Andlát Kofi Annan, fyrrum Aðalritara Sameinuðu þjóðanna

Mynd: David Levine fyrir the Guardian

Kofi Annan, fyrrverandi Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna og handhafi Friðarverðlauna Nóbels er látinn eftir stutt veikindi, áttatíu ára að aldri. Frá þessu hafa fjölmiðlar greint eftir tilkynningu sem barst frá fjölskyldu hans og stofnun honum samnefndri í gær. Hann skyldi eftir sig eiginkonu og þrjú börn, að ógleymdum þeim gríðarmikla arfi sem í lífi hans og störfum fólst.

Kofi Annan var fæddur í Kumsai í Ghana þann 8. apríl árið 1938. Það var svo snemma á lífskeiðinu eftir nám í hagfræði og alþjóðasamskiptum sem Annan hóf störf innan stofnana Sameinuðu Þjóðanna, fyrst árið 1962, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Genf (WHO). Síðar átti Annan eftir að gegna hinum ýmsu störfum og embættum, þar á meðal í Efnahagsnefnd fyrir Afríku í Addis Ababa, hjá friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna (UNEF II) í Ismalia og hjá Framkvæmdanefnd flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR). Því til viðbótar gegndi Annan ýmsum ábyrgðarstöðum í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York, auk þess sem hann sótti sér aukna menntun í stjórnun og flutti um stutt skeið aftur til Ghana og sinnti þar embætti yfirmanns ferðamála.

Það var svo eftir þennan viðburðarríka feril, í byrjun árs 1997 sem Annan var skipaður Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna. Því embætti átti hann eftir að gegna allt til loka árs 2006, eða í tvö fimm ára tímabil. Á meðan þessu tímabili stóð, gerði Annan það eitt af megin markmiðum sínum að fylgja eftir umfangsmikilli umbótaáætlun sem átti eftir að blása nýju lífi í Sameinuðu Þjóðirnar og gera alþjóðakerfið betra og skilvirkara. Annan var einnig öflugur talsmaður og baráttumaður mannréttinda, réttarríkisins, Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna og Afríku. Annan hafði raunar orð á því sjálfur sem eitt helsta afrek lífs síns það mark sem hann hafði á tilurð og framgang Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna.

Það var að frumkvæði Annan sem friðargæsla Sameinuðu Þjóðanna var styrkt til muna, gerandi þeim kleift að takast á við mikla aukningu í fjölda friðargæsluverkefna og þeim mannskap sem því fylgdi. Annan hvatti einnig til og hafði mikil áhrif á tilurð Friðarráðs (PBC) og Mannréttindaráðs (HRC) Sameinuðu Þjóðanna. Annan spilaði líka lykilhlutverk í stofnun alþjóðlegs sjóðs til baráttu gegn alnæmi, berklum og malaríu, innleiðingu á fyrstu samþykkt Sameinuðu Þjóðanna um stefnu í baráttunni gegn hryðjuverkum og samþykki aðildarríkjanna til verndunar mannslífa frá þjóðarmorðum, stríðsglæpum, þjóðernishreinsunum og glæpum gegn mannkyni (R2P).

Annan tók einnig frumkvæði á sviðum stjórnmálanna sem ráðfús og árangursríkur diplómati. Árið 1998 átti Annan þátt í umskiptum til borgaralegrar stjórnar í Nígeríu. Sama ár fór hann til Íraks til að leysa úr hindrunum sem höfðu myndast á milli Íraks og Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna (UNSC) vegna ósamræmis sem gætti vegna samþykkta um vopnaeftirlit. Þetta varð til þess að komast mátti í veg fyrir frekari fjandskap sem var yfirvofandi á þessum tíma. Ári síðar átti Annan eftir að vera djúpt viðriðinn það ferli sem leiddi til sjálfstæðis Austur-Tímor frá Indónesíu. Árið 2000 var Annan svo ábyrgur fyrir staðfestingu á afturköllun Ísraels frá Líbanon og árið 2006 átti hann stóran þátt í að tryggja hlé á ófriði á milli Ísraels og Hezbollah. Sama ár miðlaði Annan einnig málum sem leiddi til lausnar í deilu milli Kamerún og Nígeríu vegna Bakassi skagans.

Eftir að Annan lauk ferli sínum sem Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, lét hann ekki eftir kjurrt liggja. Með stofnun sinni, Kofi Annan Foundation, talaði hann fyrir og hvatti til aukinnar pólitískrar samstöðu í heiminum til að sigrast á hvers konar ógn við friði, þróun og mannréttindum. Annan taldi öll þau tæki, tól og þekkingu þegar vera til staðar svo hægt væri að sigrast á öllum þeim brýnu vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir að leysa, svo sem hvað varðar fátækt, ofbeldi, átök og lélega stjórnunarhætti. Fyrst og fremst taldi hann framförum haldið aftur vegna skorts á forystu og pólitískum vilja til að nota það sem til staðar er til að bera kennsl á og færa fram lausnir.

Þau voru mörg afrek Annan og mikill var sá arfur og þær hugsjónir sem hann skildi eftir sig fyrir allt mannkyn. Ómögulegt væri að telja upp öll þau verk sem hann kom að eða hafði óbein áhrif á, þó tilraun sé til þess gerð með grófum hætti í þessari grein. Þó er mikilvægt fyrir okkur öll, að arfi hans og hugsjónum sé haldið á lofti í hvívetna svo komandi kynslóðir fái einnig að njóta þess ávaxtar sem líf hans bar.