Heimsmarkmiðaviku lauk nýlega en hún var haldin á EXPO2020 í Dubai vikuna 14.-22. janúar.
EXPO2020 Dubai átti upphaflega að vera árið 2020 en vegna heimsfaraldurs byrjaði ekki heimssýningin fyrr en 1. október 2021 og stendur yfir til 31. mars 2022. Í hverri viku á meðan heimssýningunni stendur er nýtt þema.
Heimsmarkmiðavikan snerist aðallega um að vekja athygli á loforðum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að vinna saman að friðsamlegum og velmegandi heimi fyrir árið 2030. Með heimsmarkmiðunum er sérstök áhersla lögð á hvað sé hægt að gera til að ýta undir sjálfbæra þróun og hvernig sé hægt að halda áfram að vekja athygli á mikilvægi hennar fyrir framtíð fyrir alla.
Öll heimsmarkmiðin 17 voru höfð að leiðarljósi í heimsmarkmiðavikunni og farið var yfir hvað þurfi að leggja meiri áherslu á og gera betur, en einnig hvað hafi tekist vel.
Sérstök áhersla var lögð á málefni kvenna og stelpna og voru samráðsvettvangar og vinnustofur um hvað sé hægt að gera til að ýta undir jafnrétti á heimsvísu, sem ýtir undir markmið 5. Jafnrétti kynjanna. Á tímum heimsfaraldurs hafa málefni kvenna og stúlkna lútið í lægra haldi og því mjög mikilvægt að gera allt til þess að sporna gegn frekari afturför í málaflokknum.
Hér má sjá upptökur af fjölda viðburða sem tengjast heimsmarkmiðunum sem haldnir voru í Heimsmarkmiðaviku.
United Nations Hub á EXPO2020
United Nations Hub er miðstöð Sameinuðu þjóðanna á EXPO2020 Dubai, en það er eins konar vettvangur viðburða, vinnustofa, sýninga og málflutningsherferða þeirra um efni sem tengjast málefnum Sameinuðu þjóðanna sem öll endurspeglast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Eitt aðal markmið Sameinuðu þjóðanna á heimssýningunni er að endurspegla mikilvægi fjölþjóðahyggju og milliríkjasamstarfs þegar kemur að því að takast á við alþjóðlegar áskoranir eins og COVID-19 og loftslagsbreytingar.
En hvað er EXPO2020 Dubai?
Fyrsta heimsýningin var haldin í London 1851 og hafa síðan þá verið haldnar sýningar víða um heiminn.
Expo 2020 er stærsta heimssýning sem haldin hefur verið til þessa, með þátttöku rúmlega 180 þjóða. Einkunnarorð heimssýningarinnar í Dubai er: „Tenging hugar, sköpun framtíðar, endurnýjanleg orka og umhverfismál “.
Sýningin í Dubai snýst um að fá fólk frá öllum heimshornum til að koma saman og íhuga hvað sé hægt að gera til að stuðla að betri framtíð. Á slíkum vettvangi skiptist fólk á hugmyndum og kemur með uppástungur af nýjungum sem stuðla að hreinni, öruggari og heilbrigðari framtíð.
Markmiðið með EXPO2020 er að byggja upp heimssamfélag með aðgerðarstefnu sem einblínir á sjálfbæra þróun og betri og jafnari heim.
Hér má lesa betur um heimssýninguna sem nú fer fram.