Ísland leiðandi í nefnd um þróunarmál og mannréttindi

New York – Nefndarstarf á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur verið með heldur óvenjulegu sniði þetta árið. Flestar samingaviðræður um ályktanir fara fram með rafrænum hætti þó að atkvæðagreiðslur séu haldnar í sölum SÞ. Í tveimur ályktunum sem samþykktar voru á síðustu dögum hefur Ísland verið í leiðandi hlutverki.

Í nefnd um þróunarmál hefur Ísland undanfarin ár tekið að sér að leiða, ásamt Alsír, samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu, sem samþykkt var samhljóða í vikunni. Fastanefnd Íslands hefur lagt áherslu á landgræðslu um árabil í starfi Sameinuðu þjóðanna enda fyrirfinnst talsverð reynsla og þekking á Íslandi og landgræðsla mikilvægur liður í náttúruvernd og á ýmsa félags- og efnahagslega þætti. Ísland gegnir einnig formennsku, ásamt Namibíu, í vinahópi Sameinuðu þjóðanna um endurheimt lands, en hópurinn kom því m.a. til leiðar að landgræðsla hlyti ríkan sess í heimsmarkmiðunum, sem ríki heims keppast nú við að innleiða á næstu tíu árum.

Í nefnd um félags- og mannréttindi leiddi Ísland í þriðja skipti ályktun um styrkingu mannréttindanefndanna í Genf. Ályktunin er lögð fram í nafni Norðurlandanna, Belgíu og Slóveníu og miðar að því að styrkja starf mannréttindanefndanna í því augnamiði að gera þær skilvirkari. Langt og strangt endurskoðunarferli stendur enn yfir og hefur m.a. tafist vegna COVID-19 heimsfaraldursins, en Ísland hefur verið virkur þátttakandi í ferlinu síðan 2012. Ályktunin var samþykkt án atkvæðagreiðslu og gerðust 66 ríki frá öllum heimshornum, eða u.þ.b. þriðja hvert aðildarríki SÞ, meðflutningsaðilar að ályktuninni.