Mikilvægi stuðnings við ungt fólk á flótta til framhaldsmenntunar.
Í september 2021 gaf UNHCR (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna) út sína árlegu skýrslu um menntun. Skýrsla ársins 2021 heitir “Staying the course: challenges facing refugee education”, og leggur áherslu á áskoranir og aðgengi barna og ungs fólks á flótta til menntunar framhaldsskólastigi.
Skýrslan fjallar um skort á aðgengi á menntun fyrir börn á flótta og er hún umfangsmesta gagnagreining sem hefur verið gefin út af UNHCR um menntun fólks á flótta. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Töluverður munur er á menntun flóttafólks á heimsvísu.
- Það þarf einkum að styðja við flóttafólk þegar kemur að menntun eftir grunnskóla.
- Það hefur orðið aukning á innritunum flóttafólks á framhaldsskólastigi.
- Áhrif COVID-19 á menntun flóttafólks eru gífurleg.
- Þörf er á lausnum til að minnka mun á menntunarmöguleikum fyrir flóttafólk.
Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá UNHCR yfir 40 lönd á árunum 2019-2020 var innritunarhlutfall framhaldsskólanema á flótta einungis 34% en hlutfall innritunar grunnskólanema á sama tímabili var 68%.
Covid-19 hefur sannarlega sett sitt mark á skólagöngu barna um allan heim, en fyrir ungt fólk á flótta hefur faraldurinn nánast gert skólagöngu ómögulega.
Vegna þessa gríðarlega lága hlutfalls barna og ungs fólks á flótta sem var skráð í framhaldsskóla á umræddu tímabili hefur UNHCR kallað til alþjóðlegs átaks svo hægt sé að tryggja að ungt fólk á flótta eigi meiri möguleika á að fá framhaldsmenntun.
Ef ekkert verður gert lítur út fyrir að tveir þriðju barna á flótta muni aldrei fá framhaldsskólamenntun.