Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 70 ára

Þann 10.desember 2018 verða liðin 70 ár frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Hún er skrifuð í lok Síðari Heimstyrjaldarinnar og í þeim tilgangi að stuðla að því að mannkynið þurfi aldrei aftur að ganga í gegnum hörmunga á borð við Helförina. Yfirlýsingin var undirrituð í París þann 10.desember 1948 og var að Eleanor Roosevelt, sem stýrði fyrsta mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sem var einn af aðal höfundum hennar.

Þrátt fyrir að heimurinn hafi gengið í gegnum miklar breytingar, sem erfitt var að sjá fyrir við undirritun yfirlýsingarinnar, þá stendur hún ennþá sem sterkur grunnur þegar kemur að því að ávallt skuli tryggja frelsi, jafnræði og virðingu fyrir alla einstaklinga. Þrátt fyrir að vera ekki lagalega bindandi þá hefur yfirlýsingin verið undirstaða helstu alþjóðasamninga um mannréttindi.

Yfirlýsingin stendur saman af 30 greinum (sjá hér)  sem kveða á um mannréttindi sem við öll eigum jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, eða annarra aðstæðna. Hún er sameiginlegt markmið allra þjóða og ríkja með það fyrir augum að sérhver einstaklingur og allar stofnanir samfélagsins hafi yfirlýsinguna ávallt í huga þegar kemur að stefnumótun og aðgerðum.

Herferðin “Stand up for human rights” eða #standup4humanrights sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir í tilefni afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar miðar að því að efla þekkingu almennings um mannréttindi og að beina sjónum okkar að því hvað Mannréttindayfirlýsingin þýðir fyrir okkur hvert og eitt í daglegu lífi. Á heimsíðu herferðarinnar má nálgast mikið af fræðslu efni ásamt frásögum einstaklinga sem staðið hafa vörð um mannréttindi á einn eða annan hátt.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi mun ásamt samráðshóps um mannréttindi halda upp á þennan merka dag með þátttöku í hátíðarfundi á vegum stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi sem fram fer í Veröld Vigdísar að morgni 10.desember. Dagskráin er hin glæsilegasta en hún hefst klukkan 9:00 með ávarpi dómsmálaráðherra. Forsætisráðherra slítur svo fundi klukkan 10:50. Dagskránna má nálgast hér og viðburður hefur verið settur upp á Facebook hér.

Þá munu Sameinuðu þjóðirnar bjóða til bíósýningar um kvöldið, en klukkan 20:00 verður í Bíó Paradís sýnd myndin Hreinsunardeildin (The Cleaners) og í lok myndarinnar fara fram umræður með þátttöku áhorfenda. Myndin beinir sjónum af því hvernig internetið er hreinsað af “óæskilegu” efni. Varpað er fram spurningum í myndinni um hver í raun stjórni því hvaða efni fer á internetið og stýri með því hvernig við hugsum, brot úr myndinni má sjá hér. Umræður fara fram eftir að sýningu myndarinnar lýkur og þar hafa framsögu Heiðdís Lilja Magnúsdóttir lögfræðingur hjá fjölmiðlanefnd og Smári McCarthy alþingismaður. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.