Heimsmarkmið 16. – Friður og réttlæti

Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum


Nú þegar komið er fram í desembermánuð kynnum við eitt af þremur þemum mánaðarins, sem er heimsmarkmið 16 – friður og réttlæti. Á árinu 2021 munum við kynnast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 betur í gegnum þema hvers mánaðar.

Birtar verða greinar um heimsmarkmið SÞ hvert fyrir sig á árinu 2021. Jafnframt stendur til að það fylgi með tilheyrandi ítarefni og greinagóðar upplýsingar, kynningar og fræðsla um það hvernig einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og bæjarfélög geta unnið að heimsmarkmiðum SÞ. Þannig geti allir þessir ólíku aðilar lagt sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.

Ein af þeim spurningum sem vert er að velta upp og leita svara við er þessi: Hvaða tækifæri eru fólgin í heimsmarkmiðum SÞ?

Með samstilltu alþjóðlegu átaki þar sem allir leggjast á eitt getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslags- og umhverfisbreytingar, slæmt efnahagslegt ástand og félagslegar áskoranir.

Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar, mun líf allra og umhverfi batna til mikilla muna en það þarf alla til og samvinnu þvert á landamæri svo að það verði mögulegt.

Friður og réttlæti

Kona um áttræðisaldur Ratna Maya Thapa frá miðhéraði Nepal sýnir kosningaspjald eftir að hafa ferðast fótgangandi til að greiða atkvæði um stjórnlagaþing Nepals.

Heimurinn á enn langt í land að ná heimsmarkmiði SÞ um frið, réttlæti og samfélög án aðgreiningar. Mörg hundruð milljónir manna glíma við erfið skilyrði og búa í ríkjum þar sem átök geisa. Í árslok 2020 hafði um eitt prósent jarðarbúa, eða um það bil 82,4 milljónir manna, verið þvingaðar frá heimkynnum sínum vegna ofsókna, átaka eða ofbeldis af ýmsu tagi. Heimsfaraldur kórónuveirunnar (COVID-19) hefur aukið á á ójöfnuð og misrétti.

Raunin er sú að skapast hafa mikil vandræði tengd stjórnsýslu og reynt hefur á þolrif hennar, auk þess sem undirlag hennar hefur veikst og í sumum tilvikum hafa stjórnsýsluréttindi og vernd stjórnsýslunnar orðið fyrir alvarlegum hnekki. Heimsfaraldu kórónuverinnar kemur verr niður á þeim sem búa við lökustu kjörin í heiminum, einkum búa börn við miklar áskoranir. Bati eftir kreppuna og sjálfbær þróun verða að byggjast á grundvelli friðar, stöðugleika, virðingu fyrir mannréttindum, skilvirkri stjórnsýslu og öflugu réttarríki.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar eykur líkur á misnotkun barna, þar með talið barnamansali og barnaþrælkun

Kúrdísk kona greiðir atkvæði til hins nýja héraðsþings og forsetakjöri í Kúrdistan sem liggur í Írak. Ljósmyndin sýnir kjörstað í Erbíl sem SÞ fylgdist með að færu rétt fram.

Milljónir barna um allan heim búa við misnotkun, þar með talið barnamansal og barnaþrælkun. Áhættan fyrir börn eykst bæði vegna þess að skólum er lokað vegna heimsfaraldursins og eins vegna efnahagslegrar neyðar.

Mansal finnst í öllum ríkjum heimsins. Glæpamenn sem stunda slíka iðju herja einkum á þá sem eru jaðarsettir og búa við fátækt, þar á meðal börn. Á heimsvísu var eitt af hverjum þremur fórnarlömbum mansals árið 2018 barn Í lágtekjulöndum voru börn helmingur fórnarlamba mansals. Stúlkur eru fyrst og fremst fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar (72 prósent stúlkna sem eru fórnalömb mansals), á meðan drengir eru notaðir í barnaþrælkun (66 prósent drengja sem eru fórnarlömb mansals).

Fyrri efnahagskreppur hafa sýnt það að mikil aukning í atvinnuleysi fullorðinna einstaklinga og ójafn efnahagsvöxtur í kjölfarið eykur líkur á mansali. Af þessum ástæðum gæti fjárfesting í atvinnusköpun á heimsvísu fyrir fullorðna og þau ungmenni sem eru komin yfir lögaldur, samhliða efnahagsvexti, dregið úr áhættunni á því að börn verði fyrir misnotkun.

Barnaþrælkun og barnamansal eru samofin og nátengd. Í ríkjum þar sem er hátt hlutfall mansals á börnum er barnaþrælkun jafnframt í meira mæli en annars staðar. Upplýsingar um allan heim benda til aukningar í barnaþrælkun í fyrsta skipti í tvo áratugi. Í byrjun árs 2020 var fjöldi barna sem bjó við barnaþrælkun (ef undanskilin er versta tegund hennar eins og nauðungarvinna eða kynlífsmisnotkun) samtals 160 milljónir (63 milljónir stúlkna og 97 milljónir drengja). Þessi fjöldi samsvarar næstum því einu af hverjum tíu börnum í heiminum. Tæplega helmingur barna í barnaþrælkun sinnti hættulegri vinnu (79 milljónir).

Vegna áhrifa kórónuveirunnar gætu allt að 8,9 milljónir barna til viðbótar orðið fórnarlömb barnaþrælkunar fyrir lok árs 2022. Þessi harmleikur stafar af því að börn eru send til vinnu vegna atvinnu- og tekjumissis fjölskyldna. Bregðast verður við með miklu hraði og auka tekjustuðning og félagslega vernd til að hindra enn frekari barnaþrælkun.

Mútur eru fimm sinnum algengari í lágtekjulöndum en í hátekjulöndum

Lógreglulið SÞ frá Jórdan vinna skyldustörf í Haítí, ásamt með þjóðarlögreglu Haítí og öðru lögreluliði SÞ sem er staðsett Gonaïves.

Spilling gengur í berhögg við sjálfbæra þróun, eykur tekjuójöfnuð, dregur úr innlendri og erlendri fjárfestingu, og minnkar til mikilla muna gæði á opinberri þjónustu. Þrátt fyrir það er algengt í sumum löndum að vera beðinn um að borga mútur í því skyni að hafa aðgang að mikilvægri opinberri þjónustu sem tengist heilbrigðisþjónustu, menntun, neysluvatni, rafmagni og dómskerfinu. Félagsleg og efnahagsleg þróun er lykilatriði í hættunni sem samfélögum heimsins stafar af spillingu.

Samkvæmt nýjustu fáanlegu upplýsingum í rúmlega 120 ríkjum og yfirráðasvæðum á tímabilinu 2011 til 2020 var meðaltíðni mútugreiðslna í lágtekjuríkjum 37,6 prósent, en einungis 7,2 prósent í hátekjuríkjum. Ásamt öðrum afleiðingum hefur kórónuveiran orðið til þess að áður óþekktir möguleikar standa til útbreiðslu spillingar. Það að takast á við spillingu mun styðja við samþættari efnahagsbata sem byggist á heilindum og ábyrgð.

Víðtæk dauðsföll almennra borgara í vopnuðum átökum eru viðvarandi, þrátt fyrir að framfarir hafi átt sér stað á flestum svæðum heimsins

Árið 2018 var í Malí haldin seinni umferð forsetakosninga þar í landi. Ljósmynd frá kjörstað í Gaó.

Vopnuð átök leiða til dauða almennra borgara, meiðsla og áverka, sem og fólksflótta. Jafnframt er hætta á að grunnviðir eyðileggist, þar með talið heilbrigðisþjónusta. Þetta tengist síðan útbreiðslu mannréttindabrota og brota á alþjóðlegum mannúðarlögum, þar með talið gegn börnum. Um það bil 176.095 dauðsföll almennra borgara áttu sér stað í mannskæðustu stríðsátökum heimsins á árunum 2015 til 2020.

Þrátt fyrir þetta háa hlutfall fækkaði dauðsföllum almennra borgara um allan heim um 61 prósent á þessu sama tímabil. Á hinn bóginn jókst hlutfall dauðsfalla almennra borgara í átökum í Afríku sunnan Sahara um 66 prósent. Fækkun dauðsfalla almennra borgara um allan heim má rekja til þess að sum hættulegustu átökin ollu færri dauðsföllum, ásamt aukinni viðleitni til að auka vernd almennra borgara.

Árið 2020 voru 5 af hverjum 100.000 óbreyttra borgara myrtir í vopnuðum átökum, og einn af hverjum sjö voru konur eða börn. Flest dauðsföll almennra borgara voru af völdum handvopna og léttra vopna (27 prósent) eða vegna þungavopna eða sprengiefna (24 prósent). Allt árið 2020 hafa Sameinuðu þjóðirnar krafist vopnahlés til að vernda almenna borgara frá samverkandi áhrifum stríðsátaka og kórónuveirunnar.

Morð á þeim sem verja mannréttindi, blaðamönnum og verkalýðsforkólfum eru áfram alltof mörg

Stúdentar við Típóli-háskóla í Lýbíu taka þátt í fyrstu málstofunni um mannréttindi til að fagna afmæli mannréttindayfirlýsingu SÞ frá árinu 1948.

Frá árinu 2015 hafa morð á mannréttindafrömuðum, blaðamönnum og verkalýðsforkólfum verið tilkynnt í þriðjungi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Þessi morð hafa haldið áfram þrátt fyrir kórónuveiruna. Árið 2020 var tilkynnt um morð á 331 mannréttindafrömuði í 32 ríkjum (sem var 18 prósenta aukning frá árinu 2019), ásamt 19 mannránum og mannshvörfum í fjórtán ríkjum. Konur voru 13 prósent fórnarlamba og Suður-Ameríka er það svæði sem verður verst úti. Árið 2020 voru líka 62 blaðamenn drepnir, sem var lægsta árlega dánartíðni undanfarinn áratug.

Refsileysi leikur lykilhlutverk í morðtíðninni; í sumum tilvikum hafa samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar verið notaðar til að tryggja refsileysi. Það sem til þarf er pólitískur vilji til að lögsækja gerendur sem gæti orðið til þess að fækka dauðsföllum. Til viðbótar þessu ættu aðildarríkin að lýsa opinberlega yfir þakklæti sínu til handa þeim kjarkmiklu einstaklingum þar sem mikilvægt framlag þeirra stuðlar að réttlátari samfélögum sem byggjast á virðingu fyrir lögum og rétti.

Mannréttindastofnunum, sem komið hefur verið á fót og reynst hafa ómetanlegar á tímum kórónuveirunnar, þarf að stórefla

Helen Meagher La Lime (séð fyrir miðju), sérlegur fulltrúi SÞ í Haítí ganga í gegnum Miragoane ásamt lögregluvarðstjórum SÞ á staðnum.

Mannréttindastofnanir í þjóðríkjum eru sjálfstæðar stofnanir sem styðja við og vernda mannréttindi. Þær hafa gegnt mikilvægu hlutverki á tímum kórónuveirunnar með því að rannsaka og fylgjast með áhrifum á heilsu. Einnig hafa þær varpað ljósi á þær afleiðingar sem kreppa vegna kórónuveirunnar hefur á mannréttindi. Mannréttindastofnanir hafa líka barist gegn útbreiðslu á óáreiðanlegum og misvísandi upplýsingum og unnið að því að vernda þá hópa sem búa við lökust kjör í samfélögum víða um heim.

Árið 2020 höfðu 82 ríki sjálfstæðar mannréttindastofnanir sem tókst að uppfylla þá alþjóðlegu staðla sem eru við lýði. Sú þróun er viðbót um 17 prósent frá árinu 2015. Þriðjungur þeirra ríkja sem eru minnst þróuð (LDCs – Least Developed Countries) státa af mannréttindastofnun sem standast alþjóðleg viðmið, samanborið við eitt af hverjum fimm ríkjum árið 2015. Þessi aukning er hins vegar ekki næg til að ná að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030.

Framfarir hafa staðnað á flestum svæðum heimsins, þar sem engar nýjar mannréttindastofnanir hafa hlotið viðurkenningu eða vera settar á laggirnar frá árinu 2018. Það þarf að stórefla átak í því að stofna og styrkja mannréttindastofnanir í einstökum þjóðríkjum og tryggja um leið víðtækari aðgang að mannréttindavernd.

Fyrrverandi barnahermaður Al Shabaab sem færður var til UNICEF í Sómalíu eftir að hafa verið tekin höndum af liðsveitum Afríkusambandsins.

Staðan á Íslandi

Helstu áskoranir:

• Berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi
• Draga úr hvers kyns ofbeldisbrotum
• Efla traust á stjórnmál og stjórnsýslu og réttarvörslukerfið

Ísland er talið eitt friðsælasta land heims samkvæmt Efnahags- og friðarstofnuninni (IEP – Institute for Economics and Peace) og hefur verið það frá árinu 2008. Þó má margt betur fara og hafa íslensk stjórnvöld einsett sér að taka sérstaklega á aðkallandi málum, svo sem á ofbeldi í íslensku samfélagi. Með utanríkisstefnu sinni leggur Ísland lóð sín á vogarskálarnar til að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála, virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum, jafnrétti, lýðræði og hagsæld.

Réttarríki

Jafn aðgangur allra að réttarkerfinu á Íslandi er grunnþáttur í íslensku réttarfari en að efla réttarríkið er þó viðvarandi markmið. Í því sambandi þarf að gæta þess sérstaklega að mæta ólíkum þörfum einstaklinga, s.s. börnum, fatlaðs fólks og fólks af erlendum uppruna til að tryggja þeim aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra til og möguleika á að nýta rétt sinn. Frá og með 1. janúar 2018 er dómstólakerfið á Íslandi þriggja þrepa kerfi í stað tveggja áður. Með þeirri breytingu var réttarkerfið á Íslandi styrkt enn frekar.

Ofbeldi

Íslensk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að draga úr hvers kyns ofbeldi. Í mars 2017 var efnt til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds undir forystu velferðar-, dómsmála- og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins skilaði aðgerðaáætlun til dómsmálaráðherra 2017 og samþykkti ríkisstjórnin að veita viðbótarfjármagni til innleiðingar aðgerða.

Vinnu við áætlunina miðar vel og er jákvæður árangur aðgerðanna strax sýnilegur. Þá var í upphafi 2018 stofnaður stýrihópur um úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi (sjá kafla um heimsmarkmið 5) sem fylgir eftir innleiðingunni, mótar stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi og beitir sér fyrir innleiðingu Istanbúl-samningsins, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem Ísland fullgilti árið 2018.

Liður í undirbúningi þess var að lögfesta tvö refsiákvæði í íslensk hegningarlög, um bann við ofbeldi í nánum samböndum og um nauðungarhjónaband. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Til að svo verði þarf að huga sérstaklega að hópum sem eru í viðkvæmri stöðu og þar af leiðandi berskjaldaðri fyrir ofbeldi, svo sem fatlað fólk.

Vernd barna

Ísland hefur fullgilt og lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Árið 2018 var tekin saman fimmta og sjötta skýrsla Íslands um framkvæmd hans. Við gerð skýrslunnar var lögð áhersla á samráð við börn og fylgdi sérstök barnaskýrsla með skilaboðum frá börnum með sem viðauki við skýrslu ríkisins.

Ríkisstjórn Íslands hefur lagt mikla áherslu á að réttindum barna samkvæmt barnasáttmálanum sé fylgt eftir í framkvæmd og endurspeglast það meðal annars í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálastefnu fyrir árin 2019-2023. Ísland er í fyrsta sæti samkvæmt barnaréttarvísitölunni KidsRightsIndex sem mælir að hve miklu leyti réttindi barna eru virt um allan heim. Stjórnvöld leggja hins vegar áherslu á enn frekari umbætur til að standa vörð um réttindi barna í hvívetna.

Embættisheiti ráðherra félagsmála hefur nú verið breytt í félags- og barnamálaráðherra og í byrjun árs 2019 skipaði hann sérstakan stýrihóp Stjórnarráðsins um málefni barna. Stefnt er að því að hópurinn, í samstarfi við þingmannanefnd um málefni barna og Samband íslenskra sveitarfélaga, muni meðal annars endurskoða barnaverndarlögin, félagslega umgjörð í málefnum barna og þjónustu við börn á landsvísu.

Þá samþykkti ríkisstjórnin nýlega tillögu félags- og barnamálaráðherra um að stefnt verði að aukinni þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda og að stærri ákvarðanatökur og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.

Vernd barna gegn ofbeldi hefur verið forgangsmál hjá íslenska ríkinu. Barnahús hefur starfað frá árinu 1998, en þar geta börn sem grunur leikur á að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða annars konar alvarlegu ofbeldi fengið alla þjónustu á einum stað. Árið 2018 var opnuð ný starfsstöð Barnahúss á Akureyri í því skyni að auka aðgang barna á landsbyggðinni að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.

Í Barnahúsi fara fram könnunarviðtöl og/eða skýrslutökur fyrir dómstólum í málum þar sem grunur leikur á að börn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Einnig fara fram viðtöl í Barnahúsi við börn sem komið hafa hingað til lands án forsjáraðila og sótt um alþjóðlega vernd.

Unnið hefur verið að úttekt á stöðu barna á flótta og gerð skýrslu þar sem lagðar eru til úrbætur er varða málefni barna á flótta auk þess sem UNICEF á Íslandi, í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, Listaháskóla Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Félag iðn- og vöruhönnuða, stendur að verkefninu HEIMA: móttaka barna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnsins.

Markmið verkefnisins er að koma auga á helstu áskoranir við móttöku fylgdarlausra barna og barna sem koma til Íslands í fylgd fullorðinna, með það fyrir augum að geta framfylgt skuldbindingum Íslands um móttöku barna og að það sem barni sé fyrir bestu sé haft að leiðarljósi.

Ísland hefur fullgilt samþykktir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) er varða lágmarksaldur við vinnu, samþykkt um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana, samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu og samþykkt um afnám nauðungarvinnu. Þá er unnið að áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir aðstoð fyrir börn.

Alþingi hefur í meðförum frumvarp þar sem komið er til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans fólks með því að heimila einstaklingum sem eru 15 ára og eldri að skilgreina kyn sitt á eigin forsendum og ráða skráningu þess. Börnum sem eru yngri en 15 ára er einnig veitt sú heimild með samþykki forsjáraðila eða ef sérfræðinefnd fellst á erindi barns til að fá að breyta skráningu kyns.

Í frumvarpinu er staðfestur réttur einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð eða uppfylla kröfur um atferlisþjálfun. Jafnframt heimilar frumvarpið hlutlausa kynskráningu. Drögin að frumvarpinu fengu almennt afar jákvæðar umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun árs 2019.

Skipulögð brotastarfsemi og spilling

Brotastarfsemi verður sífellt alþjóðlegri í eðli sínu og við því hafa íslensk stjórnvöld brugðist með auknu alþjóðlegu samstarfi og eflingu innlendra stofnana í réttarvörslukerfinu og víðar. Ísland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og að Alþjóðalögreglunni Interpol og Europol ásamt því að taka þátt í Schengen samstarfinu.

Ísland er einnig aðili að alþjóðlega fjármálaðgerðahópnum Financial Action Task Force (FATF) og hafa stjórnvöld þegar lokið þýðingarmiklum áfanga til að bregðast við tilmælum FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og verður þeirri vinnu haldið áfram á næstu misserum. Þessar aðgerðir eru mikilvægur liður í því að standa vörð um fjármálakerfið til þess að hindra að ólögmætur ávinningur af brotastarfsemi flæði þar í gegn.

Þá skiptir sú vinna einnig miklu máli í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Ísland er jafnframt aðili að ríkjahópi gegn spillingu innan Evrópuráðsins (GRECO), samningi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu (UNCAC). Stjórnvöld upplýsa þessar stofnanir reglulega um íslenska löggjöf, stjórnsýslu og annað sem máli skiptir svo hægt sé að leggja mat á frammistöðu Íslands og vinna að frekari úrbótum.

Skilvirkar og ábyrgar stofnanir

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að auka gagnsæi með stefnumótun hér innanlands sem meðal annars felst í lagasetningu og vitundarvakningu. Í því skyni hefur Alþingi samþykkt siðareglur sem meðal annars ættu að auka gagnsæi auk þess sem dómarar og ákærendur hafa sett sér siðareglur. GRECO hefur lagt áherslu á að styrkja hagsmunaskráningu þingmanna og þá um leið ráðherra sem flestir eru líka þingmenn.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi. Forsætisráðherra skipaði starfshóp til að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, skipaði einnig nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana. Nefndin skilaði níu frumvörpum sem fela í sér umbætur. Þá verður lagt til við forsætisnefnd að reikningar Alþingis verði opnaðir í samræmi við það sem þegar hefur verið gert í Stjórnarráðinu.

Gagnsæi í stjórnsýslu og þátttaka almennings

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Á undanförnum árum hefur íslensk stjórnsýsla þróast í átt að aukinni viðbragðshæfni og þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Jafnframt hafa stjórnvöld á síðustu árum unnið í anda opinnar stjórnsýslu og opnað nýjan Stjórnarráðsvef þar sem möguleiki er á endurgjöf almennings og fyrirtækja með ýmsum hætti.

Einnig hefur verið opnuð samráðsgátt þar sem almenningi er veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum varðandi lagafrumvörp og aðra stefnumarkandi ákvarðanatöku stjórnvalda á framfæri. Árið 2016 voru jafnframt samþykkt ný lög um opinber fjármál sem tengja saman stefnumótun stjórnvalda við ríkisfjármál. Með innleiðingu laganna verður fjárlagaferlið gagnsærra, stefnuþættir opnari og beintengdir fjármagni sem einnig mun leiða til þess að fjárlagaferlið verði opnara almenningi.

Undirmarkmið:

16.1 Dregið verði verulega úr hvers kyns ofbeldi og dauðsföllum sem rekja má til þess. 

16.2 Tekið verði fyrir misnotkun, misneytingu, mansal og hvers kyns ofbeldi gegn börnum og pyntingar verði upprættar. 

16.3 Réttarríkið verði eflt á landsvísu og á alþjóðlegum vettvangi og tryggt verði jafnt aðgengi allra að réttarkerfinu. 

16.4 Eigi síðar en árið 2030 mun ólöglegt flæði fjármagns og vopna hafa snarminnkað, stolnar eignir verði endurheimtar í stórum stíl og barátta háð gegn hvers kyns skipulagðri glæpastarfsemi. 

16.5 Dregið verði verulega úr hvers kyns spillingu og mútum. 

16.6 Byggðar verði upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafa gagnsæi að leiðarljósi. 

16.7 Teknar verði ákvarðanir á öllum sviðum þar sem brugðist er við aðstæðum og víðtæk þátttaka tryggð. 

16.8 Þróunarlöndum verði veitt aukin aðild að alþjóðlegum stjórnarstofnunum. 

16.9 Öllum verði útveguð lögleg skilríki, þ.m.t. fæðingarvottorð, eigi síðar en árið 2030. 

16.10 Almenningur hafi aðgengi að upplýsingum og grundvallarréttindi verði tryggð í samræmi við landslöggjöf og alþjóðasamninga. 

16.a Tilteknar innlendar stofnanir verði styrktar, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu, í því skyni að efla þær, einkum í þróunarlöndunum, til að koma í veg fyrir ofbeldi og berjast gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi. 

16.b Lög og stefnumál á sviði sjálfbærrar þróunar, sem mismuna engum, verði efld og þeim framfylgt. 

 

Heimildir:

— SDG Indicators (un.org)

Heimsmarkmið | Forsíða (heimsmarkmidin.is)