Hafdís Hrönn Hafsteinssdóttir, stjórnarformaður Félags Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi skrifar
Upphafið af óvissunni
Að morgni 24. febrúar síðastliðinn vaknaði heimsbyggðin upp við fréttir sem setti hugmyndir okkar um öruggt líf í Evrópu til hliðar. Hugmyndir og vonir um að mannréttindi og lýðræði séu virt og að það sé í hávegum haft í milliríkjasamskiptum. Við urðum vör við það að einræðisherra sem dulbýr sig sem lýðræðislegan leiðtoga stærstu þjóðar Evrópu virðist vera alveg sama um réttindi og sjálfstæði ríkja og hvað þá grundvallar mannréttindi fólks, hvort sem það séu hans eigin þegna eða annarra ríkja.
Sáttmáli hinna Sameinuðu Þjóða og Samþykktir milliríkjadómsins
Þann 26. júní árið 1945 Í San Fransisco í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar var stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna undirritaður og Samþykktir milliríkjadómstólsins eru óaðskiljanlegur hluti hans.
Í sáttmálanum segir „Vér, hinar sameinuðu þjóðir, staðráðnar í að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið, að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar, að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningnum leiðir og öðrum heimildum þjóðarréttar, að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar og ætlum í þessu skyni að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir, að sameina mátt vorn til að varðveita heimsfrið og öryggi, að tryggja það með samþykkt grundvallarreglna og skipulagsstofnun að vopnavaldi skuli eigi beita, nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, og að starfrækja alþjóðaskipulag til eflingar efnahagslegum og félagslegum framförum allra þjóða.“
Stríð milli tveggja ríkja – nú er nóg komið!
Yfirstandandi hernaðaraðgerðir Rússnesku ríkisstjórnarinnar gagnvart Úkraínsku þjóðinni stríðir gegn öllu því sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir og stofnsáttmálans. Ofbeldið verður að stöðva og mannréttindalöggjöf er alþjóðleg mannréttindi varðar verður að vera virt og lýðræði og samtal verður ávallt að vera í hávegum haft! Það er svo sannarlega ekki gert í þeim átökum sem nú standa yfir. António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna segir að nú verði Rússnesk yfirvöld afdráttarlaust að draga herlið sitt út úr Úkraínu án tafar og að leiðtogar þjóðanna verði beita sér fyrir því að friði verði náð í Evrópu á ný. Það verður að vernda óbreytta borgara og alþjóðlegum mannréttindum, lögum og mannréttindalöggjöf verður að vera fylgt! Það er ekki í boði að gera ekkert og ef okkur mistekst að taka höndum saman og grípa til aðgerða að þá grafi það gegn því sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar utan um í upphafi, sem er að vernda mannréttindi og tryggja frið í hinu alþjóðasamfélagi eftir hrottalega atburði seinni heimstyrjaldarinnar.
Nú þegar hafa íslensk stjórnvöld ráðstafað einni milljón evra til mannúðaraðstoðar í Úkraínu og það skiptir máli að í samfélagi þjóða að við stöndum saman gegn hvers konar ógn gagnvart einstaka þjóðum og að við leggjum okkur fram við það að tryggja öryggi og frið í alþjóðasamfélaginu.
Félag Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi stendur með Úkraínsku þjóðinni og fordæmir harðlega árás Rússneskra yfirvalda. Við eigum öll grundvallarrétt og það er að lifa öruggu lífi, án áreitis og að mannréttindi okkar séu virt til hlítar!
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 5.mars 2022.