Ef ekki verður gripið til stórtækra aðgerða mun hafið innihalda meira plast en fisk árið 2050

Nýlega hefur Brasilíska ríkisstjórnin útnefnt tvö ný vernduð hafsvæði í kringum landið. Um er að ræða mikilvægt framtak og jákvætt skref í baráttunni fyrir verndun hafsins og lífríkis þess. Frá þessu er sagt á vef Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna eða UN Environment Programme. Nýja löggjöfin mun auka hlutfall verndaðra hafsvæða í kringum Brasilíu úr 1,5% í 24,5% og er landið þannig komið með ákveðið forskot en samningur Sameinuðu þjóðanna varðandi lífræðilega fjölbreytni ráðleggur aðildarríkjum að vernda 10% prósent af þeim haf- og strandsvæðum sem þeim tilheyra fyrir árið 2020. Er vonað að þetta jákvæða fumkvæði ríkisstjórnar Brasilíu og forskot á önnur þjóðríki verði fordæmi og veiti þeim innblástur til að gera slíkt hið sama. Erik Solheim, framkvæmdastjóri stofnunarinnar og aðstoðar aðalritari Sameinuðu þjóðanna tilkynnti þetta á áttundu vatnsráðstefnunni en hún var haldin á Alheimsdegi vatnsins, þann 23. mars síðastliðinn í Brasilíuborg.

Þessum umræddu svæðum mun vera stjórnað af hvort tveggja ráðuneyti umhverfismála og ráðuneyti varnarmála þar í landi en það þykir nýstárleg leið til að verndunar svæða og eitthvað sem önnur þjóðríki gætu því einnig skoðað sem valkost. Sjóherinn hefur, að auki, spilað sögulegt hlutverk í verndun eyja á svæðinu og mun halda sinni viðveru.

Denise Hamú, fulltrúi stofnunarinnar í Brasilíu, sagði ennfremur „höfin veita okkur næringu, koma reglu á loftslagið og framleiða mest af því súrefni sem við öndum að okkur. Samt sem áður séu þau í síaukinni hættu. Það að vernda þessi svæði veiti ávinning af vistfræðilegum, félagslegum og efnahagslegum toga og er eitt það besta sem við getum gert til að viðhalds hafs“. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðana hefur gefið það út að ef við grípum ekki til aðgerða hið fyrsta verði í hafinu meira plast en fiskur árið 2050 með tilheyrandi afleiðingum fyrir hafið, lífverur þess sem og líf á jörðinni. Jafnvægi undir vatni er ekki síður mikilvægt en uppi á yfirborðinu. Ójafnvægið sem ríkir undir sjávarmáli kemur okkur þó oftast síður fyrir sjónir.

Kóralrif hafsins verða á hverju ári fyrir meiri áhrifum plastnotkunar mannfólksins en þó þau hylji einungis 0,1 prósent af flatarmáli sjávar eru þau heimkynni 25 prósent alls lífs í höfunum. Kóralrifin eru náttúrulegir varnarveggir gegn hækkun sjávarmáls og 275 milljónir manna reiða sig á þau til lífsviðurværis. Á síðustu 30 árum höfum við séð 50% kóralrifa jarðarinnar hverfa vegna hækkkunar hitastigs í sjónum, sem orsakast aðallega af athöfnum mannfóksins. Rannsóknir hafa sýnt fram á, í auknum mæli, að kóralrifjunum steðjar mikil hætta af plasti en átta milljón tonn af plasti enda á hverju ári í sjónum og plast hefur þann eiginleika að eyðast ekki sjálfkrafa.

Ruslið sem safnast fyrir í höfum jarðarinnar hefur áhrif á vistkerfi, kjörlendi og líffræðilega fjölbreytni sjávar og kemur í mismunandi stærðum og gerðum. Plast er með skæðari úrgangi sem skilar sér út í sjóinn, vegna magns og eiginleika plastsins sem gerir því kleift að safnast hratt upp. Áhrif þessa bitna helst á lífríki sjávar og jarðar, vistkerfum og lífvæni en einnig til að mynda á þeim atvinnugreinum sem stundaðar eru á, í og við sjóinn líkt og fiskveiðum, ferðaþjónustu og vöruflutningum sem oft eiga einnig þar sök að máli. Herferðinni #CleanSeas var ýtt úr vör að Umhverfisstofnuninni til að minnka mengun sjávar og hvetja þjóðríki, hópa fólks og einstaklinga til þess að grípa til aðgerða en í desember 2017 höfðu einungis 40 lönd gengið til liðs við herferðina.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ábyrg neyslaVerndun JarðarinnarLíf í vatni