Heimsmarkmiðin – 6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

6: Hreint vatn og salernisaðstaða

Tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu 

Nú þegar júnímánuður er genginn í garð kynnum við þema mánaðarins, sem er heimsmarkmið 6hreint vatn og hreinlætisaðstaða. 

Birtar verða greinar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun núm,er hvert fyrir sig á árinu 2021. Jafnframt stendur til að það fylgi með tilheyrandi ítarefni og greinagóðar upplýsingar, kynningar og fræðsla um það hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðum SÞ. Þannig geti allir þessir ólíku aðilar lagt sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.  

Ein af þeim spurningum sem vert er að velta upp og leita svara við er  þessi: Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum SÞ 

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á eitt getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags- og umhverfisbreytingar, slæmt efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.  

Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, mun líf allra og umhverfi batna til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu þvert á landamæri svo að það verði mögulegt. 

Hreint vatn og hreinlætisaðstaða 

Ljósmynd frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Bubango, Tanzaníu.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres hefur látið þau ummæli falla að á áratug aðgerða tengdum vatni 2018-2028 eru tækifæri til að auk meðvitund, skilgreina vegvísi og koma vatni á dagskránna. Stefnt er að því að uppfylla öll heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun undir lok þriðja áratugar 21. aldar, eigi síðar en árið 2030.

Sjötta heimsmarkmið SÞ um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu eins og þau öll sautján skipar vegamikinn sess í átt til sjálfbærrar þróunar í heiminum. 

Í öllum heiminum hefur þriðjungur mannkyns eða sem nemur um það bil 2.2 milljarð manna lélegt og ófullnægjandi aðgengi að fersku neysluvatni. Talið er að í heiminum öllum séu um 785 milljónir manna sem eru beinlínis án sérstaks aðgangs að neysluvatni. Tveir af hverjum fimm einstaklingum hafa ekki aðstöðu til handþvottar, sem er gert með sápu og vatni.

Um er að ræða 4.2 milljarð manna sem ekki hafa aðgang að viðunandi hreinlætisaðstöðu. Um 673 milljónir manna hafa enga aðstöðu til að sinna salernisþörfum og þurfa því að gegna þeim á víðavangi. Stórbættur aðgangur að neysluvatni getur því bjargað milljónum mannslífa.  

Nokkur undirmarkmið eru undir sjötta heimsmarkmiði SÞ um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Til dæmis er undirmarkmið 6.2 sem fjallar um að tryggja gott aðgengi að salernum um alla heim. Það er einkum nauðsynlegt til að bæta stöðu kvenna og stúlkna.

Sömuleiðis er brýnt að tryggja aðgengi að neysluhæfu vatni vegna mikillar fátæktar víða um heim. Fátækt í heiminum hlýtur ein og sér að skerða og hefta möguleika fólks til nauðsynlegs aðgangs að fersku neysluvatni 

Sjálfbær þróun samkvæmt undirmarkmið 6.3 fjallar meðal annars um bætt vatnsgæði og hreinsunar á skólpi í fráveitum. Víða má finna í fátækari löndum heimsins ömurlega birtingarmynd opins eða óunnins skólps nema hvoru tveggja sé. Skemmst er frá að segja að þær aðstæður eru hvorki bjóðandi mönnum né dýrum.

Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 gefa okkur tæpan áratug til að betrumbæta þetta afleita ásigkomulag. Sjálfbær þróun, vinnsla skólps og fráveitur sem liggja út í sjó eins og finna má hér á landi og víðar geta leikið lykilhlutverk. Þannig yrði komið á stórfelldum úrbótum á þessu viðkvæma og lífsnauðsynlega málefnasviði sjálfbærrar þróunar.      

Samkvæmt undirmarkmiði 6.6 var gert ráð fyrir að á árinu 2020 verði unnið að úrræðum að því meðal annars að endurheimta votlendi. Ávinningur af endurheimt votlendis eru meðal annars minni losun gróðurhúsalofttegunda, bætt vatnsmiðlun og fjölbreyttara fuglalíf. 

Áhrif Covid-19 

Miklir þurrkar valda því að ógn stafar af alvarlegum þurrkum í Sómalíu. Ungar stúlkur við matarúthlutun í Mógadishú þar í landi.

Mjög hefur verið hamrað á því í yfirstandandi heimsfaraldri kórónuveirunnar að handþvottur bjargar mannslífum. Óhætt er að fullyrða að heimsfaraldurinn hefur brugðið ljósi á vandann sem stafar af slæmum og ófullnægjandi aðgengi að neysluvatni til handþvottar og til annarra þarfa.   

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO) er handþvottur einn af skilvirkustu og árangursríkustu aðferðunum sem hægt er að beita til varnar smitsjúkdómum eins og kórónuveirunni (Covid-19). En fyrir útbreiðslu farsóttarinnar eða árið 2017 voru það um það bil 3 milljarður manna sem skorti möguleika á handþvotti upp úr heilnæmu neysluvatni og með sápu. 

Aðgangur að vatni og vatnsöflun, hreinlæti og heilbrigði (á ensku water, sanitation og hygiene sem er skammstafað WASH sem á íslensku þýðir þvottur!) og skyld þjónusta leikur lykilhlutverk í því að berjast gegn farsóttinni og því að bjarga lífi og heilsu milljóna manna.

Kórónuveiran verður ekki stöðvuð án aðgangs að fersku neysluvatni fyrir það fólk sem býr við sérstaklega erfiðar aðstæður. En það skal til að mynda haft í huga að áhrif kórónuveirunnar geta orðið umtalsvert meiri á þá sem lifa í fátækrahverfum borga en farsóttinn hefur á aðra jarðarbúa. 

Viðbrögð Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) hafa verið að aðlaga WASH-þjónustu til að hindra útbreiðslu farsóttarinnar. Það felur í sér áframhaldandi stuðning við ríki sem glíma við mikinn vanda og búa við hættur tengdar þeim heimsfaraldri sem nú geisar.

Sömuleiðis hjálpar WASH-þjónusta ríkjum sem geta lítið gert af eigin rammleik og hafa fáar bjargir á sínum snærum. Þannig eru þau lönd og ríki berskjölduð gagnvart núverandi og fyrirsjáanlegum vanda. Á slíkum svæðum heimsins er brýnt að tryggja WASH-þjónustu og efla viðbrögð við smitum í heilbrigðisþjónustu.  

Ísland á alþjóðlegum vettvangi 

Börn fylla vatnstanka við samfélagsvatnspóst á hinni þurrkviðrasömu Tihama hásléttu nálægt Hodeidah í hinu stríðshrjáða Jemen.

Í ræðu um heimsmarkmið SÞ númer sex benti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, á að þeir sem verst verða úti vegna skorts á hreinu vatni séu konur og stúlkur á þurrkasvæðum jarðarinnar. Þær eyði samtals 200 milljón klukkustundum á degi hverjum til að sækja sér og fjölskyldum sínum vatn. Þetta sé tapaður tími sem mætti nýta í margt annað, svo sem menntun, tekjuöflun og samveru með ástvinum.

Vegna þessa veigamikla hlutverks kvenna og stúlkna við vatnsöflun, og við hin ýmsu landbúnaðarstörf, sé brýnt að konur séu með í ráðum ef takast á að ná heimsmarkmiði SÞ númer sex um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu.

Um margra ára skeið hefur þróunaraðstoð Íslands miðað að því að bæta aðgang að fersku neysluvatni og hreinlætisaðstöðu. Frá árinu 2017 er í gangi verkefni til fjögurra ára sem lýtur að því að koma upp 1000 vatnspóstum í Afríkuríkinu Malaví. Vatnspóstarnir eiga að bæta aðgang um það bil 200 þúsund Malavíubúa að fersku vatni. Samhliða er unnið með malavískum samfélögum að uppbyggingu á hreinlætisaðstöðu í landinu. Til dæmis er unnið að uppbyggingu á salernum í einstökum samstarfsskólum Íslands þar í landi.  

Í samstarfi við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) er unnið að því að bæta vatns- og salernisaðstöðu í einu fátækasta og fjölmennasta fylki Afríkuríkisins Mósambík. Verkefnið snýr að því að bæta aðgang að neysluvatni og líka tryggja þar viðeigandi hreinlætisaðstöðu.

Þannig má með ábyrgum og fullnægjandi hætti koma upp hreinlætisaðstöðu og stuðla þannig að bættum hreinlætisvenjum íbúa. Um er að ræða úrbætur sem varða tugi þúsund Mósambíkbúa. Þessu samfara mun vatns- og hreinlætisaðstaða vera gerð aðgengileg fyrir um það bil sex þúsund nemendur í 15 skólum þar í landi.  

Í Afríkuríkinu Úganda er hafin fræðsla í skólum á mikilvægi vatns- og hreinlætisaðstöðu. Einnig er fjallað um nauðsyn orkusparnaðar í skólaeldhúsum í landinu. Í bígerð er að byggja og koma á fót vatnsveitum sem munu færa 39 fiskiþorpum þar aðgang að fersku vatni gegn einhvers konar greiðslu. Á bilinu 18-20 þúsund nemendur í grunnskólum og 50-60 þúsund Úgandabúar munu njóta góðs af afrakstrinum.  

Einnig er í Afríkuríkinu Sierra Leone unnið að þróunaraðstoð í samstarfi við UNICEF. Þróunaraðstoðin þar hefur sömu markmið eins og þeim er lýst í öðrum Afríkuríkjum. Leitast er við að bæta aðgang að fersku vatni og aðstöðu til hreinlætis í sjávarþorpum Sierrra Leone. Samstarfið lýtur að því að byggja vatnsveitu fyrir 40 þúsund íbúa Sierra Leone ásamt tilheyrandi hreinlætisaðstöðu.  

Í enn öðru Afríkuríki Líberíu er unnið að því að tryggja 20 þúsund íbúum aðgang að fersku neysluvatni og hreinlætisaðstöðu. Samhliða þessu eru Líberíubúar í sjávarþorpum markvisst upplýstir um mikilvægi bæðme fersks neysluvatns og almenns hreinlætis.  

Mannúðaraðstoð er veitt af Íslands hálfu og það einnig í samstarfi við UNICEF. Það er unnið bæðme í hinu stríðshrjáða ríki Jemen sem er staðsett á syðsta odda Arabíuskaga og í fyrrnefndu Úganda. Í Jemen geisar borgarastyrjöld sem engan endi virðist ætla að taka. Gegn þeirri neyð er reynt af alefli að bæta aðgang að drykkjarhæfu vatni fyrir íbúa landsins.

Að sama skapi er unnið í samstarfi við UNICEF að uppbyggingu aðgangs að vatni sem beint er að flóttamönnum frá Suður-Súdan sem koma til Úganda og gistisamfélaga þeirra. Orsökin fyrir flóttamannastraumnum í Úganda eru vopnuð átök í fyrrnefnda landinu Suður-Súdan.

Mannúðaraðstoð Íslands og UNICEF reynir að bregðast við hinum mikla vanda sem við blasir annars vegar í Úganda og hins vegar í Jemen.                          

Staðan á Íslandi 

Við Íslendingar erum lánsöm að hafa afar gott aðgengi að fersku neysluvatni. En vissulega þurfum við öll að hamla gegn vatnssóun. Draga þarf verulega úr sóun á vatni bæði á Íslandi og um alla heim. Best yrðme ef hægt er að hindra með öllu sóun á vatni hvar sem er á byggðu bóli.  

Ísland hefur löngum talið sig geta státað af besta vatni sem völ er á hvar sem er í heimi. Íslenskur orðskviður segir að vatn sem rennur í gegnum hraun verður að fersku vatni. Í þessu spakmæli er einmitt falin ágæti íslensks neysluvatns þar sem hér er bæðme vatn frá jöklum landsins og hraun. 

Helstu áskoranir á Íslandi eru: 

  • Hækka hlutfall skólps sem er hreinsað. 
  • Ljúka innleiðingu vatnatilskipunar ESB.  

Ferskt vatn, vatnsbúskapur og sjálfbær þróun

Súdönsk stúlka drekkur vatn og þvær sér um andlitið. Vatnspóstur við Omer El-Mukthar grunnskóla fyrir stúlkur.

Vatn er ekki bara nauðsynlegt fyrir heilsuna, heldur líka til að útrýma fátækt. Hið sama á við um aðgengi að vatni vegna fæðuöryggis, friðar, mannréttinda, lífrænnar heildar og menntunar. Engu að síður sjá ríki fram á auknar áskoranir vegna vatnsskorts, vatnsmengunar, niðurníðslu vatnskerfa og þeirra vatnsbirgða sem ganga þvert yfir landamæri. 

Allar þjóðir heims þurfa að finna úrræði til að koma á betri vatnsbúskap í sínu heimalandi. Þannig má tryggja vatnsöflun til handa þjóðum og þegnum hvers lands fyrir sig. Úrræðin þurfa að vera bæði áhrifarík og skilvirk. Allt verður að gera í því augnamiði að tryggja enn frekari sjálfbæra þróun í anda heimsmarkmiðanna og bætt aðgengi mannkyns að neysluvatni.  

Undirmarkmið: 

6.1 Eigi síðar en árið 2030 standi öllum til boða heilnæmt drykkjarvatn á viðráðanlegu verði hvar sem er í heiminum 

6.2 Eigi síðar en árið 2030 hafi allir jafnan aðgang að fullnægjandi hreinlætisaðstöðu og enginn þurfi að ganga örna sinna utan dyra. Í þessu tilliti verði sérstaklega hugað að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.   

6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun og lágmarka losun hættulegra efna og efnablandna. Hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns verði minnkað um helming og endurvinnsla og örugg endurnýting aukin til muna um heim allan.  

6.4 Eigi síðar en árið 2030 verði vatn nýtt mun betur á öllum sviðum. Sjálfbær vatnsnotkun verði tryggð í því skyni að koma í veg fyrir vatnsskort. Jafnframt verði dregið verulega úr fjölda þeirra sem þjást af vatnsskorti.  

6.5 Eigi síðar en árið 2030 verði stjórnun vatnsauðlinda samþætt á öllum sviðum, meðal annars með samstarfi yfir landamæri eftir því sem við á.  

6.6 Eigi síðar en árið 2020 verði unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn.   

6.a Eigi síðar en árið 2030 nái alþjóðleg samvinna og stuðningur að efla starfsemi og áætlanir þróunarlanda sem tengjast vatni og hreinlætisaðgerðum, þ.m.t. vatnsöflun, afsöltun, vatnsnýtingu, hreinsun skólps og frárennslisvatns, endurvinnslu og tækni til endurnýtingar.  

6.b Stutt verði við byggðarlög til að bæta vatnsstjórnun og hreinlæti.