Óskað eftir framboðum til Ungmennafulltrúa barna og ungmenna hjá SÞ

Kjörinn fulltrúi sækir fundi ungmennavettvangs efnahags- og félagamálaráð Sameinuðu þjóðanna ( e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum).

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og mennta- og barnamálaráðuneytið, óskar með eftir framboðum til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna.

Ungmennafulltrúinn verður lýðræðislega kjörinn á 1. leiðtogaráðsfundi LUF þann 6. apríl nk.

Mun svo nýkjörinn ungmennafulltrúi koma til með að taka þátt í Ungmennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin verður rafrænt dagana 19. og 20. apríl nk., í umboði ungs fólks á Íslandi. Tímasetning fundar ungmennavettvangisns verður auglýst síðar.

Hvernig býð ég mig fram?

Öll aðildarfélög LUF (með fulla aðild og áheyrnaraðild) geta boðið fram einn fulltrúa. Áhugasamir félagsmenn aðildarfélaga LUF þurfa því að óska eftir umboði frá stjórn viðkomandi félags. Stjórnin tilkynnir framboð með því að fylla út skráningarform, sem öll aðildarfélög koma til með að fá sent í fundarboði. Með umboði staðfestir stjórn að frambjóðandinn uppfylli eftirfarandi hæfniskröfur:

  1. Umboð frá aðildarfélagi LUF.
  2. Vera á aldrinum 18 – 25 ára.
  3. Hafa þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  4. Hafa reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga.
  5. Búa yfir leiðtogahæfni og frumkvæði.
  6. Hafa vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  7. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.

Framboðsfrestur rennur út á 1. leiðtogaráðsfundi LUF, 6. apríl 2022. 

Sendinefnd LUF

Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna skipar sæti í sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Sendinefndin skipar nú þrjá fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála og sjálfbærar þróunar.

Raddir ungmenna eru gríðarlega mikilvægar og gefst hér ungmennum á Íslandi einstakur kostur á að vinna að málefnum sem snerta þau, bæði hér heima við og á alþjóðavettvangi.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hvetur öll ungmenni sem uppfylla hæfniskröfur og hafa áhuga á að gera heiminn að betri stað fyrir alla til þess að sækja um.