Matvælastofnun SÞ verður 60 ára

Þann 10. júlí 2021 fagnaði Matvælastofnun SÞ (e. World Food Programme) sextíu ára afmæli sínu. Stofnunin er leiðandi á sviði mannúðar og leitast er við á hennar vegum að bjarga mannslífum. Einnig er reynt að færa líf manneskja til hins betri vegar. Þannig er veitt mataraðstoð í neyð og unnið með samfélögum við það að bæta næringu og efla viðnámsþrótt.

Sómölsk flóttabörn borða saman í tjaldi í Dollo Ado, í Eþíópíu.

Alþjóðasamfélagið hefur skuldbundið sig til að útrýma hungri og ná fram fæðuöryggi og bættri næringu fyrir árið 2030. Þannig er annað heimsmarkmið SÞ kallað ,,Ekkert hungur” og er það í anda starfsemi matvælastofnunar SÞ undanfarin 60 ár. Matur og aðstoð tengd mat hafa lykilþýðingu við það að rjúfa hringrás hungurs og fátæktar.

Friðarverðlaun Nóbels hlaut Matvælastofnun SÞ í fyrra eða árið 2020. Nafnbótina fékk hún fyrir starf sitt við það að berjast gegn hungri. Einnig voru Nóbelsverðlaunin veitt stofnuninni fyrir framlag til þess að efla frið á átakasvæðum og viðleitni til að hindra að hungursneyð sé notuð í hernaðarskyni og í átökum. 

Árið 2019 aðstoðaði Matvælastofnun SÞ 97 milljónir manna í 88 ríkjum, sem var mesti fjöldi síðan árið 2012. Hvern einasta dag rekur hún 5,600 vörubíla, 30 skip og tæplega 100 flugvélar sem eru á ferðinni á hennar vegum. Hlutverkið er að koma mat og annarri aðstoð skilvíslega til þeirra sem þurfa mest á því að halda. 

Á hverju einasta ári dreifir stofnunin 15 milljörðum matarskammta sem falla á kostnað af hverjum skammti að andvirði 74 íslenskra króna. Þessar tölur lýsa í hnotskurn hvers vegna hún hefur einstakt orðspor sem viðbragðsaðili vegna neyðaraðstoðar. 

Matvælum dreift á Haíti eftir fellibyilinn Mathías. Íbúar Jeremie á vesturhluta Haíti fá hér mannúðaraðstoð.

Verkefni Matvælastofnunar SÞ lúta að neyðaraðstoð, hjálp til bágstaddra og endurhæfingu, þróunaraðstoð og sérverkefnum. Tveir þriðju hlutar starfsins eru á átakasvæðum. Á svæðum þar sem ríkja átök er fólk í þrisvar sinnum meiri hættu á að búa við næringarskort og hungur heldur en í löndum þar sem friður ríkir.

Í neyðartilvikum er Matvælastofnun SÞ oft fyrst á vettvang og kemur áleiðis mataraðstoð til fórnarlamba stríðs, borgarastyrjalda, þurrka, flóða, jarðskjálfta, fellibylja, uppskerubrests og náttúruhamfara. Þegar neyðin er afstaðin liðsinnir hún samfélögum við að endurreisa eyðilögð líf og lífsafkomu fólks. Líka er unnið að því að efla þanþol fólks og samfélaga sem eru fórnarlömb langvarandi erfiðleika og kreppa. Það er gert með þróunaraðstoð í nafni mannúðar. 

Þróunarverkefni Matvælastofnunar SÞ einblína á næringu. Hér er sérstaklega hugað að móðurhlutverkinu og að börnum. Þannig er leitast við að koma í veg fyrir vannæringu á fyrstu stigum barnsaldurs og eftir fæðingu barns. Þetta er unnið með aðgerðum sem er beint að fyrstu 1.000 dögunum frá fæðingu til annars aldursárs. Síðar er það gert með skólamáltíðum. Um er að ræða stærstu mannúðarsamtök sem koma til skila slíkum máltíðum á heimsvísu. Skilvíslega hefur verið unnið að skólamáltíðum undanfarna hálfa öld eða lungan úr 60 ára sögu matvælastofnunar SÞ. 

Miklir þurrkar ógna lífi fólks vegna hungursneyðar í Sómalíu. Ungar stúlkur í biðröð við matvælaúthlutun í Mogadishu.

Árið 2019 færði Matvælastofnun SÞ til nauðstaddra 4,2 milljónir smálesta tonna af mat og því sem samsvarar 256 milljörðum íslenskra króna í peningum og matarmiðum. Með því að kaupa mat eins nálægt þörfinni fyrir hann og mögulegt er má spara tíma og kostnað vegna samgangna. Einnig hjálpar slíkt til við að efla heimamarkað með matvæli. Í auknum mæli er leitast við að svara þörfum fólks fyrir mat með peningasendingum í reiðufé. Slík ráðstöfun gerir bæði sveltandi og þurfandi fólki kleift að velja og kaupa sinn eigin mat á heimamarkaði.  

Þörfin fyrir starfsemi Matvælastofnunar SÞ er nú sem endranær afar brýn. Haldið er áfram á vegum hennar að gera nauðstöddum kleift að fá mat og næringu. Þannig má vernda líf fólks og heilsu og leggja grundvöll að frekara lífshlaupi þess. Sagan hingað til einkennist af baráttu fyrir mannúð og friði. Annað heimsmarkmiðmið um sjálfbæra þróun er skýrt um það að afstýra matarskorti og ,,Ekkert hungur”!