Ísland gerir fyrsta rammasamning við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna

© UNFPA Yemen

 

Ísland skrifaði á dögunum undir rammasamning um stuðning við UNFPA, Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna. Með honum formfesti Ísland stuðning sinn við stofnunina og fylgir eftir skuldbindingu sína á verkefninu Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality) sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands tilkynnti  síðastliðið sumar á leiðtogafundi í París.

Samningurinn gildir til loka árs 2023 en framlögin munu veita stofnuninni fyrirsjáanleika og sveigjanleika en slík kjarnafrumlög eru gríðarlega mikilvæg einmitt svo að hægt sé að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni og þegar neyðarástand skapast. Íslensk stjórnvöld þrefalda með samningnum kjarnaframlög til UNFPA á næstu tveimur árum og nema þau 100 milljónum króna árið 2022, en þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna er sú stofnun sem hugar að kyn- og frjósemisheilsu en auk þess er unnið að frjósemisréttindum. Markmið hans er að bjóða öll börn velkomin í heiminn og að hver einasta fæðing verði trygg og örugg og að allt ungt fólk fái að njóta hæfileika sinna. Einnig gegnir hún lykilhlutverki þegar kemur að þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis á átakasvæðum, sinnir fæðingarþjónustu, mæðra- og ungbarnavernd. Þá er vinna að forvörnum gegn mæðradauða, kynbundnu ofbeldi og skaðlegum hefðum svo sem limlestingum á kynfærum kvenna og stúlkna einnig meðal málefna sem sjóðurinn vinnur hörðum höndum að, en hann starfar í rúmlega 150 ríkjum og svæðum.

Hægt er að lesa til frekar um hin fjölmörgu verkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna á heimasíðu þeirra.