Í dag, 19. nóvember eru liðin 75 ár síðan Ísland undirritaði yfirlýsingu að sáttmála Sameinuðu þjóðanna 1946. Var það Thor Thors sem undirritaði fyrir Íslands hönd en hann var fyrsti fasta fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

En hvað þýddi það fyrir Ísland að fá aðild að Sameinuðu þjóðunum á sínum tíma? Vissulega margt, enda má segja að hagsmunir Íslands og grunngildi þjóðarinnar hafi endurspeglast að mörgu leyti í sáttmálanum. Thor Thorsson sagði:
„Vegna þátttökunnar í Sameinuðu þjóðunum, er Ísland nú viðurkennt af alheiminum sem fullvalda, sjálfstætt lýðveldi“.
Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum var eitt fyrsta skrefið sem hið unga lýðveldi tók en um leið eitt hið mikilvægasta. Fyrir fámenna þjóð eins og Ísland að verða hluti að alþjóðlegum sáttmála styrkti sannarlega stöðu landins en lengi vel var Ísland fámennasta ríkið innan SÞ.
Upphaf Sameinuðu þjóðanna
Sameinuðu þjóðirnar eru samstarfsvettvangur ríkja en þær voru formlega stofnaðar undir lok síðari heimstyrjaldarinnar af þeim 50 ríkjum sem höfðu þá lýst yfir stríði við Þýskaland og Japan.
Mikilvægasti tilgangur þeirra var myndun hernaðarlegs öryggiskerfis fyrir ríki heimsins, þó að bæði efnahagsleg og félagsleg atriði kæmu einnig fljótt til álita við undirbúning að stofnun þeirra. Ráðamenn hins nýja lýðveldis á Íslandi vildu ekki ganga að þeim almennu skilmálum sem fylgdu því að verða stofnaðili að þeim í fyrstu, þó boðið hafi verið. Til þess að vera með frá upphafi hefði Ísland þurft að segja Þýskalandi og Japan stríði á hendur. Ísland gekk því ekki í SÞ fyrr en að stríði loknu. Sótt hafi þó verið um undanþágu á þessu atriði, en var það ekki samþykkt í fyrstu.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti svo umsókn Íslands um aðild 9. nóvember 1946 en þann daginn var Kristín Björnsdóttir frá Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu fengin til að draga íslenska fánann að húni.
Ekki allir þekkja söguna af Kristínu, en segja má að hún hafi verið fyrsti starfandi fulltrúi íslensku kvenþjóðarinnar hjá SÞ. Það var fyrir hreinni tilviljun að hún endaði þar en hún átti afar viðburðarríka ævi. Allt frá því að vera ung stúlka í Húnavatnssýslu, sinna módelstörfum í London, koma á talsambandi við útlönd fyrir Landssímann eða passa börn í Frakklandi, yfir í að sitja í fangabúðum fasista á Ítalíu í þrjú ár – og þaðan yfir í að selja hugbúnað fyrir IBM til Sameinuðu þjóðanna, þar sem hún svo loks endaði á að starfa til fjölda ára.
Kristín hefur verið mikill kvenskörungur síns tíma, í orðins kurteisustu meiningu. Hvílík kona, hversu hugrökk, óhrædd og ævintýragjörn. En segja má að þetta séu einnig eiginleikar sem smáþjóðin Ísland hefur sýnt frá upphafi aðildarsamningsins, til að styrkja stöðu sína og sýna fram á að Ísland hafi fullt fram á að færa á alþjóðavettvangi.
Allt frá undirritun að aðild sáttmálans hefur svo fjöldi Íslendinga starfað hjá Sameinuðu þjóðunum. Við eigum orðið fjöldann af fulltrúum sem borið hafa hagsmuni Íslands í brjósti sér til þess að leggja sterkan grundvöll og viðhalda honum á vettvangi alþjóðamála. Ísland heldur áfram að láta til sín taka innan Sameinuðu þjóðanna og halda uppi þeim grunngildum sem þær standa fyrir, að viðhalda friði og öryggi, stuðla að vinsamlegum samskiptum milli þjóða, taka þátt í lausn alþjóðlegra vandamála en síðast en ekki síst standa vörð um mannréttindi.
Um leið og þátttaka Íslands á alþjóðavettvangi er í senn mikilvæg, þurfum við líka að huga að því að efla einstaklinga til þess að verða drifkraftur breytinga. Sem íbúar jarðarinnar eigum við öll sameiginlegra hagsmuna að gæta. Við þurfum að huga að sjálfbærni samfélaga, tryggja að réttindi séu virt allsstaðar, ýta undir aukinn jöfnuð og síðast en ekki víst vinna að þessu saman og passa að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Við getum öll gripið til aðgerða, sama hversu lítil eða stór áhrif við höfum á heildarútkomuna.
Heimildir:
Brynjar Karl Óttarsson. (2020, 6.desember). Í fangabúðum fasista í þrjú ár. Sótt 15.11.2021 af https://www.kaffid.is/i-fangabudum-fasista-i-thrju-ar/
Jón Ormur Halldórsson. (1995). Sameinuðu þjóðirnar, tálsýni og veruleiki. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.