Trú í þágu jarðar ráðstefna í Skálholti

Biskupar og aðrir trúarleiðtogar frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum og Kanada áttu fund með fræðimönnum, listamönnum og aðgerðarsinnum í loftslagsmálum ásamt fulltrúum frá umhverfissamtökum í Skálholti dagana 8.-10. október. Meðal þátttakenda var fulltrúi frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem er ábyrgur fyrir frumkvæði samtakanna að „Trú í þágu jarðar“.

Þátttakendur ræddu þátt trúar, andlegra viðhorfa og trúarlegrar sannfæringar í að takast á við loftslagsvá og hnignun vistkerfa. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði ráðstefnuna.

Þátttakendur lögðu áherslu á eftirfarandi:

  • Rætur loftslagsvár, sem mannkyn stendur frammi fyrir, og annarra vandamála sem hindra sjálfbæra þróun, má rekja til mannlegs breyskleika. Tæknin ein dugir ekki til að uppræta það samhengi.
  • Trú sem og andleg viðhorf fela í sér boðskap um gæslu sköpunarverksins og verndun náttúrunnar. Um leið hafa þau vekjandi áhrif á fólk og virkja það á grundvelli gildismats.
  • Trúarleiðtogar og samfélög leitast við að vernda umhverfið. Engu að síður er þörf fyrir áhrifaríkari tengsl, öflugri samskiptanet og meiri samræmingu svo hægt sé að gera þessa viðleitni markvissa. Raddir allra kynja, ungra kynslóða og frumbyggjahefða þurfa að hljóma sterkt í því samtali og samskiptum sem nauðsynleg eru.
  • Sú brýna nauðsyn sem heimtar svör við loftslagsbreytingum og hnignun vistkerfa jarðar krefst þess að leiðtogar fylgi orðum sínum eftir með aðgerðum.
  • Trúarleiðtogar njóta trausts og virðingar í samfélögum. Þeir hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að leiða og örva þá andlegu og menningarlegu umbreytingu sem þarf til að vernda okkar sameiginlegu heimkyni. Þeir geta verið fyrirmynd, höfðað til dýpstu tilfinninga og blásið kjarki í fólk til aðgerða.
  • Á Íslandi ríkir friðsæld og velvild. Landið hefur verið vettvangur fyrir friðar- og umhverfisstarf. Lega landsins við norður-heimskautsbaug setur það í þá víglínu loftslagsbreytinga sem hvað mest mæðir á. Þess vegna er Ísland kjörið til þess að kalla á rökstóla leiðtoga í trúarmálefnum og stjórnmálum. „Bandalag trúar fyrir jörðina“ gæti veitt trúarleiðtogum tækifæri til þess að setja fram sameiginleg markmið um það hvernig eigi að takast á við loftslagsbreytingar og hnignun vistkerfa. Slíkt bandalag gæti eflt samskiptanet trúarsamfélaga og auðveldað þeim að deila sögum sínum, reynslu og þekkingarhefð, og ýtt undir sameiginlegar aðgerðir.

Ráðstefnan var skipulögð af Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Landgræðslunni og Þjóðkirkjunni ásamt Stofnun Sigurbjörns Einarssonar og  Guðfræðistofnun Háskóla Íslands. Ráðstefnan naut styrkja frá Þjóðkirkjunni og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Þáttakendur í Skálholti
Þáttakendur í Skálholti