Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fundaði í morgun með Elisabeth Arnsdorf Haslund, kynningarstjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslöndin (UNHCR Nordic and Baltic).
Þær ræddu meðal annars um stöðu flóttamanna, ríkisfangslausra og hælisleitenda í heiminum í dag og hvernig loftlagsbreytingar munu koma til með að hafa enn frekar áhrif á þá jaðarsettu hópa. Félag Sameinuðu þjóðanna á í góðu samstarfi við Flóttamannastofnunina á Norðurlöndum sem og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Félagið hefur þá einnig hafið vinnu á þýðingu námsefnis Flóttamannastofnunarinnar um flóttafólk fyrir kennara og nemendur sem mun nýtast vel til fræðslu í íslenskum skólum á næsta ári.
Elisabeth er komin hingað til lands til þess að taka þátt í Málþingi á vegum Flóttamannastofnunar SÞ og Útlendingastofnunar sem mun fjalla um upprætingu ríkisfangsleysis á Íslandi, en það verður haldið á morgun þann 9. desember. Eins og Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna segir skýrt hafa allir rétt til þjóðernis. Án ríkisfangs standa einstaklingar frammi fyrir tilveru sem einkennist af óöryggi og jaðarsetningu. Ríkislaust fólk er meðal þeirra viðkvæmustu í heiminum, oft synjað um að njóta réttinda eins og jafnréttis fyrir lögum, rétt til vinnu, menntunar eða heilsugæslu. Ríkislausa einstaklinga er að finna í næstum öllum löndum.
Í janúar 2021 gerðist Ísland aðili að samningum Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra frá 1954 og 1961 en þeir öðluðust svo gildi í apríl á þessu ári.
Ásamt alþjóðlegum flóttamanna- og mannréttindalögum mynda þeir alþjóðlegan lagaramma til að takast á við ríkisfangsleysi. Aðildin sem og þau fjölmörgu önnur skref sem Ísland hefur tekið ryðja brautina fyrir útrýmingu ríkisleysis í landinu. Ísland er þannig í sérstöðu til þess að ná að uppræta ríkisfangsleysi en Flóttamannastofnun SÞ hefur allt frá árinu 2014 staðið fyrir átaki sem ætlað er að uppræta ríkisfangsleysi á heimsvísu 2024.
Meginhlutverk Flóttamannstofnunar SÞ er að tryggja réttindi flóttamanna og hælisleitenda. Auk þess er hlutverkið það að verja líf þeirra sem hafa neyðst til að flýja. Saman með samstarfsaðilum, ríkjum og ýmsum samfélögum vinnur stofnunin að því að allir hafi rétt til hælis, tryggja þarf rétt flóttamanna og hælisleitenda til að finna öruggt skjól í öðru ríki. Þá vinnur hún einnig að því að finna varanlegar úrlausnir á málefnum flóttamanna um allan heim.
Ísland leggur fjármuni til Flóttamannastofnunar SÞ með reglubundnum framlögum. Árið 2016 fjórfaldaði Ísland stuðning sinn en það ár var veitt hæsta framlag sem Ísland hafði veitt þangað til. Á árunum 2010-2019 gaf Ísland rúmlega 358.699.801 kr til stofnunarinnar samkvæmt openaid.is, en þess að auki hafa framlög aukist eftir 2019, en utanríkisráðuneytið tilkynnti í október 2020 um 80 milljóna króna framlag til samtakanna vegna ástandsins í Níger, Malí og Búrkína Fasó.