Ísland kosið í framkvæmdastjórn UNESCO 2021-2025

Íslenska sendinefndin á aðalráðstefnunni: Guðrún Þorsteinsdóttir, Ragnar Þorvarðarson, Unnur Orradóttir Ramette, Elín Flygenring og Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir.

Ísland var í gær, þann 17. nóvember kosið í framkvæmdastjórn Mennta-, vísinda og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) með yfirgnæfandi stuðningi á aðalráðstefnu stofnunarinnar í París sem haldin er 9. til 19. nóvember. Ísland hlaut flest atkvæði í kosningunni í sínum flokki, eða 168 en alls greiddu 178 ríki atkvæði, segir í tilkynningu Stjórnarráðssins.

Í framkvæmdastjórn sitja 58 ríki og er almennt mikil samkeppni meðal hinna 193 aðildarríkja UNESCO um sæti í framkvæmdastjórn. Stjórnin starfar með umboð frá aðalráðstefnu stofnunarinnar og ber m.a. ábyrgð á eftirfylgni ákvarðana,  greinir starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar sem framkvæmdastjóri leggur fyrir, leiðbeinir um verkefni og sinnir eftirlitshlutverki með þeim.

Ísland átti síðast sæti á árunum 2001-2005 og þar á undan 1983-1987. Þetta er því í þriðja sinn sem Ísland á sæti í framkvæmdastjórn UNESCO.

 

Framboð Íslands hefur verið til fyrirmyndar og óskar Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi öllum þeim sem komu að því innilega til hamingju með niðurstöðurnar!