Vitundarvakningin Þróunarsamvinna ber ávöxt

Öll helstu íslensku félagasamtökin í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu hafa tekið höndum saman, í samstarfi við utanríkisráðnuneyti, að endurvekja átakið ,,Þróunarsamvinna ber ávöxt“ sem fer fram 9.- 13. september nk. og leggja að þessu sinni áherslu á þátttöku fyrirtækja í þróunarsamvinnu.

Íslensk fyrirtæki geta lagt þung lóð á vogarskálar þróunarsamvinnu. Með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er gert skýrt ákall eftir þátttöku fyrirtækja í brýnustu verkefnum á heimsvísu, sem eru meðal annars loftlagsaðgerðir ásamt útrýmingu hungurs og fátæktar í öllum sínum birtingarmyndum. Með því að leggja til þekkingu, búnað, vinnuafl eða fjármuni hafa mörg fyrirtæki breytt lífskjörum fjölda fólks, víðs vegar um heiminn.

Starfsfólk, viðskiptavinir og fjárfestar gera æ meiri kröfur til fyrirtækja um samfélagslega ábyrga hegðun. Með þátttöku í þróunarsamvinnu geta fyrirtæki aukið stolt starfsmanna sinna og gefið viðskiptavinum og fjárfestum skýran og ábyrgan valkost.

Hápunktur átaksins er málstofan Þátttaka fyrirtækja í þróunarsamvinnu sem fer fram á Nauthóli 10. september nk. kl. 9:00-11:30. Markmið málstofunnar er að kynna fyrir fyrirtækjum, stórum sem smáum, tækifæri og ávinning þess að styðja við alþjóðlega þróunarsamvinna. Fyrirtæki á borð við Marel, Íslandsbanka, Te og kaffi og Áveituna á Akureyri koma til með segja frá reynslu sinni af þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Á málstofunni verður jafnframt myndband frumsýnt er fjallar um ýmis samstarfstækifæri fyrirtækja og félagasamtaka er starfa á þessum vettvangi.

Að átakinu standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Rauði Krossinn, UN Women, UNICEF, SOS barnaþorpin, Barnaheill, ABC barnahjálp, Kristniboðssambandið, Hjálparstarf kirkjunnar, Sól í Tógó og utanríkisráðuneytið.

Við hvetjum alla til að fylgjast með á Facebook síðu átaksins: https://www.facebook.com/throunarsamvinna.ber.avoxt/?ref=bookmarks

Fulltrúar samráðshópsins
Fulltrúar samráðshópsins