Að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi
Nú þegar aprílmánuður er genginn í garð kynnum við þema mánaðarins, sem er heimsmarkmið 4 – menntun fyrir alla.
Út árið munum við kynnast heimsmarkmiðunum betur í gegnum þema hvers mánaðar. Birt verður grein um eitt af heimsmarkmiðunum, ítarefni, upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðunum og lagt sitt að mörkum til sjálfbærrar þróunar. Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig er hægt að innleiða þau í framtíðarstefnu og starfsemi.
Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á árar getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags-umhverfisbreytingar, efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.
Óhætt er að að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu yfir öll mörk og mæri svo að það verðme mögulegt.
4. Menntun fyrir alla
Menntun er ekki aðeins grundvallarmannréttindi heldur felast í henni réttindi sem leysa úr læðingi önnur mannréttindi. Þau eru sameiginleg gæðme og einn af helstu drifkröftum framfara í öllum 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Menntun er lykillinn að betri framtíð og er í raun grunnurinn að því að fólk fái notið þeirra samfélagslegu gæða sem í kringum það er, hvort sem þau eru efnahagsleg, félagsleg eða menningarleg. Menntun gefur einstaklingum tækifæri til að brjótast úr fátækt og til að vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu sem þeir tilheyra, til dæmis með þátttöku í kosningum.
Menntun er mikilvæg til að auka réttindi kvenna með því að virkja þær og efla. Menntun er einnig mikilvæg til þess að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, til þess að virkja mannréttindi og lýðræði, sem og hún eykur skilning fólks á mikilvægi umhverfisverndar.
Mikilvægi menntunar er óumdeilanleg og nauðsynlegt er að tryggja aðgengi allra að góðri grunnmenntun. Það eru réttindi, ekki forréttindi, að njóta menntunar.
Áhrif Covid-19
Covid-19 faraldurinn hefur valdið mestu truflun á menntun sem um getur. Ef ekki er brugðist við kunna milljónir barna að verða fyrir óbætanlegum skaða.
168 milljónir barna hafa ekki geta mætt í skólann í nánast heilt ár vegna skólalokana í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar. Ennfremur hafa um það bil 214 milljónir barna – eða 1 af hverjum 7 á heimsvísu – misst af meira en þremur fjórðu af skólaárinu. Þetta kemur fram í skýrslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) birti á dögunum.
Til að vekja athygli á því neyðarástandi sem ríkir í menntamálum vegna kórónaveirunnar afhjúpaði UNICEF á dögunum innsetninguna „Pandemic Classroom“ við höfuðstöðvar sínar í New York. Er innsetning búin til úr 168 tómum skólaborðum og skólatöskum og táknar hvert borð milljón börn sem hafa ekki komist í skólann í heilt ár. Með innsetningunni vildi UNICEF senda skilaboð til ríkisstjórna heimsins um að forgangsraða opnun skóla og að bæta aðgang að menntun fyrir þær milljónir barna sem hafa ekki getað stundað fjarnám á meðan á lokunum stendur.
Það þarf ekki að velkjast í vafa um hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn, ungmenni og samfélög í heild. Meirihluti skólabarna í heiminum treystir á skólann sem ekki einungis stað til að læra heldur einnig stað þar sem þau geta átt samskipti við jafnaldra sína, fengið sálræna aðstoð, bólusetningar og heilbrigðisþjónustu. Auk þess eru skólamáltíðarnar oft næringarríkasta máltíðin sem börn fá þann daginn. Jafnframt er varað við því að því lengur sem röskun er á skólastarfi og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni alveg upp úr námi. Annað ár heimsfaraldursins er að hefjast og óttast er að tala barna utan skóla muni aukast um 24 milljónir vegna farsóttarinnar.
Fjarnám og lokun skóla kann jafnframt að grafa undan áratuga gamalli framþróun að auknu jafnrétti kynjanna í menntun og á fleiri sviðum. Um allan heim eykst hætta á barneignum á unglingsaldri, snemmbærum þungunum og þvinguðum hjónaböndum auk ofbeldis. Fyrir margar stúlkur er skólinn ekki aðeins lykill að betri framtíð heldur líflína.
Áður en heimsfaraldurinn reið yfir sátu 130 milljónir stúlkna í heiminum ekki á skólabekk. Að mati Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) eiga 11 milljónir stúlkna til viðbótar á hættu að eiga ekki afturkvæmt á skólabekk.
Staðan á Íslandi
Ákvæði í íslenskum lögum falla vel að heimsmarkmiðunum, svo sem um rétt allra til menntunar, gildi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag og tengsl almennrar menntunar, lýðræðis og mannréttinda, jafnréttis, menningar og sjálfbærni. Meginmarkmið stjórnvalda er að skapa umhverfi fyrir eflingu menntunar í landinu og veita öllum viðeigandi undirbúning og tækifæri til frekara náms eða starfa og virka þátttöku í samfélaginu. Kjarni íslenskrar menntastefnu á leik- og grunnskólastigi hverfist um grunnþættina: læsi, lýðræðme og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigðme og velferð, sjálfbærni og sköpun.
Íslenskt samfélag stendur þó frammi fyrir ýmsum áskorunum þegar kemur að menntamálum og er mikilvægt að leggja áherslu á að skilja engan eftir.
Huga þarf sérstaklega að þörfum nemenda af erlendum uppruna, leggja áherslu á jafna stöðu og tækifæri þeirra til menntunar. Tryggja þarf stuðning á öllum skólastigum, meðal annars með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli og stuðla að virku tvítyngi. Jafnframt þarf að leggja áherslu á að þekking og reynsla innflytjenda sé metin.
Helstu áskoranir á Íslandi eru:
- Efla læsi og tryggja framtíð íslenskrar tungu
- Fjölga kennurum
- Fjölga nemendum í verk- og tækninámi
- Vinna gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum
- Menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku
Ísland á alþjóðlegum vettvangi
Þrátt fyrir verulegar úrbætur alþjóðlega í aðgengi barna að grunnskólamenntun vantar töluvert upp á að alþjóðlegum þróunarmarkmiðum sé náð og er gæði menntunar víða ábótavant. Menntun er því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands. Áhersla er lögð á menntun barna ásamt uppbyggingu fagþekkingar innan áherslusviða Íslands, en um þessar mundir rekur Ísland meðal annars menntaverkefni í Malaví, Úganda og í Palestínu.
Íslensk stjórnvöld styðja einnig við starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en fagfólk frá þróunarlöndum hefur þann möguleika að læra við skólana endurgjaldslaust. Skólarnir vinna að uppbyggingu fagþekkingar í þróunarlöndum í málefnum jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis og stuðla þannig jafnframt að framgangi annarra markmiða. Ísland tekur ennfremur þátt í ýmiss konar alþjóðlegri samvinnu á sviði kennaramenntunar.
Menntun fyrir alla
4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki góðri grunnskólamenntun á jafnréttisgrundvelli án endurgjalds til að öðlast viðeigandi og gagnlega menntun.
4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost að þroskast og dafna frá unga aldri, fá umönnun og leikskólamenntun til að búa þau undir grunnskóla.
4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur að góðu tækni-, starfs- og framhaldsnámi, þar á meðal á háskólastigi, á viðráðanlegu verði.
4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.
4.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi kynjamismunun í menntakerfinu verið afnumin og jafn aðgangur að námi á öllum stigum tryggður og starfsþjálfun fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fyrir fatlað fólk, frumbyggja og börn sem búa við erfiðar aðstæður.
4.6 Eigi síðar en árið 2030 verðme tryggt að öll ungmenni og stór hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri og skrift og öðlast talnaskilning.
4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.
4.a Byggð verðme upp og endurbætt aðstaða til menntunar fyrir börn, óháð kyni, svo að allir geti lært í öruggu og friðsamlegu umhverfi án aðgreiningar, fatlaðir sem aðrir.
4.b Eigi síðar en árið 2020 hafi námsstyrkjum sem standa þróunarlöndum til boða verið fjölgað um heim allan, einkum í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin, þ.e. smáeyríkjum og Afríkuríkjum, til að efla háskólamenntun í þróunarlöndum, þar á meðal starfsnám og upplýsinga- og samskiptatækni, tækninám, verkfræðme og raunvísindi.
4.c Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.