Karneval der Kulturen – litið við á hátíð Berlínarbúa til handa menningarlegri fjölbreytni

Þessar konur hlutu viðurkenningu fyrir
„fallegasta handverksbásinn“ í ár

Í tilefni alþjóðadags menningarlegrar fjölbreytni þann 21. maí síðastliðinn fór undirrituð á hátíð í höfuðborg Þýskalands þar sem fjölmenningunni var fagnað. Karneval der Kulturen eða Karnival menninganna er haldin ár hvert og hittist einfaldlega þannig á þetta árið að dagskrá hátíðarinnar lauk á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna fyrir menningarlegum fjölbreytileika en dagurinn var ekki kunngerður fyrr en árið 2013, 17 árum eftir að skipulögð dagskrá hátíðarinnar leit ljós.

Upphaf og uppruni hátíðarinnar

Árið 1995 kom fram hugmyndin um að halda Karnival í Berlínarhverfinu Kreuzberg og það til að fagna fjölmenningunni sem þar var til staðar og sýna fram á að menningarlega margbreytilegt samfélag sé sterkara samfélag. Frá árinu 1996 hefur hátíðin verið skipulögð og haldin árlega á hvítasunnuhelginni en hún samanstendur af götuhátíð þar sem matur, handverk, ýmiss annar varningur og uppákomur eru á boðstólum, tónlistaratriðum og dansi á sviði og síðast en ekki síst skrúðgöngu sem er, venju samkvæmt, rúsínan í pylsuendanum.

Hugmyndin kom frá hópi fólks í Berlín sem vildi rísa upp gegn nýnasistum og útlendingahatri þeirra en nýnasistar gerðu, í ágúst árið 1992, árás á húsnæði hæslisleitenda í borginni Rostock sem er í nágrannahéraði Berlínar. Í kringum 2000 öfgahægrisinnaðir einstaklingar höfðu komið víðsvegar af landinu og stofnuðu lífi um það bil 120 hælisleitenda í hættu þá tvo daga sem árásin stóð yfir en hælisleitendurnir komust allir, með ótrúlegum hætti, lífs af.

Hópurinn í Berlín ákvað að gera eitthvað til þess að sýna fram á jákvæðan mátt menningarlegrar fjölbreytni og auka vitundarvakningu til þess að berjast gegn útlendingahatrinu.  Vildu þau sýna með táknrænum hætti hversu ríkt samfélag þeirra var vegna þeirrar menningarlegu fjölbreytni sem það bjó og býr enn yfir.

Menningarleg fjölbreytni

Bengalskt menningarfélag í skrúðgöngunni

Flest þau sem koma fram á hátíðinni eru Berlínarbúar og sýnir þannig hátíðin alþjóðlegan og fjölbreyttan svip borgarinnar. Um er að ræða mjög fjölbreytilegan hóp, allt frá litlum hópum til stærri og sýnilegri, þvert á heimsálfur og landamæri og hafa því margir þeir menningarlegu minnihlutahópar nokkurskonar málsvara á hátíðinni þó þar vanti auðvitað upp á. Hefur fólk þá einnig tækifæri á að fá eilitla innsýn í menningarheima sem það ekki þekkir en frítt er inn á hátíðina og fer hún, að langmestu leyti, fram utandyra undir berum himni.

Hátíðin stækkaði ört strax í upphafi en á fyrstu hátíðinni voru saman komin um fimmtíu þúsund manns en er skrúðgangan talin hafa vakið það mikla athygli og aðdáun að árið eftir mættu um 340 þúsund manns. Árið 2000 fór manntalan yfir milljón og 2004 komu 1,8 milljón gestir en síðan þá er talið að hvert ár komi á hátíðina í kringum 1,3 milljón manns.  Hátíðin Karneval der Kulturen eða Karnival menninganna er því orðin aðeins stærri í sniðum en hún upprunalega var. Orðið fer víða og breytist stemningin á hátíðinni samtímis en hún hefur undanfarin ár hlotið gagnrýni fyrir einmitt það.

Auknar vinsældir og aðrar áherslur?

Risi frá Venesúela sem faðmaði
áhorfendur skrúðgöngunnar

Enn er flest sú skipulagða dagskrá sem á sér stað vönduð og vel að henni staðið en mikið af því fólki sem kemur til að sækja hátíðina heim í dag kemur jafnvel frá fjarlægum löndum og oft ekki í öðrum tilgangi en að „skemmta sér“. Mikið er um áfengisneyslu og eitthvað um neyslu annarra vímuefna. Blaðamaður Berlínarblaðsins Der Tagesspiegel gekk svo langt í pistli frá Karnivalhelginni árið 2013 að segja að á hátíðinni sé það ekki lengur menningu sem sé fagnað heldur ómenningu. Ferðamenn komi í þeim tilgangi að skemmta  sér vegna þess orðs sem farið hafi af hátíðinni. Að auki sé nú að finna atriði í skrúðgöngunni sem virðast hafa lítið menningarlegt gildi eða umburðarlyndi vegna áfengisdrykkju þátttakenda. Skrúðgangan, sem ávalt er á hvítasunnudegi, hófst þetta árið klukkan hálf eitt á hádegi og lauk klukkan níu að kvöldi til og var stór hluti áhorfenda orðinn sterklega undir áhrifum áfengis þegar ekki var langt liðið á eftirmiðdaginn.

Þrátt fyrir þetta eru flest atriði og framkoma á hátíðinni trú boðskapi hennar og því sem hún á að standa fyrir þar sem menningarlegu fjölbreytninni er fagnað í gleði, á friðsömum og pólitískum nótum á sómasamlegan máta gegn kynþátta -og útlendingahatri, fyrir réttlátara og betra samfélagi. Gagnrýni sem fram hefur komið úr ýmsum áttum hefur þó rétt á sér þar sem fjölmargir gesta hátíðarinnar, auk einstaka þátttakenda, virðast hafa gleymt því hvað hún á að standa fyrir sem sést á stemningunni, einkum þegar liðið er á daginn.