð ríki heims taki frumkvæði og veiti aðstoð þeim ríkjum sem verr eru stödd.

Frá því að Parísarsáttmálinn varð fullgildur á Íslandi og heimsmarkmiðin voru tekin í notkun hefur losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum ekki minnkað heldur reiknar Umhverfisstofnun þvert á móti með því að orðið hafi aukning samkvæmt óstaðfestum tölum fyrir 2016 og 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið og almenn mengun sem kemur frá landinu hefur ekki einungis áhrif á náttúruna, líf á jörðu og í sjó við landið heldur veldur hún hnattrænum umhverfisáhrifum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lítur á loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamálið en hún samanstendur einna helst af svifryksmengun. Svifryk hefur slæm áhrif á heilsu fólks og telur stofnunin mengunina valda allt að sjö milljónum dauðsfalla á ári.

Meirihluti þátttakenda í viðhorfskönnun Gallup var þó bjartsýnn varðandi framtíðina en það þarf sérstaklega að spýta í lófana í ríkis- og fyrirtækjarekstri. Var aðspurður almenningur á því máli að fyrst ætti að greiða leiðina fyrir fyrirtækin og síðan heimilin í landinu. Hægt er að ganga að heimsmarkmiðunum sem tilbúnum leiðarvísi til að vinna eftir svo hægt sé að ná hvort tveggja heimsmarkmiðunum sem og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og breyta í átt til betri jarðar fyrir alla að búa. Vonast er til þess að viðhorfskönnunin verði framkvæmd árlega en þegar var til samanburðar norsk Gallup könnun og voru íslensku niðurstöðurnar á svipuðum nótum og þær norsku.

Samantekt á niðurstöðum könnunarinnar sem birtar voru á ráðstefnunni má nálgast í heild sinni hér:
https://www.gallup.is/wp-content/uploads/2018/01/Umhverfisk%C3%B6nnunGallup.pdf

Hér eru hagnýtar upplýsingar um UNFCCC á ensku:
http://bigpicture.unfccc.int/#content-the-paris-agreemen

Hér eru upplýsingar um Parísarsáttmálann á ensku:
http://unfccc.int/paris_agreement/items/9485.php

Hér eru heimsmarkmiðin 17 útlistuð ásamt undirmarkmiðunum á íslensku:
https://un.is/heimsmarkmidin

Hér er linkur á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:
http://www.who.int/en/

Hér má finna frétt frá Rúv um loftmengun:
http://www.ruv.is/frett/telur-loftmengun-bana-7-milljonum-a-ari