António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynnti í dag að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði verið skipuð staðgengill sérstaks fulltrúa hans í Írak. Hún mun stýra pólitiskri deild og hafa kosningamál á sinni könnu í UNAMI, Aðstoðarsendisveit Sameinuðu þjóðanna í Írak (Deputy-Special Representative of the Secretary General).
Ingibjörg tekur við starfinu í mars en skipunin er til eins árs í senn, líkt og aðrar skipanir af sama meiði innan Sameinuðu þjóðanna. Hún mun hafa aðsetur í Bagdad, höfuðborg Íraks. Í samtali við fréttamiðla segir Ingibjörg að verkefnið sé í senn áhugavert og krefjandi. „Það verður spennandi að fylgjast með þessum málum enda kosningar í júní. Öryggisástandið í landinu hefur oft verið verra og tækifærin eru mikil,“ segir hún.
Bráðabirgðastjórn situr nú við völd í Írak eftir að ríkisstjórn landsins féll í lok árs 2019, en kjörsókn hafði aðeins verið 44% í kosningum 2018 þegar ríkisstjórnin komst til valda. „Það sem Sameinuðu þjóðirnar eru að gera þarna er að aðstoða stjórnvöld við að skipuleggja kosningarnar og undirbúa jarðveginn, en þetta er allt á forsendum Íraka sjálfra,“ segir Ingibjörg. Hún segir mikið verk að vinna í landinu og helsta markmiðið að aðstoða stjórnvöld við að auka traust á kosningum sem hafi bersýnilega ekki verið til staðar síðast. „Fólk þarf að treysta niðurstöðum kosninganna.“
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur viðs störfum af Alice Walpole frá Bretlandi. Ingibjörg Sólrún er fyrrverandi borgarstjóri, utanríkisráðherra og alþingismaður. Hún starfaði hjá UN Women í Kabúl og stýrði skrifstofu sömu stofnunar fyrir í Istanbúl. Nú síðast var hún yfirmaður lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE).