Fyrr í vikunni sótti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fundi með stjórnendum Sameinuðu þjóðanna og lýsti þar yfir stuðningi Íslands við úkraínsku þjóðina og fordæmingu á gjörðum Rússa í samtölum sínum við Aminu J. Mohammed aðstoðarframkvæmdarstjóra SÞ og Abdulla Shahid forseta allsherjarþingsins.
“Ég ítrekaði mikilvægi þess að styðja Úkraínu og standa vörð um alþjóðalög og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, en Ísland hefur verið öflugur málsvari þeirra sjónarmiða hjá stofnuninni. Á sama tíma þarf að tryggja að alþjóðlegar afleiðingar stríðsreksturs Rússa bitni ekki á þeim ríkjum sem standa nú þegar höllum fæti vegna fátæktar eða átaka, þar gegna Sameinuðu þjóðirnar mikilvægu hlutverki,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þórdís Kolbrún tilkynnti einnig að frá og með þessu ári myndi Ísland auka framlög sín til Barnahjálpar SÞ (UNICEF), UN Women og Mannfjöldasjóðs SÞ (UNFPA).
Á árunum 2017-2020 nam framlag Íslands til UNFPA 31,5 milljónum króna en það var hækkað upp í 70 milljónir árið 2021. Kjarnaframlag Íslands til UNFPA verður frá og með þessu ári hækkað upp í 120 milljónir og skrifaði Þórdís Kolbrún undir samning um áframhaldandi samvinnu við stofnunina.
Þórdís Kolbrún átti einnig fund með Sima Bahous framkvæmdastýru UN Women, en fyrir ekki svo löngu var einnig ákveðið að auka kjarnaframlag Íslands til UN Women um 12%.
Á fundi Þórdísar Kolbrúnar með aðstoðarframkvæmdastjóra UNICEF, Karin Hulshof ræddu þær um farsæla samvinnu Íslands og UNICEF í Úganda, Síerra Leóne og Líberíu og tilkynntu hún aði kjarnaframlag Íslands til stofnunarinnar myndi hækka um 15% frá og með þessu ári.
Nánar má sjá um fundi Þórdísar Kolbrúnar á vefsíðu Stjórnarráðsins.