Ráðstefna Evrópu Sambandsins og Sameinuðu þjóðanna til stuðnings Sýrlandi

Mynd frá UNRIC

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar boðuðu þjóðir heims til ráðstefnu í þágu Sýrlands og nágrannaríkja á sama tíma og reynt er að hleypa nýju lífi í viðræður um að binda enda á þau átök sem eiga sér stað. Tveggja daga ráðstefnan er önnur í röðinni á vegum þessara samtaka og átti sér stað 24. – 25. apríl í Brussel.

„Á næstu 2 dögum viljum við að Sýrlendingar viti að þeir hafa ekki gleymst, að við erum að reyna að finna betri leiðir til að hjápa þeim í þessum hræðilegu aðstæðum. Við leitumst eftir framlögum til þess að aðstoða og vernda sýrlenskar fjölskyldur hvar sem þær eru, þrátt fyrir sprengjur og ofbeldi þá munum við ekki gefast upp” sagði Mark Lowcock, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðaraðstoðar.

Samhæfingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) áætlar að yfir þrettán milljónir Sýrlendinga þurfi á neyðaraðstoð og vernd að halda. Fjöldi þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín er nánast fordæmalaus en samkvæmt OCHA eru 6,6 milljónir á vergangi í landinu og 5,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna hafast nú við í grannríkjunum. OCHA telur að jafnvirði 914 milljarða króna þurfi til neyðaraðstoðar í Sýrlandi og grannríkjunum en eins og sakir standa hefur aðeins um fjórðungur þeirrar upphæðar safnast.

„Stjórnmálamenn koma með loforð í flýti en þeir þurfa að standa við loforð sín gagnvart sýrlensku fólki. Minna en 3% af sýrlenskum flóttamönnum hafa sest að í ríkum löndum til að mynda hafa Bandaríkin einungis tekið á móti 11 sýrlenskum flóttamönnum á þessu ári” sagði Marta Lorence, svæðisstjóri Oxfam.

Mynd frá utanríkisráðuneytinu

Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, áréttaði á ráðstefnunni að framlag Íslands yrði 200 milljónir á þessu ári, myndi hækka í 225 milljónir árið 2019 og verða 250 milljónir árið 2020. Árið 2017 voru framlögin 200 milljónir króna. Samtals hækka því framlög frá íslenskum stjórnvöldum um 75 milljónir vegna Sýrlands.

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar skuldbundu sig til að fylgjast með þeim skuldbindingum sem áttu sér stað á ráðstefnunni og munu skýra reglulega frá stöðu mála, meðal annars gefa umsagnir á helstu alþjóðlegu viðburðum ársins.