Í dag, 8. mars, höldum við upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna. Dagurinn er tækifæri til að líta í bakspegilinn og fagna þeim framförum sem hafa orðið, til að kalla eftir breytingum og fagna hugrekki og festu kvenna, sem gengt hafa ómetanlegu hlutverki í sögu landa sinna og samfélaga.
Heimurinn hefur náð fordæmalausum framförum en þó hefur ekkert land náð jafnrétti kynjanna. Fyrir 50 árum lentum við á tunglinu; á seinustu 10 árum höfum við uppgötvað nýja forfeður manna og myndað svarthol í fyrsta skipti. Í millitíðinni hafa lagalegar takmarkanir komið í veg fyrir að 2,7 milljarðar kvenna hafi aðgang að sama starfsvali og karlar. Innan við 25 prósent þingmanna voru konur, frá og með 2019. Enn verður þriðja hver kona fyrir kynbundnu ofbeldi. Þessu þarf að breyta. Tryggja verður jafnrétti kynjanna og efla þarf völd allra kvenna og stúlkna fyrir 2030, líkt og heimsmarkmið 5 segir til um.
Í ár beinist þema alþjóðlegs baráttudags kvenna sjónum sínum að konum í forystu í heimi COVID-19. Faraldurinn hefur valdið djúpri efnahagskreppu og miklum félagslegum áhrifum. Undanfarið ár hefur sýnt okkur og sannað mikilvægi þess að veita konum vald til jafns við karlmenn og umboð til fullrar þátttöku í stjórnmálum og við ákvarðanatökur. Það hefur sýnt sig að þar sem konur eru æðstu valdhafar eru öflugar viðbragðsáætlanir við heimsfaraldrinum.
Í úttekt UN Women sem gerð var í 87 löndum varðandi forystu og þátttöku kvenna við ákvarðanatökur í viðbrögðum við COVID-19 kom í ljós að í aðeins 3,5% ríkjanna mældist kynjajöfnuður við ákvarðanatökur. Skýtur það skökku við þar sem faraldurinn hefur haft gríðarlega ólíkar afleiðingar eftir kyni. Ný greining félagsins Femínísk fjármál á efnahagsaðgerðum íslenskra stjórnvalda í COVID-19 gefur til kynna að konur, þar af mikill fjöldi erlendra kvenna, sem störfuðu í ferðaþjónustu og tengdum þjónustugreinum séu meðal þeirra sem hafa orðið fyrir hvað verst úti fjárhagslega og að úrræði stórnvalda hafi ekki náð til þessara hópa til jafns við aðra. Rannsóknir sýna einnig að faraldurinn muni þrýsta 47 milljónum kvenna og stúlkna til viðbótar í sárafátækt svo í heildina munu 435 milljónir kvenna og stúlkna lifa í sárafátækt 2021, þ.e. 13% kvenþjóðar heimsins.
Er 13% réttlæti nóg?
Í aðdraganda alþjóðlegs baráttudags kvenna myndar kvennahreyfingin á Íslandi breiða samstöðu og hafnar meðferð réttarkerfisins á konum sem eru beittar ofbeldi og krefst úrbóta. UN Women á Íslandi er hluti af kvennahreyfingunni og sýnir Stígamót samstöðu sem hefur sent níu tilkynnt kynferðisbrotamál til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ekki hlutu hljómgrunn hér á landi til að undirstrika þann kerfisbundna vanda sem blasir við innan réttarkerfisins. Kröfur kvennahreyfingarnar verða settar fram á blaðamannafundi sem hefst kl. 10.15 8.mars. Þetta myndband sýnir á myndrænan hátt að sakfelling næst aðeins í 13% kynferðisbrotamála sem tilkynnt er um hér á landi.
Opnunarbjöllu Kauphallar hringt fyrir jafnrétti
Dagskrá hefst kl.9.15 mánudaginn 8. mars í Hörpu. Kauphöllin í samstarfi við UN Women á Íslandi, Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök atvinnulífsins (tengiliður UN Global Compact), tekur nú í fjórða sinn þátt í sameiginlegum viðburði UN Women um að hringja bjöllu fyrir jafnrétti í yfir 90 löndum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er heiðursgestur og hringir bjöllunni í ár. Sjá streymi hér
Krafist er að konum sé trúað og tekið sé mið af röddum kvenna á öllum sviðum samfélagsins.
United Nations Observance of International Women’s Day 2021
Alþjóðastofnun UN Women fagnar deginum m.a. með athöfn sem streymt verður á netinu. Meðal gesta eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og António Guterrers aðalritari Sameinuðu þjóðanna sem verða bæði með erindi. Áhersla er lögð á þema alþjóðlegs baráttudags kvenna í ár, konum í forystu og jafnrétti í heimi COVID-19.
Hægt er að fylgjast með viðburðinum hér frá kl. 15:00-17:30 mánudaginn 8. mars.