Borgarastyrjöldin í Jemen – sjö ár í heljarþröm

Í dag eru sjö ár frá upphafi borgarstyrjaldarinnar í Jemen sem halda áfram að skaða óbreytta borgara, ýta undir landflótta og valdið ófremdarástandi í mannúðarmálum í landinu. Síðasta miðvikudag lofuðu ríkisstjórnir 36 landa fjárframlagi um ,3 milljörðum Bandaríkjadala fjárframlagi til að mæta aukinni þörf í mannúðaraðstoð.

Uppruni átakanna

Borgarastyrjöldin í Jemen hófst árið 2015  á milli tveggja hópa, Hútí fylkingarinnar sem studdu Ali Abdullah Saleh fyrrum forseta landsins og hinsvegar hópar sem styðja núverandi forseta, Abdrabbuh Mansur Hadi, en stjórnvöld í Sádi – Arabíu hafa blandað sér í átökin og styðja stjórn Hadi. 

Hungursneyð og neyðaraðstoð

© UNFPA Yemen

Frá því að stríðið braust út fyrir sjö árum hafa almennir borgarar þurft að lifa við langvarandi neyðarástand, matvælaskort, sjúkdóma og aðra eymd þar sem hjálparstofnanir hafa átt erfitt með að takast á við. Að sögn Martin Griffiths, yfirmanns mannúðar- og neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna (OCHA) segir hann að Jemenar og alþjóðasamfélagið þyrftu að taka höndum saman og höggva á hnút ofbeldisverka í landinu, er hann ávarpaði öryggisráðið þann 15. mars sl.

„Við megum ekki láta undan þessum öflum,“ sagði hann. Hann vakti athygli á að aðeins á árinu 2022 þyrftu hjálparstofnanir um 4,3 milljarða dala til þess að veita 17 milljónum almennra borgara lífnauðsynlega neyðaraðstoð.

Ný úttekt sem nær yfir landið staðfestir að 23,4 milljónir manna þurfa nú á aðstoð að halda – eða um það bil þrír af hverjum fjórum þegnum landsins. Þar á meðal eru 19 milljónir manna sem þurfa matvælaaðstoð á næstu mánuðum – sem er tæplega 20 prósenta aukning frá árinu 2021- en á meðan munu fleiri en 160.000 þeirra standa frammi fyrir aðstæðum hungursneyðar.

Griffith bendir á að Jemen treysti nánast að öllu leyti á innflutningsvarning eða um 90% af matvælum sínum og nánast öllu eldsneyti, en þriðjungur hveitis kemur frá Rússlandi og Úkraínu. Eftir innrás rússneskra yfirvalda í Úkraínu þann 24. Febrúar sl. hafa áhyggjur á hækkuðu matvælaverði vaxið gríðarlega, en það hefur þegar tvöfaldast frá því á síðasta ári. Hann sagði jafnframt að styrkir frá Bandaríkjunum, Sádi-Arabíu, Bretlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Þýskalandi og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi afstýrt algerri hungursneyð í landinu og að það væri mikilvægur árangur.

Hans Grundberg, sérstakur sendifulltrúi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Jemen segist kanna leiðir til tafarlausrar aðgerða til að draga úr ofbeldi og koma eldsneytiskreppunni í samt lag ásamt því að tryggja ferðafrelsi. Grundberg hafði frumkvæði að samráði ýmissa fulltrúa frá Jemen; stjórnmálaflokka, sérfræðinga og aðila frá borgaralegu samfélagi og sagði að viðræður við núverandi forseta Abdrabbuh Mansur Hadi hafi verið “mjög uppbyggilegar”. 

Angelina Jolie talar á fundi öryggisráðsins um konur, frið og öryggi. UN Photo/Rick Bajornas

Angelina Jolie leikkona og sérlegur erindreki Flóttamannastofnunarinnar SÞ hefur á undanförnum árum verið að vekja athygli á hrikalegum afleiðingum borgarastyrjaldarinnar í Jemen.

Í síðustu viku hitti Jolie bæði Jemena sem eru á flótta innanlands sem og flóttamenn í norð-suðurhluta landsins. Jolie hvatti alþjóðasamfélagið til að styrkja við mannúðaraðstoð og auka framlög sín sem hafa verið undirfjármögnuð síðustu ár.  

Í heimsókn sinni og á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í dag varð Jolie vitni að þeim hörmulegu áhrifum sem þessi átök hafa haft á óbreytta borgara í Jemen, sérstaklega konur og stúlkur, sem eru meira en helmingur íbúa á flótta. Í Jemen er staða kvenna ein sú versta í heiminum en átökin hafa enn aukið á neyð kvenna og stúlkna í landinu. 

Heimild: UNHCR og news. UN.org