Alþjóða útvarpsdagurinn

13.febrúar 2021. Útvarpið er enn þann dag í dag einn þeirra fjömiðla sem hefur hvað mesta útbreiðslu.

13.febrúar fagnar UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, og við öll Alþjóða útvarpsdeginum. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 2011 og við fögnum deginum því í 10. skipti nú í ár. Dagurinn var valinn í ljósi þess að þann 13. febrúar 1946 hófu Sameinuðu þjóðirnar starfrækslu útvarps. Fyrsta útvarpsútsending Sameinuðu þjóðanna um heimsbyggðina hófst með þessum orðum:  “Þetta eru hinar Sameinuðu þjóðir sem kalla til íbúa heimsins”. Enn er sent út en starfsemin hefur breyst og er UN Radio nú fyrst og fremst efnisveita fyrir starfandi útvarpsstöðvar og dreifir efni sínu meðal annars um netið.

Útvarpið er öflugur miðill til að fagna mannkyninu í allri sinni fjölbreytni og er mikilvægur vettvangur lýðræðislegrar umræðu. Enginn annar miðill nær jafn vel til fólks, hvar sem það er statt. Útvarpið gefur öllum tækifæri til að taka þátt í opinberri umræðu óháð lestrarkunnáttu, kyni, aldri eða félagslegri stöðu. Það kostar lítið að eiga útvarp og það gegnir mikilvægu hlutverki í boðmiðlun þegar neyðarástand ríkir. Sá einstaki kostur útvarpsins að ná til þessa víðtæka áhorfendahóps þýðir að sama skapi að útvarpið hefur tækifæri til að móta upplifun samfélagsins af fjölbreytileika, verið vettvangur fyrir raddir ólíkra hópa, til að á þá sé hlustað. Útvarpsstöðvar ættu að þjóna fjölbreyttum samfélögum og bjóða upp á fjölbreytt úrval dagskrár, sjónarmiða og efnis. Þær ættu að endurspegla fjölbreytni hlustenda í öllum sínum rekstri.

Í tilefni Alþjóða útvarpsdagsins 2021 hvetur UNESCO útvarpsstöðvar til að fagna 10 ára afmæli hans og yfir 110 árum af útvarpi.

Á alþjóðlega útvarpsdeginum er sjónum að þessu sinni beint að þremur meginþemum:

  • ÞRÓUN. Heimurinn breytist, útvarpið þróast.
    Þetta þema vísar til seiglu útvarpsins og sjálfbærni þess;
  • NÝSKÖPUN. Heimurinn breytist, útvarpið aðlagast.
    Útvarpið hefur þurft að laga sig að nýrri tækni til að halda sér í sessi sem helsti miðill upplýsinga, aðgengilegur öllum alls staðar;
  • TENGSL. Heimurinn breytist, útvarpið tengir.
    Þetta þema varpar ljósi á mikilvægi þjónustu útvarpsins fyrir samfélag okkar allra – t.d. þegar kemur að náttúruhamförum, félags-efnahagslegum kreppum, farsóttum o.s.frv.