António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ritað kjallaragrein í tilefni af loftslagsfund samtakanna ásamt Bretum og Frökkum í tilefni 5 ára afmælis Parísarsamningsins. Sem birtist á Stundinni
Kolefnisjafnvægi fyrir 2050: Brýnasta erindi heimsins
-eftir António Guterres aðalframkvæmastjóra Sameinuðu þjóðanna
Öflug hreyfing í þágu kolefnisjafnvægis er að taka á sig mynd nú þegar þess er minnst að fimm ár eru liðin frá því þeim tímamótum í loftslagsmálum sem Parísarsamningurinn markaði. Í næsta mánuði munu ríki sem bera ábyrgð á 65 af hundraði af allri losun lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum, hafa skuldbundið sig til þess að ná kolefnisjafnvægi fyrir miðja öldina. Þessi ríki hýsa 70% af hagkerfi heimsins.
Koltvísýringur aldrei meiri
Á sama tíma stefnir í óefni í loftslagsmálum. Losun hefur að vísu minnkað tímabundið vegna COVID-19 faraldursins. Samt sem áður hefur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu aldrei verið meiri og fer vaxandi. Síðasti áratugur var hinn hlýjasti í sögunni; íshellan á norðurskautinu í október hefur aldrei verið þynnri. Dómsdagseldar, flóð, þurrkar og ofviðri eru að verða daglegt brauð. Fjölbreytni lífríkisins er að hruni komin, eyðimerkur breiðast út, höfin hlýna og fyllast af plasti. Vísindin segja okkur að ástandið muni enn versna ef ekki verði dregið úr framleiðslu eldsneytis úr jarðefnum um 6% á ári fram til 2030.
Þess í stað er útlit fyrir 2% árlegri aukningu.
Óvænt tækifæri
Endurreisn að loknum heimsfaraldrinum gefur okkur óvænt en mikilvægt tækifæri til að ráðast gegn loftslagsbreytingum, hlúa að umhverfinu, endurnýja hagkerfi og hugsa framtíðina upp á nýtt. Hér er það sem ber að gera:
Í fyrsta lagi þurfum við að skapa alheimsbandalag sem stendur undir nafni um kolefnisjafnvægi fyrir 2050.
Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til þess að ná þessu markmiði. Bretland, Japan og Lýðveldið Kórea og meir en 110 önnur ríki hafa tekið í sama streng. Og það gerir einnig verðandi Bandaríkjastjórn. Kína hefur heitið því að ná þessu marki fyrir 2060.
Hverju ríki, borg, fjármálastofnun og fyrirtæki ber að semja áætlanir um kolefnisjafnvægi. Þeim ber að grípa nú þegar til aðgerða til þess að sveigja inn á þessa braut. Það felur í sér að losun í heiminum minnki um 45% fyrir 2040 sé miðað við 2010. Í nóvember á næsta ári verður haldin Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Glasgow. Samkvæmt Parísarsamningnum um loftslagmál ber ríkisstjórnum að standa skil á sífellt metnaðarfyllri skuldbindingum á fimm ára fresti. Þessar skuldbindingar nefnast Landsmarkmið (Nationally Determined Contributions, NDCs) og þær ættu að fela í sér skýran vilja til að ná kolefnisjafnvægi.
Tæknin er okkur hliðholl. Það er ódýrara að reka þau kolaorkuver sem til eru en að byggja ný frá grunni. Hagfræðileg greining staðfestir þetta. Að mati Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) munu umskiptin yfir í hreina orku skapa 18 milljónir starfa nettó og er þá tekið tillit til þeirrar atvinnu sem mun hverfa með gamla orkugeiranum. En við verðum þó að viðurkenna mannlegan fórnarkostnað við það að kasta kolefninu fyrir róða. Það ber að slá skjaldborg félagslegrar verndar um starfsfólkið. Greiða ber fyrir endurþjálfun þess svo að umskiptin verði réttlát.
Vegvísir veraldar til betri framtíðar
Heimsmarkmiðin eru vegvísir okkar.
Í öðru lagi þarf að laga fjármálakerfi heimsins að Parísarsamningnum og Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun; vegvísi veraldar til betri framtíðar.
Það er kominn tími til að verðleggja kolefni. Binda verður enda á niðurgreiðslur jarðefnaeldsneytis. Stöðva verður byggingu nýrra kolaorkuvera. Færa verður skattbyrðina frá tekjum yfir á kolefni, frá skattgreiðendum til þeirra sem menga. Ástæða er til að gera það að skyldu að gera loftslagsleg reikningsskil í fjármála-ákvörðunum. Þá ættu allar ákvarðanir í efnahags- og fjármálum að fela í sér markmið um kolefnisjafnvægi. Bönkum ber að laga útlán sín að kolefnisjafnvægi og eigendur og stjórnendur sjóða ættu að stefna að því að gera eignasafn sitt kolefnissnautt.
Aðlögun og viðnámsþróttur
Í þriðja lagi er afar brýnt að stuðla að bættri aðlögun og auknum viðnámsþrótti til þess að koma til móts við þá sem nú þegar verða fyrir barðinu á þungbærum afleiðingum loftslagsbreytinga.
Sú er ekki raunin í dag. Aðeins 20% þess fjár sem varið er til loftslagsmála rennur til aðlögunar. Þetta er ljón í vegi viðleitni okkar til þess að draga úr hamfaraskaða. Þetta er heldur ekki skynsamlegt. Hver króna sem fjárfest er í aðlögun skilar sér fjórfalt til baka. Aðlögun og viðnámsþróttur eru litlum þróunar-eyríkjum sérlega mikilvæg þar sem loftslagsbreytingar eru spurning um sjálfa tilveru þeirra.
Á næsta ári gefast fjölmörg tækifæri til að takast á við neyðarástand heimsins í loftslagsmálum. Á dagskrá eru meiriháttar ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og önnur verkefni á sviði fjölbreytni lífríkisins, hafsins, samgangna, orku, borga og fæðukerfa. Einn traustasti bandamaður okkar er náttúran sjálf. Lausnir sem byggja á náttúrulegum lausnum geta stuðlað að þriðjungi nettó-niðurskurðar á losun gróðurhúsalofttegunda sem markmið Parísarsamningsins krefjast. Þekking frumbyggja getur verið okkur leiðarljós. Og þörf er á fleiri konum í hópi þeirra sem taka ákvarðanir nú þegar mannkynið leitar leiða til að vernda umhverfið og byggja upp grænt hagkerfi.
Vatnaskil
COVID og loftslagið hafa leitt okkur að vatnaskilum. Okkur er ófært að hverfa aftur til þess hversdagsleika sem fól í sér ójöfnuð og veikleika. Þess í stað ber okkur að feta öruggari og sjálfbærari braut. Þetta er margslungin þolraun í stefnumótun og brýn siðferðileg prófraun. Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu varða veginn næstu áratugi. Okkur ber að líta á endurreisn eftir faraldurinn og aðgerðir í loftslagsmálum sem tvær hliðar á sama pening.