5 áherslumál SÞ fyrir árið 2022

António Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræddi á Allsherjarþingi SÞ þann 21.janúar sl. þau fimm brennandi vandamál sem sett verði á oddinn hjá SÞ á árinu 2022.

Þau eru: baráttan við kórónuveirufaraldurinn, siðrof fjármálakerfisins, loftslagsbreytingar, netöryggismál og aukin ógn við frið og öryggi.  Kallar hann eftir víðtækum aðgerðum allra ríkja til að bregðast við þessum áskorunum.

António Guterres ávarpar hér fréttamenn um áherslumálin fimm 21. janúar sl.

 

Kórónuveirufaraldurinn

Hefta verður útbreiðslu faraldursins með öllum tiltækum ráðum að sögn Guterres, en á sama tíma verði ríki heims að gæta sín að grafa ekki undan mannréttindum, skerða frelsi eða setja óhóflegar takmarkanir á þegna sína. Vísindalegar rannsóknir eigi alltaf að vera forsenda þeirra aðgerða og takmarkanna sem eru beittar hverju sinni, en nefnir um leið þann ójöfnuð sem ríkir um bóluefni og dreifingu þeirra þar sem fátækari lönd hafa þurft að láta í minni pokann. Til að mynda hafa þróunarlöndin fengið sjöfalt stærri skammt en lönd í Afríku og munu þau ekki ná 70% viðmiði fyrr en árið 2024.

Siðrof fjármálakerfisins

Hið alþjóðlega fjármálakerfi sem ætlað var að tryggja stöðugleika með því að styðja við fjárhagsleg áföll eins og afleiðingar faraldursins, hefur brugðist. Afleiðingin er að fátækari lönd búa nú við hægari vöxt en áður. Þessi framþróun hefur ekki síst haft gífurlega áhrif á konur og stúlkur í þróunarlöndunum en þær hafa þurft að gjalda fyrir það með skorti á heilbrigðisþjónustu, störfum og menntun. Guterres bætir við að þessi misskipting sé kerfisbundin og sé uppskrift að óstöðugleika, kreppu og þvinguðum fólksflutningum.  Þessi ójöfnuður hafi einkennt hið alþjóðlega fjármálakerfi.

Neyðarástand vegna loftslagsbreytinga

Á loftslagsráðstefnunni í París var lagt fram það markmið að ríki heims þyrftu að minnka losun um 45% fyrir ári 2030.  Guterres leggur áherslu á að ríki heims verði að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins og auka hið sjálfákvarðaða framlag ríkja til að sporna við loftslagsbreytingum. Guterres sagði afdráttarlaust að ríki heims yrðu að styðja við orkuskipti og að hlutur orkufreks iðnaðar eins og olíu og gasvinnslu verði ekki stækkaður. Hann kallar eftir stofnun bandalaga sem muni veita fjárhagslegan og tæknilegan stuðning til þeirra þjóða sem þurfa aðstoð við orkuskipti. Ábyrgð þróaðri landa sé mikil og biðlar hann til ríkari landa að standa við loforð sín um að veita þróunarríkjum 100 milljarða dollara í loftslagsaðstoð.

Netöryggi

Mikill ójöfnuður ríkir hvað varðar aðgengi að interneti, en þrír milljarða jarðarbúa hafa enn ekki aðgang að internetinu.  Þótt tækniframfarir feli í sér ótrúlega möguleika fyrir mannkynið varaði Guterres við því að vaxandi stafræn óreiða kæmi verstu eyðileggingaröflum til góða um leið og hún drægi úr tækifærum almennings. Hann hefur lagt til að komið verði á fót “Global Digital Compact”, þar sem ríkisstjórnir, einkageirinn og borgaralegt samfélag komi saman til að koma sér saman um helstu meginreglur sem liggja til grundvallar alþjóðlegu stafrænu samstarfi.

Friðar- og öryggismál

Stríðsátök loga víða og pólitískur óstöðugleiki gerir frekari átök líkleg á komandi árum. Ríki heims þurfa að beita sér gegn rísandi stjórnmálaöflum sem kenna sig við kynþáttahatur og populisma þar sem mannréttindi er fótum troðum. SÞ hvetja ríki heims til sð vinna einnig að því að tryggja að konur séu í forystu friðaruppbyggingar og að þær taki þátt í ákvarðanatöku og miðlun í kringum friðarferli. Í ljósi fjölda átaka um allan heim, kallaði framkvæmdastjórinn eftir meiri fjárfestingu í forvörnum og friðaruppbyggingu og undirstrikaði þörfina fyrir öfluga og skilvirka SÞ.

 

Stofnunin hefur náð umtalsverðum árangri í umbótum á undanförnum árum, sagði hann, og hvatti til áframhaldandi stuðnings frá aðildarríkjum.

Ræða António Guterres í heild sinni: