Jóna Þór­ey kjörin ung­menna­full­trúi Ís­lands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mann­réttinda

Jóna Þórey Pétursdóttir hefur verið kjörin nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Kjörið fór fram á sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF) síðastliðinn laugardag.

Sem ungmennafulltrúi Íslands mun Jóna Þórey sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september fyrir hönd ungs fólks á Íslandi.

Jóna Þórey er forseti Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi, en jafnframtt var hún forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands árin 2019-2020. Þar barðist hún fyrir mannúðlegra háskólasamfélagi og mótmælti tanngreiningum á fylgdarlausum ungmennum og börnum á flótta í samstarfi við No Borders Iceland.

Þá kom Jóna Þórey að skipulagningu jafnréttisþings forsætisráðuneytisins í fyrra, tók þátt í pallborði á Women Political Leaders Forum og sótti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2019, COP25, þar sem hún tók þátt í pallborðsumræðum til að krefjast aðgerða í þágu kynslóða framtíðarinnar.

Jóna hlaut nýverið inngöngu í meistaranám í mannréttindalögfræði við háskólann í Edinborg þar sem hún mun sérhæfa sig enn frekar í greininni og loftslagsréttlæti.