Kvennanefndarfundur Sameinuðu Þjóðanna 2022

 

Kvennanefndarfundur Sameinuðu Þjóðanna er haldinn vikuna 14.-25. mars í ár.

Fundurinn er sá sextugasti og sjötti hjá CSW (The Commission on the Status of Women) og er hann stærsta árlega samkoma Sameinuðu Þjóðanna um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna.

 

CSW er helsta alþjóðlega stofnunin sem er eingöngu tileinkuð kynjajafnrétti og gegnir lykilhlutverki í að efla réttindi kvenna og fylgjast með lífum þeirra um allan heim. Nefndin mótar alþjóðlega staðla um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á alþjóðavísu.

Þetta árið er í forgangi að ná kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna þegar kemur að því að móta stefnur og áætlanir í tengslum við loftslagsbreytingar og önnur brýn umhverfismálefni.

Það er viðurkennt að konur eru viðkvæmari fyrir áhrifum loftslagsbreytinga en karlar þar sem þær eru í meirihluta þegar kemur að fátækt auk þess sem konur eru háðari náttúruauðlindum sem loftslagsbreytingar ógna mest. Hingað til hefur ekki verið gert nógu vel grein fyrir mikilvægum tengslum milli kynja, félagslegs jafnréttis og loftslagsbreytinga.

Á CSW fundinum í ár er hægt að fylgjast með umræðum um kynjamisrétti í tengslum við loftslagsbreytingar og mikilvægi þess að konur og stúlkur fái að taka þátt í loftslagsaðgerðum.

 

Vegna áframhaldandi áhrifa Covid-19 verður fundurinn í ár með blönduðu sniði og allir hliðarviðburðir fundarins verða sýndir rafrænt.

 

 

Photo: www.unwomen.org