Norrænt samstarf UNESCO skóla

Danska UNESCO skólanetið stóð fyrir ráðstefnu 10. og 11. mars síðastliðinn í Horsens í Danmörku undir yfirskriftinni Global Citizenship Network Meeting. Ýmis málefni voru rædd en sérstök áhersla lögð á mannréttindi og hnattræna borgaravitund. Kennarar og leiðtogar frá skólum tengslanetsins skiptust á skoðunum og sögðu frá starfinu innan síns heimalands.

Kristrún er hér þriðja frá hægri með verkefnastjórum skólaverkefnisins á norðurlöndunum

Seinni dagur ráðstefnunnar var sérstaklega ætlaður norrænum samstarfsaðilum UNESCO skóla. Fulltrúar frá Noregi, Finnlandi, Íslandi og Grænlandi sögðu frá starfinu í sínu landi.  Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi, sótti ráðstefnuna og sagði frá starfinu á Íslandi, þróuninni og starfinu framundan. Að loknum erindunum var fundargestum skipt niður í umræðuhópa þar sem rætt var m.a. um starf UNESCO skóla, móttöku flóttafólks, stuðning við nemendur, skólamál, mannréttindi, hnattræna borgaravitund og síðan en ekki síst heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun.

Á ráðstefnunni var einnig rætt um Nordic Camp ráðstefnuna – Stand up for Human Rights, sem haldin verður í haust, frá 25. sept. – 1. okt. Hún fer aðallega fram í Kaupmannahöfn, sem og í fleiri dönskum samstarfsskólum. Ísland sendir fulltrúa frá UNESCO skóla hér á landi og var það Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sem varð fyrir valinu. Danska UNESCO deildin greiðir fyrir ferðalagið og gistingu fyrir einn kennara og þrjá nemendur.

Norrænu UNESCO deildirnar halda góðum tengslum og funda reglulega. Deildirnar eru misstórar og starfa sumar með misjöfnum hætti. Íslenska deildin er tiltölulega ung að árum, hóf starfsemi árið 2015. Þá voru skólarnir einungis fjórir talsins en eru nú orðnir 12, á leikskóla- grunnskóla og framhaldsskólastigi.

Það var afskaplega fróðlegt og áhugavert að sækja UNESCO ráðstefnuna í Horsens og þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að norrænu deildirnar héldu áfram góðum tengslum og samstarfi.