Móðir jörð hvetur okkur til aðgerða. Náttúra okkar þjáist vegna breytinga af mannavöldum. Höfin eru að fyllast af plasti og verða súrari og hiti er að hækka með tilheyrandi afleiðingum.
Glæpir sem trufla líffræðilegan fjölbreytileika, eins og eyðing skóga, breytingar á landnýtingu, aukinn landbúnaður og búfjárframleiðsla eða vaxandi ólögleg viðskipti með dýralíf, geta flýtt fyrir eyðileggingarhraða jarðar.
Að endurheimta vistkerfi okkar mun hjálpa til við að binda enda á fátækt, berjast gegn loftslagsbreytingum og koma í veg fyrir fjöldaútrýmingu. En við munum bara ná árangri ef allir taka þátt.
Vissir þú að:
- Um 4.7 milljón hektörum af skóglendi er eytt á hverju ári? – það landsvæði er stærra en Danmörk.
- Að um milljón tegundir dýra og plantna eru á jaðri útrýmingarhættu?
Í tilefni af þessum alþjóðlega degi móður jarðar skulum við minna okkur á að við þurfum að þróa sjálfbærara hagkerfi til að stuðla að sátt við náttúruna og jörðina.
Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda móður jörð
Við eigum aðeins eina móður jörð og þess vegna verðum við að gera allt til þess að vernda hana, segir í áhrifaríkum skilaboðum frá António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í tilefni dagsins. Þar talar hann um þær þrjár stærstu ógnir jarðarinnar:
- Loftslagsbreytingar.
- Eyðilegging náttúrunnar og líffræðilegs fjölbreytileika.
- Mengun og úrgangur.
Hann nefnir enn fremur að fyrir fimmtíu árum hafi heimurinn komið saman á ráðstefnunni í Stokkhólmi og að það hafið verið upphafið að alþjóðlegu umhverfishreyfingunni. Síðan þá höfum við séð hvað er mögulegt þegar við tökum okkur saman og knýjum fram raunverulegar breytingar. Í júní fer einmitt fram ráðstefnan Stocholm+50 í Svíþjóð, í tilefni þess að nú eru fimmtíu ár frá því að heimurinn hóf þá þrautargöngu að reyna að snúa við blaðinu. Þá kallar Guterres eftir því að við skulum sjá til þess að leiðtogar okkar komi með þann metnað og þær aðgerðir sem þarf til að takast á við þetta þrefalda neyðarástand okkar á plánetunni.