Yfirlýsing Félags Sameinuðu þjóðanna vegna ákvörðunar bandarískra stjórnvalda að segja sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi harmar ákvörðun bandarískra stjórnvalda að segja sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á 70 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var stofnað 15. mars 2006 með ályktun Allsherjarþingsins nr. 60/251. Í ráðinu sitja 47 ríki sem kjörin eru af Allsherjarþinginu og hafa öll aðildarríkin tækifæri til að bjóða sig fram til setu í ráðinu. Hlutverk Mannréttindaráðsins er að efla, styrkja og vernda mannréttindi um allan heim.

Bandaríkin hafa ávallt haft mikilvægu hlutverki að gegna í að efla og styrkja mannréttindi og talað fyrir mannréttindum um allan heim. Þá voru Bandaríkin, undir forystu Eleanor Roosevelt þáverandi forsetafrúar, leiðandi afl í að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt 10. desember árið 1948.

Mannréttindi eiga undir högg að sækja víða um heim og því er gríðarlega mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Stofnanir eins og Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna þurfa að standa styrkum stoðum og hafa bolmagn til að sinna skyldum sínum. Það er hagur allra ríkja að sitja við borðið þegar að mannréttindi eru á dagskrá, óháð því hversu vel þau standa sig í að framfylgja mannréttindum því það gerir það mögulegt að knýja fram breytingar til hins betra með friðsömum hætti.

Með þátttöku gefst tækifæri til að leiðbeina ríkjum um hvað má betur fara og hvetja þau til að gera betur. Það er von Félags Sameinuðu þjóðanna að Bandaríkin dragi ákvörðun sína til baka og taki aftur sæti í Mannréttindaráðinu.